Draumaferðin til Dallas


Ég ákvað að hafa ferðina til Dallas sem eins konar aukakafla við bókina mína „Maníuraunir“. Þó svo að ég hafi ekki verið í maníu í þessari ferð þá passar bara svo vel að hafa þetta svona og uppsetninguna svolítið í anda 2. kaflans um ferðina sögulegu til Prag árið 2009 - og einnig því Dirk Nowitzki er í 6. kaflanum.


Frá því rétt eftir aldamót fór ég að halda mikið upp á ungan þýskan körfuboltamann sem spilaði fyrir Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta. Hann heitir Dirk Nowitzki. Ég varð meiri aðdáandi með hverju árinu sem leið. Hversu hittinn hann var verandi 2.13 m á hæð, var hreint ótrúlegt. Hann breytti leiknum að mörgu leyti, núna vilja allir stórir menn geta gert eins og hann gerði, skotið boltanum annars staðar en bara í teignum. Einnig þróaði hann fljótlega í leik sinn eitthvað sem kallast „One-legged fadeaway“, þar sem hann hoppaði aftur á bak á öðrum fæti, það var því nánast ómögulegt að stöðva hann. Hann er 6. stigahæsti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar, besti Evrópumaðurinn, hittnasti stóri maðurinn í sögunni, eini hvíti leikmaðurinn sem hefur skorað 30.000 stig og mögulega besti hvíti leikmaðurinn. Það er hægt að rökræða hann eða Larry Bird, Dirk hefði látið menn líta mjög illa út á áttunda og níunda áratugnum, það er alveg ljóst.


Hann vann einn meistaratitil, árið 2011, þar sem Dallas Mavericks sigruðu stjörnuprýtt lið Miami Heat. Að mínu mati er þetta flottasti meistaratitill í sögu deildarinnar, aðeins ein stórstjarna í liðinu og Dirk þá orðinn 33 ára gamall. Eftir mikil vonbrigði árin á undan, sem ég tók talsvert inn á mig, þar sem hann var ávallt talinn bregðast á ögurstundu, sannaði hann sig sem besti leikmaður heims á þessum tíma.


Ég var búinn að bíða mjög lengi með að fara út að sjá minn mann spila en núna gat ég einfaldlega ekki beðið lengur, hann að verða 41 árs og þegar ég fór út voru allar líkur á að þetta væru hans síðustu leikir á ferlinum - 21. tímabilið og alltaf með sama liðinu. Hann er sá eini í sögunni sem hefur afrekað það. Ég var búinn að ráðfæra mig við nokkra menn til þess að reyna að átta mig á því hversu erfitt þetta yrði og hvort það væri raunhæft að ná að hitta hann. Á seinasta ári hitti ég Hlyn Bæringsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliða Íslands í körfubolta. Við vorum saman í gufu í Laugar spa og spjölluðum um körfuna, þá aðallega um Dirk. Hann sá tattú-ið mitt og ég spurði hvernig hefði verið að dekka hann á Eurobasket. Hann sagði við mig um plön mín: „Dropinn holar steininn. Þú verður bara að reyna nógu mikið og láta vita af þér, þá gæti þetta gengið upp hjá þér.“ Í desember síðastliðnum var ég síðan að horfa á NBA heima hjá Andra Þór Kristinssyni og þá settum við þetta svolítið upp. Ég yrði að vera með áberandi skilti í höllinni og senda tölvupósta og láta vita af mér á Twitter við komuna. Þetta yrði alls ekki ómögulegt.


Ég lagði af stað 28. mars í átta daga ferð, þar af voru tveir af þessum dögum sem fóru eingöngu í ferðalag, eða nákvæmlega 22 klukkutímar hvor ferð. Ég var spurður af mörgum með hverjum ég væri að fara en eðlilegri spurning þegar ég er að fara til útlanda væri: „Ferðu einn, eða fer einhver með þér?“ Ég fórnaði öllu sem ég átti fyrir þetta og náði að púsla þessu saman og fá frí hjá pabba í Mathofinu. Ég vissi ekki hvort ég gæti komið þessu heim og saman en tólf dögum fyrir ferðina pantaði ég flug, hótel og miða á tvo leiki - gegn Philadelphia 76ers og Minnesota Timberwolves. Ég eyddi eins miklum pening og ég gat í leikina og sem minnstum pening í hótel. Móðir mín, Áslaug Erla Guðnadóttir, spurði mig nokkrum dögum áður en ég fór út, af hverju ég héldi svona svakalega mikið upp á þennan mann sem hún vissi varla hver væri. Það er fyrst og síðast útaf því hversu góður í körfubolta hann var og hvernig hann spilaði, og auðvitað hvernig týpa hann er sem væri algjörlega laus við alla stjörnustæla.


