95% nemenda í tíunda bekk vita ekki hvað geðhvörf eru

Updated: Oct 11, 2018


Frá því að ég hóf verkefnið mitt, Vitundarvakning um geðsjúkdóma, þann 15. febrúar sl. hef ég haldið 18 fyrirlestra fyrir krakka í tíunda bekk og nokkra fyrir fyrirtæki. Þegar ég hélt minn fyrsta fyrirlestur í gamla grunnskólanum mínum, Kópavogsskóla, vissi ég ekki hver þekking nemenda á geðsjúkdómum væri. Hafði orðið einhver breyting á síðan ég útskrifaðist þaðan árið 2005?

Stutta svarið er nei. Ég ákvað strax að byrja fyrirlesturinn alltaf á talningu og hvort krakkarnir vissu hvað gehvörf væru. Hendurnar sem fara á loft eru iðulega mjög fáar og nákvæm tala er að 24 af 443 nemenda hafa vitað hvað geðhvörf eru sem gera nákvæmlega 5,4%, sláandi vægast sagt.


Geðhvörf eru þegar einstaklingur hefur upplifað bæði þunglyndistímabil og maníutímabil, en það er algjör andstæða við hvort annað. Langflestir geta skilgreint hvað þunglyndi er - vonleysi, þróttleysi, enginn tilgangur með lífinu, allt ómögulegt og oft á tíðum sjálfsvígshugsanir. Manían er aftur á móti gríðarleg orka, mikill sannfæringakraftur, þér finnst þú mestur, bestur og getir sigrað heiminn.

Ástæðan fyrir því að ég fór að halda fyrirlestra var að gamall félagi minn úr körfuboltanum - Torfi Guðbrandsson spurði mig í byrjun janúar hvort ég hefði áhuga á halda fyrirlestur fyrir félagsmiðstöð í Kópavogi sem hann vinnur fyrir. Það var nokkrum dögum eftir að ég hafði birt strípalingssöguna af mér. Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir þetta því ég var engan veginn í þeim hugleiðingum að fara að halda fyrirlestra. Síðan þá hefur þetta bara vaxið og ég hlaut styrk frá Kópavogsbæ í sumar sem var mikill heiður. Eins og staðan er núna er planið að fara yfir í grunnskóla Reykjavíkur líka og er það í bígerð.


Ég fann það á fyrsta fyrirlestrinum hvað þetta var brýnt, krakkarnir voru illa upplýstir um þessi mál og það fékk mig til að langa að fara út um allt með þetta. Margir kennarar hafa viðurkennt fyrir mér yfir kaffibolla að tala aldrei um geðsjúkdóma við sína nemendur sem mér finnst mjög sorglegt. Engin breyting hefur orðið á þeim ellefu árum síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla. Á þeim árum voru veikindum mínum sýndur skilningur en hjálpin var mjög takmörkuð. Skólayfirvöld vissu ekki hvernig átti að bregðast við, þannig er það ennþá í dag og í flestum skólunum. Ég missti úr um 100 skóladaga í unglingadeildinni og ég veit að fyrirlestur eins og ég er með hefði hjálpað mér mjög mikið á þeim tíma, til að skilja þetta allt betur og vita að ég væri ekki einn í baráttunni.


Fordómar og vanþekking eru alltaf til staðar. Ég upplifði kannski ekki mikla fordóma í mínum veikindum en alltaf þegar ég kom til baka úr mínum djúpu þunglyndislotum sem vörðu í 10-12 daga, upplifði ég skömm frá sjálfum mér að vera svona mikið veikur og þögn og afskiptaleysi frá öðrum jafnöldrum mínum. Það var vissulega svolítið sárt en verst var samt að upplifa það í tvö skipti, annars vegar í skólanum og hins vegar í íþróttunum að einstaklingar efuðust um mín veikindi. Þá varð ég virkilega reiður og lét í mér heyra, ég gat ekki látið það viðgangast.

Ef ég á að nefna einn skóla sem mér finnst fremri öðrum í að fræða krakkana þá er það Hörðuvallaskóli í Kópavogi. Það var eitthvað sérstakt við fyrirlesturinn sem ég hélt þar síðasta vor og krakkarnir fróðari um þessi mál en í öðrum skólum. Ég vona að ég sé að ná að hjálpa einhverjum, í 30 manna bekk eru líklega 3-4 sem að tengja mest við mann sjálfan og frásagnirnar, annað hvort vegna eigin erfiðleika eða að fjölskyldumeðlimur sé eða hafi verið veikur.


8% 14-15 ára unglinga eru þunglynd, 11,5% kvíðin og 7% skaða sig. Fræðsla og vitundarvakning í þessum málum er því gríðarlega mikilvæg en hefur því miður setið á hakanum. Fræðsla til kennara, stjórnenda og foreldra er ekki síður mikilvæg og ég hef einnig haldið fyrirlestra fyrir þau. Þetta er samt sem áður að mjakast í rétta átt, ef ég ber t.d. árið 2009 þegar ég greindist með geðhvörfin við daginn í dag þá hefur umræðan aukist og fólk stigið fram, líkt og ég hef gert síðustu tvö árin.


Ég mun halda áfram að berjast og ég hlakka til að sjá hvar við stöndum eftir nokkur ár, það þýðir ekki annað en að vera bjartsýnn og halda áfram. Það er svo margt sem er hægt að bæta og gera betur.


KRK