Þegar ég var sprautaður niður með valdi á bráðageðdeild Landspítalans

Updated: Oct 11, 2018

Ég skrifaði pistil um geðdeildirnar og starfsfólkið þar í mars sl. á minni persónulegu fésbókarsíðu sem var síðan líka birt á DV. Það var heldur of mikil reiði í mér þá en samt sem áður gott að koma því frá sér. Mér fannst hallað á mig og fleira fólk sem hefur verið inni á deildunum en það er aldrei gott að skrifa þegar maður er reiður. Ég skynjaði samt sem áður almenna ánægju meðal manna að ég væri að hrista aðeins upp í kerfinu og nokkrir sendu mér persónuleg skilaboð og deildu með mér reynslu sinni.


Löngu kominn tími á stærri og betri geðdeildir


Eftir þann pistil fékk ég þau svör að ég væri líklega að beina orðum mínum að röngum aðilum, þ.e. læknunum og starfsfólkinu í staðinn fyrir að beina þeim að stjórnvöldum. Mér var tjáð að nútíma geðlæknisfræði felist ekki í sér svona miklar lyfjagjafir og sprautur, heldur sé það frekar skortur á peningum til heilbrigðiskerfisins til að geta reist alvöru geðdeildir og fjölga plássunum. Það væri þá hægt að vinna miklu meira í fólkinu og minnka álagið á starfsmönnum í leiðinni.

Það myndi breyta rosalega miklu ef það yrðu lagðir peningar í þetta. Það er aragrúi af andlega veiku fólki sem fær ekki þá hjálp sem það nauðsynlega þarf á að halda og er látið bíða endalaust eftir aðstoð. Það verður spennandi að sjá hvort stjórnvöld geri eitthvað fyrir heilbrigðiskerfið á komandi árum, ég bíð allavega spenntur en skil jafnframt ekki metnaðarleysið að gera ekki róttæka og flotta hluti í þessum málum.


Maníuveikur maður jafnar sig ekki innan um aðra maníuveika


Það er skelfilegt að þurfa að vera með ellefu öðrum maníuveikum einstaklingum ofan í hvorum öðrum á lokaðri geðdeild að reyna að ná bata. Ástand annarra einstaklinga og sífelldir sprettir starfsfólks fram og til baka í svokölluðu varnarteymi, með tækin sín pípandi á fullu hefur gríðarleg áhrif á mann þarna inni og allir sveiflast í allar áttir þegar maður er að reyna að jafna sig.

Ég skrifaði lítillega um ofbeldið og frelsissviptinguna sem ég þurfti að upplifa í pistlinum í mars. Ég hef mjög lítið rætt þetta við fólk en að vera nauðungarsprautaður er upplifun sem ég óska ekki nokkrum manni. Ég hef verið lagður þrisvar inn á geðdeild eftir miklar maníur og í tvö skipti hef ég verið sprautaður niður með valdi, 2009 og 2015 en ég slapp naumlega við það 2014.


Á Landspítalanum við Hringbraut eru nokkrar geðdeildir en það var opnuð ný deild, fyrsta bráðageðdeildin á Íslandi, þann 30. maí 2014. Dagurinn var vissulega merkilegur fyrir mitt leyti og engin tilviljun - 25 ára afmælisdagurinn minn! Þessi deild er algjörlega lokuð og einungis hægt að hitta aðstandendur í ákveðnu heimsóknarherbergi. Hurðar og gluggar eru þannig gerð að nær ómögulegt er að brjóta það, algjörlega nauðsynlegt vegna ástandsins sem getur myndast.

Þessi deild hefur að geyma tólf pláss, tíu einstaklings og tvö bráðapláss. Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé eins konar maníudeild, sérstaklega á sumrin. Einstaklingar sem eru hvað hæst uppi eru settir þangað inn og fyrst plássin eru svona fá er eins gott að koma þeim sem fyrst út. Það hefur miklar afleiðingar í för með sér síðar, fólk upplifir djúpar niðursveiflur.