Um leið og ég pantaði ferðina talaði ég við Helga Einarsson, sá sem hannaði bókina mína og gerði Dirk tattúið á mig árið 2016, um að hjálpa mér með skilti sem ég myndi hafa með mér inn í höllina. Ég ákvað grípandi texta ásamt Kjartani Ragnars, vini mínum, sem ætti að vera á skiltinu og flotta mynd með - síðan var bara að finna prentsmiðju og ákveða stærðina. Ég var alltaf á því að því stærra því betra, bara að ná að pakka þessu ofan í tösku og geta slétt úr því fyrir leikina. Ég fór í Pixel prentþjónustu og ég og höfðingjarnir Birgir Daði Jóhannsson og Magnús Magnússon veltum fyrir okkur fram og til baka hvernig útkoman yrði, þar til þeir mæltu með að setja þetta á spjald/skilti og að Merking ehf gætu græjað það. Stærðin yrði 67 cm x 1 m. Merking gerðu þetta glæsilega og ég gat brotið þetta saman þannig að skiltið færi í tösku sem 67 cm x 50 cm. Ég náði hins vegar að misreikna að stærstu ferðatöskurnar væru 67 cm á breiddina, þær töskur sem ég síðan skoðaði eftir Google-leit voru bara 60 cm. Því voru góð ráð dýr, en mamma og pabbi áttu lengst niður í geymslu mjög stóra íþróttatösku sem smellpessaði fyrir farangurinn minn. Það var hins vegar stórt gat á botninum sem var græjað með Tonnataki fyrir brottför. Ég hélt að það væri ekkert mál að fara inn í keppnishöllina með svona stórt skilti en pabbi sagði mér þegar ég var á leiðinni út á flugvöll að mögulega væri skiltið of stórt til að fara með inn í Mavericks-höllina. Eftir smá leit á Netinu sá ég að það mátti bara vera með 56 cm x 71 cm stórt skilti. Það hefði vissulega verið betra að kanna þetta áður en ég fór í þessa framkvæmd en það var þá bara að vona það besta og að mér yrði hleypt inn með það. Mjög óþægilegt engu að síður.


Ég hafði ekki farið til útlanda í tæp fjögur ár. Þeir sem hafa lesið bókina mína vita að ég reyndi í tvígang í síðustu maníu, 2017, að fara út en það gekk ekki - blessunarlega kannski. Planið þá var að fara til Dallas því mér fannst ég hafa tengst Dirk á einhvern hátt og að ég gæti gefið honum aukna orku og ferskleika á lokaárum ferils síns, því ég væri ellefu árum yngri en hann og hafi verið góður í körfubolta á mínum yngri árum. Hann gæfi mér til baka yfirsýn sína og mögnuðu skothæfileikana, við myndum sameina krafta okkar. Þegar það gekk ekki upp að fara út, vegna þess að ég hagaði mér það undarlega á flugvellinum að flugstjóri vélarinnar treysti sér ekki til að hafa mig um borð, var ekkert annað í boði en að bjóða Nowitzki til Íslands og gerði ég það í gegnum Twitter - ég taldi hann einnig hafa fengið hugboð frá mér um að koma til landsins. Ég fór því næst á Hilton Reykjavík Noridica og Grand Hótel og kannaði hvort það væru laus tvö herbergi. Það var ekkert laust á Hilton en á Grand Hótel kom synjun á kortið mitt. Ég hafði verið á útopnu hvað útgjöld varðar vikurnar á undan og eytt öllum peningunum mínum í flugið til Dallas sem mér var síðan meinað að fara í. Þetta eru 6. og 8. kafli í Maníuraunum, sá sjötti heitir „Í hugarheimi körfuboltamanns“ og áttundi heitir „Ekki hleypt úr landi.“ Í upphafi bókarinnar er snilldar ljóð frá Fanneyju Sigurðardóttur um mína vegferð og yrkti hún m.a.: „Drífðu þig upp í lestina og sjáðu hina gestina. Ingólfur og Nowitzki eru ekkert nema friskí. Tótallí til í bilað ball. Eitthvað brjálæðislega klikkað skrall.“ Þetta var því miklu stærra fyrir mig en fólk kannski gerir sér grein fyrir, að gera tilraun til þess að hitta mitt átrúnaðargoð.


