Fyrsta vikan eftir kjálkaskurðaðgerð

Það hafa margir spurt mig síðustu daga hvernig ég hafi það, þannig að ég ákvað að hlaða í update.

Það er liðin ein vika frá kjálkaskurðaðgerðinni og mér hefur gengur nokkuð vel. Ég er búinn að taka út mestu bólguna, sem er núna að koma út sem mar verð kominn á lygnan sjó með það eftir viku.

Á föstudaginn næsta klára ég öll lyf sem mér var úthlutað, Parkódín forte, bólgueyðandi lyf og Pensilín. Ég verð hins vegar á Corsodyl, sem er sýkladrepandi munnskol í fjórar vikur, á meðan ég get ekki burstað mig almennilega.

Ég var orðinn ágætur tveimur dögum eftir aðgerðina, búinn þá að venjast lyfjunum og að venjast því líka að nærast með því að geta opnað munninn einungis um hálfan sentímeter ... en þetta er auðvitað búið að taka helling á.

Í 80% tilfella drekk ég Hámark/Hleðlsu og bollasúpur, innbyrði um 1500 kaloríur á dag, ég ræð ekki við mikið meira en það. Ég er búinn að léttast um þrjú kíló þessa fyrstu viku þó ég líti út fyrir að hafa þyngst um 20 kíló í framan sökum bólgna. Þetta er hörkuflott weight loss, sem er það jákvæða og skemmtilega við ferlið.

16. júní verð ég laus við teygjurnar stóru uppi í mér og 30. júní lýkur eftirliti hjá kjálkaskurðlækninum mínum og kjálkabeinið þá gróið.

Það sem hefur hins vegar verið erfiðast við þetta ferli er dofinn í neðri vörinni og hökunni. Ég er ennþá það dofinn að það er alltaf eins og ég sé nýkominn úr tvöfaldri deyfingu hjá tannlækni. Þetta er mjög algengur fylgifiskur eða í um 90% tilfella. Sumir eru heppnir og finna bara fyrir dofa rétt eftir aðgerðina og síðan ekkert meir. Flestir eru dofnir í margar vikur, mánuði eða jafnvel nokkur ár áður en það lagast alveg.

U.þ.b. 10% þeirra sem fara í aðgerð á neðri kjálka verða fyrir varanlegum taugaskaða á þessu svæði neðri vör og höku. Ég vissi auðvitað af þessari áhættu og skrifaði undir plagg þess efnis fyrir aðgerðina, að þessi möguleiki væri fyrir hendi, svo að ekki væri hægt að fara í mál við kjálkaskurðlækninn, ef það gerðist. Varanlegi dofinn yrði hins vegar ekki eins mikill og ég finn fyrir núna, en mér var tjáð fyrir aðgerð að þó svo að ég myndi þurfa að sætta mig við varanlegan taugaskaða að einhverju leyti, þá væri það sennilega skárri kostur en að vera með djúpa bitið sem ég var með.

Ég er búinn að vera örlítið stressaður með þetta síðustu daga því dofinn hefur ekkert dvínað. Ég var hjá kjálkaskurðlækninum á mánudaginn og hann kleip mig ágætlega fast með töng í neðri vörina og hökuna, ég hafði smá tilfinningu. Hann sagði að við þyrftum að gefa þessum tíma.

Ég hef leitað til einstaklinga sem voru mjög dofnir fyrstu vikurnar en urðu síðan alveg góðir; það var gott að heyra það frá þeim. Þau segja mér að vera ekki smeykur. Ég verð því að vera þolinmóður og vona það besta. Það er lítið annað sem ég get gert.


KRK