Sprauturnar sterkari en orð fá lýst


Í frétt DV í aprílmánuði 2015 um þessa nýju bráðageðdeild segir: Markmið deildarinnar er að auka við gæði á þjónusta þeirra allra veikustu og stytta tímann sem fólk þarf að vera innilokað vegna síns sjúkdóms.Þetta með að stytta tímann sem fólk þarf að vera innilokað segir mér að lyfjagafir og rótsterku sprauturnar hafi aukist á sama tíma. Maður er þvoglumæltur 3-4 daga eftir sprauturnar og eiginlega bara út úr heiminum. Það er engin sérstök formúla hversu oft einstaklingar eru sprautaðir, allt frá 0 og upp í 10 eða fleiri sprautur. Það fer eftir því hversu hátt uppi af maníu einstaklingurinn er og hvort hann sýnir af sér ofbeldisfulla hegðun. Það getur hins vegar komið til átaka vilji menn þær ekki sem mér finnst mjög skiljanlegt enda eru þær algjör óþverri. Ég hef líklega í þessum þremur innlögnum mínum fengið 1/5 af þeim sprautum sem mér voru upphaflega ætlaðar og þegar ég annað hvort leyfði sprauturnar eða þær voru þvingaðar að mér voru þær hafðar alveg sérstaklega sterkar, það er ég 100% viss um. Þetta er ekki eftirsóknarverð þróun sem er í gangi en hún er orðin til vegna skorts á fjármagni í heilbrigðiskerfinu. Þeir veiku þurfa að gjalda hressilega fyrir það.


Deildarstjórinn, sem ég kann mjög vel við, sagði við opnun deildarinnar 2014: Fyrir flesta sjúklingana okkar skiptir miklu máli að draga úr áreiti. Hurðaskellir, umgangur og hávaði geta til að mynda haft mjög neikvæð áhrif og tafið fyrir bata. Við leggjum áherslu á að hér sé friður en ekki kliður. Umbæturnar hér á deildinni draga þannig úr vanlíðan og árekstrum.Þetta er mjög flott markmið en ég hef ekki alveg fundið þetta þegar ég hef verið í þessi tvö skipti eftir að bráðageðdeildin var opnuð. Það er vissulega erfitt yfir hásumar að hafa næði þegar einstaklingar eru sem hæst uppi en maður verður að trúa því að starfsfólkið sé að gera sitt besta.

Ég hef verið á deild 32 C öll mín þrjú skipti, hún breytti ekki um nafn eftir að hún varð bráðageðdeild. Ég hef alltaf verið kominn mjög hátt upp og því settur þangað inn. Það vill ekki nokkur maður láta nauðungarvista sig og svipta sig sjálfræði í 24 daga, en það er gert allt upp í 100 sinnum á ári hér á landi. Ef þú ert ekki orðinn góður eftir þessa 24 daga er næsta skref þriggja mánaða sjálfræðissvipting en það hefur ekki þurft með mig.


Orðið manía kynnt fyrir mér í fyrsta sinn


Ég greindist með geðhvörf árið 2009, tvítugur að aldri. Ég sem sagt upplifði þá maníutímabil í fyrsta skipti á ævinni. Áður hafði þunglyndi mótað líf mitt mikið frá þrettán ára aldri. Þú þarft að hafa upplifað uppsveifluna til að greinast með geðhvörf en yfirleitt upplifir fólk líka þunglyndi, þó ekki allir. Ég var í fimm vikur í maníuástandinu og ég heyrði orðið manía í fyrsta skiptið þegar ég féllst á það við föður minn að fara að hitta lækni. Ég hafði hagað mér mjög undarlega vikurnar á undan og fjölskylda mín var farin að hafa miklar áhyggjur af mér. Læknirinn spurði mig hvað daga mína hafði drifið og stoppaði mig svo af eftir u.þ.b. fimm mínútna svar en það var algjörlega samhengislaust hjá mér.

Hann sagði mér að ég væri í maníu og hvort ég vildi koma aðeins með sér en sagði mér ekki hvert og hvað við værum að fara að gera. Um leið og hurðin lokaðist var komin 72 tíma frelsissvipting á mig og á þessum þremur sólarhringum var útvegað af beiðni læknis til sýslumanns, 21 dags svipting og ég gjörsamlega varnarlaus.