Það var örlítill skjálfti í mér að hreinlega komast úr landi eftir það sem gerðist á Keflavíkurflugvelli fyrir tveimur árum. Þegar ég gekk inn á Leifsstöð var lögreglubíll lagður fyrir utan. Ég grínaðist við vini mína að það væri verið að vakta mann. Allt gekk hins vegar vel fyrir sig og flogið var til Seattle, ég var eini Íslendingurinn um borð af 170 farþegum. Ég gekk úr vélinni og spurði starfsfólkið á flugvellinum hvert ég færi til að ná í töskuna mína. Mér var bent á að fylgja einhverjum línum á gólfinu og þá kæmist ég að töskunum. Ég náði í töskuna mína og ætlaði að koma mér í gegn til þess að innrita hana fyrir flugið til Dallas. Ég hélt að ég myndi síðan gera ESTA/VISA í kjölfarið. Ég átti hins vegar að gera það um leið og ég steig út úr vélinni og mér var fylgt upp af öryggisverði, ég með risastóratösku á meðan allir aðrir voru með handfarangur og hundruðir manna komnir á undan mér. Mér tekst alltaf að koma mér í eitthvað klandur, það bregst ekki. Ég var með minn eigin öryggisvörð í gulu vesti til að reyna að hjálpa mér að ná fluginu mínu því það var komin svo löng röð. Sem betur fer náði kona, öryggisvörður að nafni Jessica, að hjálpa mér og ég fór framfyrir í röðina. Ég þurfti hins vegar að útskýra fyrir starfsmönnunum sem voru hjá ESTA/VISA hvernig ég hafi farið að þessu og að það ætti að vera nær ómögulegt að komast að töskunum sínum án þess að fara fyrst í gegnum ESTA/VISA. Ég baðst afsökunar og sagðist hafa verið þreyttur og óvanur stórum flugvöllunum, þetta hafi verið nýliðamistök hjá mér. Ég var síðan spurður spjörunum úr eins og allir sem eru að fara til Bandaríkjanna, maður er alltaf lúmskt stressaður að svara ekki einhverju rangt, mjög kaldir oft þessir starfsmenn. Það er t.d. alveg bannað að segjast vera með mikinn pening meðferðis eða vera í einhverjum viðskiptahugleiðingum. Ótrúlegt en satt tókst mér að láta starfsmann, sem var inni í einhvers konar búri, hlæja duglega þegar hann spurði mig hvað ég væri að gera til Bandaríkjanna. Ég sagðist bara vera hér af einni ástæðu, fara til Dallas og hitta Dirk Nowitzki - ég fór síðan úr peysunni minni og sýndi honum tattú-ið. Hann hló einlægt af þessu og mér tókst það sem ég hélt að væri ekki hægt, að láta starfsmann af þessu tagi hlæja.


Ég mætti á hótelið mitt sem var í suðurhluta Dallas, sex kílómetrum frá höllinni sem Dallas Mavericks spila. Á fyrsta degi fékk ég ábendingar um að snarhætta að taka leigubíla og fá mér Uber eða Lyft öpp. Það væri tvisvar til þrisvar sinnum ódýrara og ekkert minna öruggt en leigubílarnir. Það er nánast búið að útrýma leigubílunum þarna með þessu, og maður finnur þá hvergi bíðandi í röðum eins og í mörgum löndum. Einnig var mér fljótlega tjáð að vera ekki að vafra mikið um göturnar einn á kvöldin og nóttinni í suðurhluta borgarinnar, það væri mun öruggara í norðurhlutanum. Einnig var Dirk mun þekktari í norðri en suðri, ég áttaði mig á því mjög fljótt. Eins og fjölskylda og mínir nánustu vita þá er ég mjög áttavilltur þannig að ég þurfti að skoða vel hvar ég var, en ég tel mig skynja hættur nokkuð vel og passa mig mjög vel í útlöndum. Það er eðlilegt að vera með byssur á sér í Texas en

fólki er ekki ráðlagt að hafa þær á sér þegar áfengi er neytt. Hæsta gisk sem ég fékk var að ég væri 25 ára, yfirleitt hélt fólk að ég væri 22-25 ára og þau urðu undrandi þegar ég sagði því að ég yrði þrítugur í næsta mánuði. Ég lék mér stundum að segjast vera frá Texas þegar ég var spurður hvaðan ég væri. Fólk sagði að það væri möguleiki á því þangað til ég byrjaði að tala og það heyrði hreiminn. Sviss eða Holland var algengt gisk hvaðan ég kæmi. Fólkið þarna vissi frekar mikið um Ísland, þó svo að sumir héldu að við værum 20 milljónir eða hluti af Alaska. Greinilegt er að á síðustu tíu árum hefur orðið gríðarleg breyting um vitneskju fólks á Íslandi af ýmsum ástæðum - t.d. þegar gosið í Eyjafjallajökli stoppaði flugsamgöngur víðsvegar um heiminn, vegna þess að íslenska karlalandsliðið í fótbolta komst á HM, vegna mikillar aukningar ferðamanna til landsins og WOW air hrunið var líka eitthvað sem fólkið vissi af. Það var gott veður en oft tíu gráðu munur á milli daga. Ég spurði eitt kvöldið Uber-bílsstjóra af hverju það væri svona rólegt um að lítast í bænum. Hann svaraði: „Það er frekar kalt í kvöld.“ Þá voru 18 gráður úti!


