Það komu dagar þar sem ég sá engan tilgang með því að lifa

Updated: Aug 14, 2019


Það hefur skapast þörf umræða um þunglyndi síðustu daga eftir að Robin Williams svipti sig lífi, það kom mörgum mjög á óvart enda einstaklega skemmtilegur maður þar á ferð. Það sem ekki margir vita nema mitt nánasta fólk, krakkar sem voru með mér í grunnskóla/íþróttum og aðilar af Dale Carnegie námskeiðinu, er að ég er greindur með sama geðsjúkdóm og Robin var með, geðhvörf. Rúmt heilt ár af ævi minni hef ég verið eins langt niðri og hægt er, verst var það í unglingadeildinni í grunnskóla og á árunum 2009-2011. 20-25 niðursveiflur sem vörðu í um tvær vikur í senn nokkrum sinnum á ári. Eitt skiptið, árið 2009, fór ég svo í maníu sem hefði getað endað illa, mér var sem betur fer komið undir læknishendur og þetta ástand ekki komið aftur. Það er þannig að ef þú getur orðið bæði þunglyndur og farið mjög hátt upp í líðan, þá er maður með þennan geðsjúkdóm, geðhvörf eða manic-depression á ensku.

Ég býst við því að þetta komi mörgum á óvart enda held ég að ég sé yfirleitt ferskur á að líta og var m.a. kosinn húmoristi Kópavogsskóla í 10.unda bekk þrátt fyrir mjög misjafna líðan. Í byrjun árs 2011 var þunglyndið það mikið að ég þurfti að fara í raflostsmeðferð tvisvar sinnum í viku í mánuð því engin lyf virkuðu á mig á þeim tíma. Svona meðferð er einungis framkvæmd í alvarlegustu tilvikunum. Það skilaði sér vel og ég hef haldist alveg stöðugur síðan þá, eða í þrjú og hálft ár. Svona ástand er grafalvarlegt og það komu dagar sem ég sá engan tilgang með því að lifa en náði samt alltaf að sannfæra mig um að það væru bjartari tímar fram undan, að þetta ástand gæti lagast og það væri margt að lifa fyrir - sérstaklega fjölskyldu mína.


Ég hélt þessu alltaf mest fyrir sjálfan mig framan af því ég var hræddur við viðbrögð fólks, að það myndi ekki skilja þetta nægilega vel og hugsanlega dæma mann eitthvað. Það hefur að langmestu leyti ekki verið og fólk bara hrósað manni fyrir að tala opinskátt um þetta. Ég held að það séu ekki mjög margir 25 ára einstaklingar sem hafa gengið í gegnum jafnmikla þrautagöngu og ég, þá er ég aðallega að tala um bróðurmissi, þennan geðsjúkdóm og líka rosalegar sveiflur í þyngd, sem vegur samt auðvitað minnst af þessu. Fyrir vikið myndi ég líka segja að þessi reynsla nýtist mér að skilja fólk betur en ég myndi annars gera og vera góður að gefa fólki ráð við hinum ýmsu málum. Ég hef byrjað að þroskast almennilega á uppbyggjandi hátt andlega frá árinu 2011, enda erfitt að þurfa að byrja alltaf upp á nýtt að byggja sig upp eftir miklar niðursveiflur. Ég var t.d. átta ár með menntaskólann, en það spáir enginn í því í framtíðinni, bara hvað maður sé menntaður og hvernig gangi hverju sinni. 

Ég hvet alla þá sem líður illa að opna sig við sitt nánasta fólk eða leita sér hjálpar, það eru alltof margir að deyja af völdum sjálfsvígs og stór hluti þar strákar á mínum aldri. Eins bið ég þá sem eiga nákomna vini eða ættingja að heyra í þeim ef ykkur grunar að þeim líði illa, eitt símtal gæti hugsanlega bjargað mannslífi. Ég veit ekki hvar ég væri staddur í dag án stuðnings fjölskyldu minnar, minna nánustu vina og faglegrar hjálpar, fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.


KRK