Ég er mikill Breiðabliksmaður og þetta ár, 2009, lönduðum við okkar fyrsta stóra titili í knattspyrnu karla þegar við urðum bikarmeistarar. Ég ætlaði svo sannarlega að fara á Breiðablik-HK í átta liða úrslitunum sem var daginn eftir að ég var lagður inn. Ég ætlaði raunar að spila þennan leik sjálfur því í maníunni fékk ég ranghugmyndir um að það væri ennþá mikill bolti í mér frá því í æsku og að ég gæti hjálpað Blikunum. Ég bað starfsfólkið mjög kurteislega um að fá að fara á leikinn því það skipti mig miklu máli, hugmyndin var að ég og faðir minn færum saman og að hann myndi koma með mig aftur eftir leikinn. Því var hafnað og ég varð mjög ósáttur, ætlaði mér út um gluggann og hlaupa á Kópavogsvöll.


Varnarteymið var kallað til sem skipaði sex fullvaxta karlmenn. Mér var boðið að taka sterk róandi lyf ella yrði ég nauðungarsprautaður. Ég sagðist ekki ætla að taka neitt inn aukalega og gaf mig ekkert með það. Það er talað um að sprautan eigi að vera algjört neyðarúrræði en þeir voru ekkert mikið að reyna að tala mig til eða róa mig niður. Ég var beygður niður af öllu teyminu, skellt í rúmið og haldið af fimm mönnum á meðan sá sjötti sprautaði mig. Það þurfti allan þennan mannskap til, talandi fyrir sjálfan mig þá er ég miklu sterkari og kröftugri í maníu heldur en ég er venjulega. Það er rosaleg orka og reiði í þessu ástandi og auðvitað líka gleði. Þú ert allra manna bestur og telur þig geta sigrað heiminn.

Ég stóð upp og las þeim pistilinn einn á einn. Gríðarlega vonsvikinn, sár og reiður en ég veit að þeim fannst þetta ekki skemmtilegt sjálfum. Þeir voru hins vegar alltof fljótir að taka upp nálina að mínu mati og þetta mun alltaf stija í mér hvernig að þessu var staðið.


Árið 2014 slapp ég naumlega við að vera sprautaður gegn mínum vilja en ég þótti helst til of aktífur á göngunum, lyfin virkuðu ekki sem skyldi sökum mikils lyfjaþols. Það átti að sprauta mig niður og slökkva á mér. Sem betur fer náði ég að tala fólkið af því og láta mig fá lyf í staðinn en það stóð tæpt.


,,Hagaðu þér eins og maður!"


Árið 2015 var kallað fram varnarteymið því ég var orðinn óþreyjufullur eftir frísku lofti. Mér var haldið inni á lokaðri geðdeildinni í níu daga samfleytt, ef það er ekki mannréttindarbrot þá veit ég ekki hvað. Einn starfsmaðurinn sagði mér að fá mér bara súrefni í gegnum litla neglda rifu á glugga sem hann benti mér á, mjög einföld lausn! Strákur sem ég kynntist vel á deildinni var minna að spá í að komast út, hann var lokaður inni án þess að fá ferskt loft í 15 daga. Bráðageðdeildin er ekki ósvipuð fangelsi get ég ímyndað mér, sérstaklega fyrstu dagana eftir innlögn.


Ég var mjög ósáttur að fá ekki að fara út í afgirtan garðinn en það er mjög erfitt að flýja af vettvangi, samt sem áður var mér haldið inni. Til leiks komu fimm menn úr varnarteyminu sem ég hafði kynnst ágætlega og ég spurði þá hvort þeir væru í alvörunni að fara að gera mér þetta. Ég streittist á móti og einn af þeim sagði mér að haga mér eins og maður. Það var alls ekki gáfulegt af honum og ég veit fyrir víst að hann var tekinn á teppið fyrir það eftir á því þetta magnaði bara andrúmsloftið. Það er betra fyrir starfsfólk að steinþegja frekar en að segja eitthvað heimskulegt í þessari stöðu. Starfsfólkið er mjög misjafnt þarna inni, sumir hjálpa manni gríðarlega en aðrir gera ástandið mun verra.