Á öðrum degi hitti ég mesta öðling ferðarinnar, Corey Cates, á Christies Sports Bar. Hann er gríðarlegur íþróttaáhugamaður og styður öll liðin í Dallas. Corey átti íslenska landsliðstreyju með Gunnarsson #17 aftan á, það var því auðvelt að tengja fljótt við hann. Hann hafði aldrei nokkurn tímann séð einhvern með Dirk Nowitzki tattú - sem mér finnst ótrúlegt. Corey tók mynd af flúrinu og fór að reyna að plögga mig sem mest, setti myndina á Twitter og taggaði alla sem vettlingi gátu valdið til þess að hjálpa mér að komast nær því að hitta Dirk. Ég var örlítið kýldur niður með því að vera sagt af innfæddum að þetta yrði gríðarlega erfitt verkefni því hann væri svo mikil stórstjarna í borginni, þó svo að hann væri mjög auðmjúkur maður. Ég kom út svolítið blautur á bak við eyrun, var búinn að reyna að senda einhverja tölvupósta til félagsins en ég hélt bara að tattúið og skiltið stóra gæfu mér nokkurs konar Golden ticket til þess að hitta hann.


Mánudaginn 1. apríl var fyrri leikurinn gegn 76ers. Ég var gríðarlega spenntur, ég hafði farið á leiki árið 2012 í Los Angeles en var mun spenntari þarna og líka í miklu betri sætum. Ég var mættur í höllina 90 mínútum fyrir leikinn en í öllum spenningnum var ég líka stressaður að skiltið yrði tekið af mér því það væri of stórt. Ég ætlaði að láta líta út fyrir að það væri bara helmingurinn af lengdinni því ég gat brotið það saman en mér var sagt að breiða úr því. Fyrsti öryggisvörðurinn sagði að þetta ætti að sleppa en spurði sinn yfirmann hvort þetta væri í lagi. Þeir voru ánægðir með skilaboðin á þvi en sögðu mér að hafa það ekki upp fyrir hausinn þannig að það myndi ekki trufla aðra. Ég labbaði í sætið mitt og kannaði síðan hversu langt ég fengi að fara á meðan upphitun stæði yfir. Ég fékk að vera nánast hjá courtside sætunum en var sagt að Dirk kæmi ekki að hita upp fyrr en fimmtán mínútum fyrir leik. Fljótlega kom ljósmyndari frá liðinu og tók mynd af mér með skiltið og eftir um hálftíma var Tamara Jolee, blaðamaður hjá liðinu, búin að setja myndina á Twitter og skrifa: „There´s a man in Iceland with a fabulous Dirk tattoo. That´s all.“ Í kjölfarið birti síðan Dallas Mavericks þetta á sínum Twitter og mjög margir aðrir íþróttamiðlar í Bandaríkjunum - að einn af dyggustu aðdáendum Dirk´s væri á leiknum. Ég frétti síðar að þetta hafið komið í nokkrum dagblöðum, það hefði verið gaman að hafa þau með sér heim til eignar. Þetta fór því víðar en ég gerði mér grein fyrir fyrst um sinn og margir sem sóttu pöbbana nefndu við mig að þau hefðu séð póstinn.

Dirk kom að hita upp, ég var mjög nálægt en hann leit aldrei á mig þó svo að ég kallaði á hann. Mér fannst hann hreinlega vera að hunsa mig, ég var eini maðurinn í höllinni með svona skilti, einnig hafði hann ekki svarað neinu eða lækað neitt á Twitter um komu mína. Ég spurði öryggisvörðinn hvort ég mætti koma nær í nokkrar mínútur, alveg að parketinu, en það var ekki hægt. Mér var sagt að ég þyrfti að fara í sætið mitt þegar þjóðsöngurinn var að byrja. Ég var þónokkuð pirraður þegar ég gekk upp í sætið mitt en ákvað að ég myndi hrista það af mér undir eins. Eftir nokkrar mínútur í leiknum ákvað ég að ég þyrfti að vera sýnilegri, labbaði að hliðarlínunni og öskraði: „Dirk!! Germanator!!“ og lyfti upp skiltinu. Það var sagt við mig að þetta væri stranglega bannað á meðan leikurinn væri í gangi, ég truflaði og væri fyrir öðrum áhorfendum. Mér var tjáð að ef ég gerði þetta aftur yrði mér vísað út. Dirk er kominn á aldur en hann sýndi nokkur gamalkunn tilþrif í leiknum sem ég fagnaði líklega manna mest í höllinni. Ég náði nokkrum góðum myndböndum af því en Dallas unnu leikinn með 20 stiga mun. Ég hef í gegnum tíðina haft gaman af því að mynda stemningu í stúkunni, með Blikunum í fótboltanum og Haukunum í körfunni. Það var því áskorun að reyna að kveikja í daufri stemningu í 20.000 manna höll verandi vanur 1.500 manns á pöllunum hér heima. Ég þurfti að tímasetja söngvana vel og það var helst þegar dæmd var villa að það var hljóð í höllinni og engin tónlist. Í eitt skiptið byrjaði ég „We want Dirk!“ söng þegar hann sat á bekknum, og á 30 sekúndum var öll höllin komin með mér. Algjörlega geggjað! Eftir leikinn fór ég heim og hugsaði mér hvað ég þyrfti eiginlega að gera til að komast nær markmiði mínu, að hitta Dirk-arann.


