Fórstu í prison?

Ég fór með litla frænda mínum, syni Ragnheiðar systur minnar og Davíðs mágs míns, á ísrúnt á dögunum í tilefni af níu ára afmælis hans. Ég er alltaf með slatta af bókum í bílnum mínum og það var eitt eintak í framsætinu. Hann var meðvitaður að ég væri nýbúinn að gefa út bók en vissi minna um innihaldið sökum aldurs. Ég myndi segja að bókin mín sé fyrir 13 ára og eldri, yngri en það skilja hana ekki eins vel.

Yngsta manneskjan sem ég hafði sagt frá mínum geðhvörfum var dóttir systur minnar, sem er ellefu ára gömul. Mér fannst það í það yngsta en hún vissi ýmislegt, ég náttúrulega missti af brúðkaupi mömmu hennar og Davíðs í júlí 2017 - var handtekinn á brúðkaupsdaginn sjálfan.


Frændi minn kornungi sá eintak af bókinni í framsætinu og fór að skoða kápuna. Hann sá fljótlega handjárnið fyrir miðju og spurði mig út í það. Eftir stutta umhugsun ákvað ég bara að segja honum sannleikann, að ég hefði verið handtekinn þrisvar sinnum í maníu í gegnum tíðina og útskýrði hana, maníuna, aðeins fyrir honum. Og að ég hafi verið handtekinn og piparúðaður þegar mamma hans og pabbi giftu sig, þess vegna hafi ég ekki verið viðstaddur. Sá stutti hlóð í spurningu sem mér fannst kostuleg: „Fórstu í prison?“ Ég átti erfitt með að halda andliti og hugsaði með mér hvað það væri lítið eftir af íslenskunni, mögulega ekki nema 50 ár. Ég sagði honum að íslenska orðið væri fangelsi og útskýrði fyrir honum að það hefði ekki þurft, heldur hafi ég farið inn á geðdeild. Við áttum leið framhjá henni á Hringbraut og ég sýndi honum hana.


Þetta var áhugaverður rúntur, bæði að fræða hann um gang mála hjá stóra frænda og fá það staðfest hve fá ár íslenskan á eftir.


KRK