Ég gaf eftir undir lokin því ég vissi að ég var sigraður og streittist ekki á móti þegar ég var sprautaður í vöðva, standandi á miðju herbergisgólfinu lafmóður eftir átök mínúturnar á undan. Ég sagði svo þessum starfsmanni sem talaði við mig eins og smákrakka að fara norður og niður og gaf honum spark af öllu afli í afturendann. Ég hef aldrei beitt starfsfólkið ofbeldi en þessi maður átti þetta spark einfaldlega skilið. Þegar ég reiðist þarna inni læt ég það bitna á hurðum og gluggum en ekki starfsfólkinu þó að ég láti þau samt vita að maður sé ósáttur. Samband mitt við meirihluta starfsmanna er mjög gott og talsverð virðing ríkir, af minni hálfu að minnsta kosti.

Aldrei hef ég séð minnst á það á Netinu eða umræðu um það hvað þessar sprautur hafa mikil langtímaáhrif, ég hef verið í kringum átta mánuði að jafna mig eftir maníur og spila glórulausar lyfjagjafir og stífar sprautur þar mjög stóra rullu.


Varð að stórreykingamanni á nokkrum dögum


Að vera lokaður svona inni er mikil lífsreynsla, bæði góð og slæm myndi ég segja. Þetta situr alltaf í manni en fyrir vikið er ég sterkari einstaklingur. Þú sefur kannski 6-8 tíma á sólarhring en hvað er hægt að gera hina 16-18 klukkutímana? Þegar maður fær ekki að fara út í fylgd með starfsmanni er ekkert sérstaklega mikið í boði. Ég borða mikið í þessari stöðu, þyngist yfirleitt um einhver átta kíló á þessum tæpa mánuði. Geðlyf auka matarlyst mikið og lyfjaskammtarnir þarna eru ansi miklir. Einnig spilar það inn í að vera girtur af og hafa lítið að gera. Það er þó einhver afþreying til staðar, ekkert gríðarlega spennandi og ég nýtti mér hana takmarkað. Ég labba um gangana til að drepa tímann og til þess koma mér í gegnum þetta. Stundum tek ég spretti til að fá útrás en það er samt bannað og ég virði það alltaf þegar mér er bent á það.

Ég hef reykt þegar ég hef verið inni á deildinni í tveimur af þremur skiptum, 2014 og 2015 en samt hef ég aldrei verið dagreykingamaður þó ég hafi fengið mér stöku sinnum þegar ég lyfti mér upp. Aldrei notið þess eitthvað sérstaklega. Það má reykja á klukkutíma fresti og ég taldi alltaf niður mínúturnar og iðulega tók ég tvær rettur í einu og reykti eins og ég hefði aldrei gert neitt annað. Ótrúlegt hvaða áhrif svona innilokun og frelsissvipting hefur á mann. Tæpir tveir pakkar slátraðir á dag en þegar ég var svo laus af deildinni var löngunin í sígarettu mjög fljótt horfin.


Heiður að fá að halda erindi fyrir starfsfólkið


Starfsmaður á deild 32 C hringdi í mig fyrir tveimur vikum og sagði mér að það væri verið að borga fyrir starfsmennina ferðir til Englands svo þau gætu setið ráðstefnur. Þær fela það í sér hvernig sé best að meðhöndla aðstæður til að reyna eftir bestu getu að koma í veg fyrir nauðungarsprautanir. Mér finnst það gríðarlega aðdáunarvert framtak og hann bað mig um að hitta starfsfólkið - bæði þau reynslumiklu sem og þau sem eru að koma ný inn á deildirnar, halda erindi fyrir þau og segja mína reynslu hvernig það hafi verið að vera lokaður þarna inni.

Mjög mikill heiður að þau hafi viljað fá mig til að hitta sig og tala um mína upplifun af bráðageðdeildinni. Þetta var mjög skemmtilegur hópur, ég sagði mína sögu og þau spurðu mig spjörunum úr sem varð 90 mínútur í heildina. Ég hjálpaði þeim vonandi með minni afstöðu um þessi mál og hvað betur megi fara og þau mér með sinni þekkingu og áhuga á að gera eins vel og hægt er. Vonandi eru betri tímar fram undan varðandi þessi mál sem eru mér og mörgum öðrum svo mikilvæg.


KRK