Eftir leikinn talaði Helena Sverrisdóttir við mig og sagði mér að Lovísa Falsdóttir og fjölskylda hennar væru í Dallas en systir hennar Lovísu vinnur fyrir aðstoðarþjálfara liðsins, Jenny Boucek, sem varð tvöfaldur meistari með kvennaliði Keflavíkur tímabilið 1997-1998. Hún er jafnframt aðeins þriðji kvenkyns aðstoðarþjálfari liðs í sögu NBA-deildarinnar. Ég hugsaði með mér að þarna væri tækifæri en þetta var samt frekar langsótt því ég þekkti Lovísu varla neitt og systur hennar ekkert. Lovísa er vinkona kærustu Kristins Marinóssonar, vinar míns, og ég minnist þess að hafa aðeins einu sinni talað við hana - á skemmtanlífinu. Ég henti á hana skilaboðum á Facebook og lét reyna á þetta, það var í raun bara undir henni komið hvort hún nennti að standa í þessu eða ekki. Íslendingar hjálpast að, og þá sérstaklega í útlöndum, það er ljóst og Helena kom þarna af stað bolta sem átti eftir að breyta mjög miklu.


Þriðjudagurinn rann upp en Mavericks liðið áttu þrjá heimaleiki í röð - mánudag, miðvikudag og föstudag. Systurnar fóru á mánudagsleikinn en voru að velta því fyrir sér að sleppa miðvikudagsleiknum og fara síðan á föstudeginum. Ég sagði Lovísu að ég færi heim á fimmtudagsmorgninum og ég væri því að setja allan þunga á að komast eitthvað áleiðis á leiknum á miðvikudaginn. Ég fór út að borða á þriðjudagskvöldinu einn míns liðs. Mig langaði að fá mér eina alvöru steik í ferðinni og spurði því Corey hvert besta steikhúsið í Dallas væri. Hann nefndi fjóra staði og ég valdi einfaldlega út frá því nafni sem mér fannst flottast - Bob´s Steak & Chop House varð fyrir valinu. Ég tók Lyft-leigubíl og við mér blasti glæsikerrur fyrir utan. Ég var klæddur í stuttbuxur, í Mavericks hettupeysu og með derhúfu. Gríðarlega flottur staður, dimm lýsing og allir klæddir sínu fínasta. Mér tókst að velja glæsilegasta og dýrasta staðinn af þeim sem Corey nefndi. Ég spurði hvort það væri möguleiki á borði fyrir einn. Það var ekkert vandamál og ég boðinn velkominn, ég pantaði mér 400 gramma rib-eye steik. Besta steik, meðlæti og brauð sem ég hef nokkurn tímann fengið á veitingastað. Þjónninn spurði hvað ég væri að bralla hérna og ég sagðist bara vera hér til þess að sjá Dirk og Mavericks og sýndi henni tattú-ið. Hún sagði mér að Dirk kæmi oft á þennan stað og ég gat raunar ekki borðað steikina mína í næði fyrir sögum frá henni af mínum manni. Hún náði síðan í Bob sjálfan og ég bað hann um að skila kveðju frá mér næst þegar Dirk kæmi. Ég var að færast nær, ég fann það þarna.

Á leikdegi, miðvikudaginn 3. apríl, ákváðu Lovísa og systur hennar að fara á leikinn gegn Timberwolves og reyna að hjálpa mér en Lovísa sagðist ekki getað lofað neinu. Ég var ekki alveg eins spenntur og á mánudeginum og allt í mikilli óvissu með mögulegan hitting með Dirk. Lovísa sagði systur sína ætla að spyrja aðstoðarþjálfarann hvort það væri hægt að koma einhverju í kring en lofaði aftur engu. Mér var tjáð að þjálfarinn vildi ekki hleypa neinum sem hún þekkti ekki inn í leikmannagöngin því hún bæri ábyrð á þeim sem færu þangað inn. Þetta var því algjör rússíbani hvernig færi. Leikurinn við Minnesota var góður en hann tapaðist með tveimur stigum, ég mætti aftur með skiltið og Dirk tók strax eftir mér í upphituninni. Hann veifaði til mín og brosti. Hann hafði séð mig á samfélagsmiðlum, það var ljóst. Ég hugsaði með mér að kannski yrði ég að sætta mig við að ná ekki lengra en þetta. Það kom par til mín í hálfleik sem sögðust hafa náð myndum af því þegar Dirk brosti og benti á mig. Þau ætluðu að senda mér myndirnar á Facebook, en þær komu aldrei. Það voru margir sem tóku myndir af sér með mér, útaf tattú-inu og skiltinu, sem var mjög skemmtilegt.


Á fyrri leiknum á mánudeginum kom ljósmyndari Dallas-liðsins og sagði að hann vildi fá mig í tribute-myndbandið hans Dirk og gaf mér nafnspjaldið sitt. Við ætluðum að hittast fyrir miðvikudagsleikinn og hann sagði ég myndi pottþétt fá skiltið mitt áritað. Hann svaraði engu frá mér fyrir seinni leikinn og var mjög vandræðalegur þegar ég spurði hann á leiknum af hverju hann væri að lofa öllu fögru þegar það væri ekkert á bak við það. Hann sagðist ekki hafa fengið neinn tölvupóst frá mér, ég sagðist hafa sent honum deginum áður kl. 19.57 - tók upp símann og smellti því framan í hann með nákvæmri tímasetningu. Einnig sagðist ég hafa hringt í hann og sent honum SMS. Hann bað mig innilegrar afsökunar og sagði að því miður væri ekki tími til að taka neitt upp því leikurinn væri byrjaður og ég væri á heimleið daginn eftir. Eftir leikinn spurði ég Lovísu um stöðu mála og beið í stúkunni nálægt vellinum. Mér var sagt að ég yrði að yfirgefa svæðið ef ég væri ekki með sérstakan passa, ég þurfti þarna að hafa mig allan við að segja starfsmönnum að ég væri að bíða eftir vinkonu minni sem væri með passa inn í leikmannagöngin. Ég beið í um 30 mínútur á meðan aðstoðarþjálfarinn ákvað að hún myndi taka það á sig að leiða mig í gegn en sagði að það væri ekki víst að ég gæti hitt Dirk - hann væri stundum þreyttur eftir leikina og mikinn atgang fjölmiðla og aðdáanda. Það sem vann einnig á móti mér var að það var búið að undirbúa sérstakan klukkustundar hitting fyrir 17 ára strák með krabbamein eftir leikinn, mér hafði fyrr um daginn verið tjáð að það væri nær útilokað að hitta Dirk þarna og draumurinn því nánast úti.

Lovísa náði í mig í stúkuna og gekk með mér inn í leikmannagöngin þar sem Jenny aðstoðarþjálfari beið eftir mér. Við spjölluðum saman í nokkrar mínútur um Mavericks og Keflavíkurárin hennar og eftir smástund kom Tamara Jolee, blaðamaðurinn sem birti tístið um mig, og heilsaði upp á mig. Í sömu andrá gekk Jessica Olsson, eiginkona Dirk, að mér en hún hafði séð umfjallanirnar á Netinu og vildi hjálpa mér að láta draum minn rætast. Ég þekkti hana strax í sjón og við spjölluðum saman og stilltum okkur upp fyrir myndatöku. Hún er hálf sænsk og hálf kenísk en hún og Dirk kynntust árið 2010. Jessica er mjög indæl kona og ég sagði starfsmönnunum eftir á að auðvitað væri Dirk með konu sem passaði við hans persónuleika, ekki fræðilegur möguleiki að hann væri með einhverjum egóista eða einhverri sem sóttist mikið í sviðsljósið. Eftir spjallið okkar gekk Jessica inn í klefa til Dirk, og ræddi auk þess við Keishu Wyatt, samskiptastjóra liðsins (Director of Player Realations), og þá vissi ég að eitthvað væri að fara að gerast. Þetta var það sem gerði útslagið. Ég sá engu að síður bara fyrir mér að hann myndi koma fram, árita treyjuna mína og skiltið, taka nokkrar myndir með mér og ekkert meira. Ég beið í klukkutíma einn eftir honum og mér leið virkilega vel en biðin var einnig spennuþrungin. Þetta var loksins að fara að gerast - ég var að fara að hitta átrúnaðargoðið mitt.

Keisha kom fram og náði í mig, ég labbaði að búningsklefanum sem var einnig með líkamsræktarsal. Á móti mér tók Dirk Nowitzki, brosandi út að eyrum, og bauð mig velkominn. Það fyrsta sem ég sagði var: „Ohh shit“, við féllumst í faðma og ég rifjaði upp þýskuna mína, enda stúdent frá MK í henni árið 2013 - ég hefði aldrei náð þeim áfanga án frábærrar einkakennslu frá Rakel Margréti Viggósdóttur. Ég sagði: „Ich heiße Kristinn und ich bin neunundzwanzig Jahre alt. Ich wohne in Kópavogur, Island und ich bin dein Nummer-Eins-Fan Dirk.“ Hann var mjög ánægður að ég talaði við hann á móðurmálinu en við skiptum síðan fljótlega yfir í enskuna. Ég sýndi honum flúrið og hann skoðaði það og brosti breitt. Virkilega skemmtilegt móment. Við spjölluðum saman og hann spurði mig fljótlega um Jón Arnór Stefánsson sem var að mála hjá Mavericks í eitt tímabil, 2003-2004. Ég þekki Jón ekki neitt en ég sagði honum að hann væri GOAT (Greatest OF All Time) á Íslandi eins og hann sjálfur væri GOAT hjá Mavericks. Ef ég hefði þekkt Jón eitthvað hefði ég talað við hann áður en ég fór út, en mér fannst ólíklegt að hann nennti að standa í þessu fyrst við þekktumst ekkert. Kannski var það rangt hjá mér og ég hefði séð eftir því að hafa ekki talað við hann ef ég hefði gripið í tómt úti. Dirk spurði mig hvort ég hefði ekki komið á Eurobasket árið 2015 þar sem Ísland og Þýskaland mættust. Ég sagðist því miður ekki hafa getað komið en hafi þess í stað fórnað öllu til að sjá hann spila núna áður en hann hætti með Dallas. Hann áritaði treyjuna mína og skiltið stóra og tók síðan fram skó, sérhannaða með nafninu sínu og treyjunúmerinu 41, í skóstærð 16. Hann skrifaði á þá „To Kristinn“ og síðan áritunina sína. Ég stafaði fyrir hann nafnið mitt og fannst á því augnabliki örlítið sérstakt að hann hafði ekki hugmynd um hver ég væri eða hvernig nafnið mitt væri skrifað því ég vissi allt um hann og búinn að halda mikið upp á hann í tæp 20 ár. Það er stundum sagt að maður eigi aldrei að hitta idol-ið sitt því margir verða vonsviknir eftir hittinginn. Á myndunum sem ég fékk frá Mavericks er vart hægt að dæma hvor sé meira brosandi, ég eða hann. Þessi maður er einfaldlega einstakur - það er ekkert hægt að orða það öðruvísi. Ótrúlega ljúfur og ekki til stjörnustælar hjá honum, þannig hefur hann alltaf verið. Ég sagði honum að hann væri skilgreiningin á orðinu „Loyalty“ sem ég er með í kringum myndina af honum í sleeve-inu. Ef þessu orði er flett upp í orðabók þá ætti nafnið hans að birtast þar. Enginn leikmaður í sögu íþrótta hefur sýnt liði sínu eins mikla tryggð og hann og gefið frá sér jafnmikla peninga til þess að reyna að gera liðið sitt betra með því rýma fyrir öðrum góðum leikmönnum.

Þegar ég hélt að hittingurinn væri að klárast spurði hann mig hvort ég vildi ekki kíkja á meistarabikarinn frá því 2011. Ég var auðvitað meira en til í það og sagði honum að ég hefði grátið gleðitárum þegar Mavericks unnu, ég hefði samglaðst honum svo mikið eftir vonbrigðin árin á undan. Ég fékk mynd af mér með honum við bikarinn og við tókum í spaðann á hvorum öðrum. Hann var gríðarlega stoltur að sýna mér bikarinn - skiljanlega, þetta var hans stærsta afrek á ferlinum. Ef ég hefði verið búinn að þýða bókina mína á ensku, þá hefði ég afhent honum áritað eintak. Það var ekki staður og stund til þess að útskýra hana þarna. Kannski ræðum við það einn daginn á Bob´s Steak & Chop House! Einnig hitti ég Holger Geschwindner, þjálfarann hans sem var í heimsókn, algjör meistari sá maður. Hann hefur hjálpað Dirk gríðarlega mikið í gegnum ferilinn. Mér var síðan fylgt út af öryggisverði, ég var algjörlega í sjöunda himni. 38 myndir voru teknar af okkur og var albúmið okkar merkt á heimasíðu Mavericks: 04-03-2019 Dirk Post Game Meet & Greet.


Corey, kærastan hans og nokkrir aðrir vinir þeirra biðu eftir mér á sportbar við höllina. Corey vissi að ég var all-in þetta kvöld að reyna við markmið mitt. Ég hafði sent honum mynd af mér og konu Dirk, þegar ég hitti hana, og hann vissi því að þetta væri líklega að fara að heppnast á þeim tímapunkti. Hann var mjög spenntur yfir þessu fyrir mína hönd. Ég mætti inn á barinn og hann sagði mér að í um klukkutíma hafi ég verið brosandi út að eyrum, svitnað mikið á enninu og verið mun hljóðlátari en áður. Ég sá á vinahópnum að það var eitthvað stórt sem hafði gerst, þau höfðu aldrei hitt einhvern sem hafði fengið einkahitting með Dirk. Aðrir gestir á staðnum vildu skoða skóna og skiltið, ég leyfði þeim það en var passífur og vildi fyrir öllu koma varningnum fljótlega á hótelið mitt.

Þegar Mavericks urðu meistarar 2011 fengu samtals 160 manns í kringum liðið meistarahring. Mér finnst þetta eitthver flottast gripur sem hægt er að eiga og ég hitti einn starfsmanns liðsins á barnum og hann var með hringinn á sér. Ég fékk að prufa hann, það var því ansi margt sem maður fékk að upplifa þetta kvöld. Einn af mínum helstu draumum í lífinu er að eignast NBA-hring. Sjáum til hvað framtíðin ber í skauti sér, kannski vinn ég í kringum NBA-lið einhvern tímann.

3. apríl 2019 er besti dagur lífs míns, það er ekkert öðruvísi.


Þegar ég kom kl. 02.00 á hótelið mitt voru einungis sex klukkutímar í fyrra flugið mitt, frá Dallas til Seattle. Fljótlega eftir að ég kom á hótelið fékk ég mikinn hausverk, það var eins og það væri búið að fresta honum þar til markmiðið næðist. Ég lagðist niður, fékk mér tvær Treo í vatn og slakaði á. Þetta var búið að vera heljarinnar verkefni fram og til baka, og með mikilli óvissu um endalokin. Ég fór síðan í sturtu, pakkaði niður og setti myndina af okkur Dirk á Facebook. Það var rosalega skemmtilegt að gera það því margir af vinum og félögum höfðu fylgst spenntir með á Instagram og Snapchat. Sumir af þeim voru farnir að spyrja hvenær ég fengi eiginlega að hitta manninn, ég sagði að það myndi gerast á miðvikudagskvöldinu. Ef það hefði ekki gerst hefði ég farið mjög vonsvikinn heim því það var öllu til tjaldað og ég hafði byggt þetta upp þannig á mínum samfélagsmiðlum að ég fengi að hitta hann áður en ég færi heim. Ég svaf ekki mínútu fyrir ferðalagið langa heim og fann ekki mikið fyrir þreytu. Einhverjir, sennilega margir, lesa þetta og spyrja sig hvort möguleg manía gæti hafa verið að eiga sér stað þarna. Oft eru utanaðkomandi atvik sem geta ýtt af stað maníu og þetta var alveg gott tilefni til þess þarna. Einnig því það er komið vor hér heima, það eykur oft líkurnar. Ef manían hefði komið þá hefði hún bara komið, ég er ekkert smeykur við hana þó hún valdi oft usla hjá mér og fólkinu í kringum mig. Oft tekur hún samt nokkrar vikur að byggja sig upp. Ferðalagið heim gekk vel, ég svaf í hálftíma í hvorri vél og kom heim nánast ósofinn 40 tímana á undan. Þetta var á föstudaginn síðasta og ég svaf þá í níu klukkutíma og mætti í vinnu aftur á mánudeginum - nokkuð brattur en ekki manískur. Það væri eitthvað skrítið ef maður hefði ekki verið örlítið peppaður eftir svona svakalega ferð. Nokkrir vinir og fjölskyldumeðlimir sögðu mér að þau hefðu ekki haft alltof mikla trú á þessu hjá mér, verandi með lítið í höndunum og að reyna að hitta stórstjörnu í Bandaríkjunum.


Ég fór að hugsa út í að á 10 ára fresti gerist eitthvað stórt á minni lífsleið. Árið 1989 fæddist ég, 1999 var ég í landsliði Shell-mótsins í fótbolta, fór í fyrsta sinn á Old Trafford í Manchester og hitti þar marga af átrúnaðargoðum mínum á þeim tíma. 2009 fór ég í ferð til Prag í mikilli maníu, minni fyrstu - eins og kemur fram í bókinni, og út frá því breyttist líf mitt mikið. Nokkrum dögum síðar upplifði ég mína fyrstu innlögn á geðdeild og lífið varð ekki eins eftir það. 2019 kom síðan þessi ótrúlega ferð, sem verður líklega aldrei toppuð - aldrei að segja aldrei samt!


Í nótt tilkynnti Dirk að hann væri hættur í körfubolta. Hann kvaddi Dallas-borg með 30 stigum og sigri gegn Phoenix Suns. Það er erfitt að sætta sig við að ferlinum sé lokið en mun auðveldara eftir að hafa séð hann spila og fengið að hitta hann.


Annað kvöld fer ég í podcast hjá „Spekingar spjalla“ á Podcaststöðinni og mun þar ræða þessa ferð enn frekar ásamt fleiru.


Takk kærlega allir sem hjálpuðu við að gera þessa ferð ógleymanlega.


Dirk Nowitzki & Dallas Mavericks, thank you so much for welcoming me, it was a dream come true that I´ll never ever forget.


- Kryddzki