Geðhvörfin bundu enda á drauma mína um atvinnumennsku

Updated: Oct 11, 2018


Ég hef ákveðið að skrifa um minn íþróttaferil því ég finn að það er að verða

vitundarvakning um andleg veikindi í landinu og fleiri eru að stíga fram sem mér

finnst algjörlega frábært. Ég vona að enn fleiri komi fram í kjölfarið. Margir hafa

eflaust spurt sig og aðra af hverju hinir og þessir náðu ekki lengra í íþrótt sinni. Ég

er nokkuð viss um andleg veikindi spili þar oft á tíðum stóra rullu. Það var allavega

þannig hjá mér. Það er hægt að gera svo miklu miklu betur innan

íþróttahreyfingarinnar að vinna með fólki sem finnur til andlegra veikinda, sem byrjar

oft þegar það er á unglingsaldri. Það er viðkvæmur aldur og ég upplifði ekki nægilega

þekkingu í þessum efnum frá mínum liðum þegar ég var að byrja að veikjast og missa

mína getu bæði í fótbolta og körfubolta.


Íþróttasagan mín


Ég var alltaf í íþróttum sem barn, aðallega í fótbolta og körfubolta en prufaði líka

handboltann. Ég átti tuttugu bolta heima hjá mér og vitandi af aðeins einum bolta í

leikskólanum mínum sem átti að vera fyrir alla krakkana var mér kvöð og pína

daglega. Það endaði með því að móðir mín leyfði mér að hætta á leikskóla þriggja og

hálfs ár og ég fékk að vera alsæll einn heima með mína bolta að æfa mig. Ég byrjaði

að æfa fótbolta fimm ára gamall með Breiðabliki og það gekk vel. Ég þótti efnilegur

og ´89 árgangurinn hjá okkur var góður. Hátindurinn á mínum knattspyrnuferli var að

verða markakóngur á Shellmótinu´98 með 19 mörk á yngra ári og að vera valinn í

landslið mótsins árið eftir á eldra ári. Ógleymanlegur tími og þarna tíu ára gamall

vissi ég að það var búist við miklu af mér og ég gerði það einnig sjálfur. Draumarnir

voru orðnir talsverðir og ég man að á þessum tíma var ég farinn í frítíma mínum að

æfa mig að skrifa eiginhandaráritunina mína. Þegar ég var einn að æfa mig úti á

velli fagnaði ég mörkunum alltaf eins og ég væri á Old Trafford, heimavelli Manchester United, með fleiri tugi þúsunda áhorfenda að horfa á mig. Ég var staðráðinn í að verða atvinnumaður í fótbolta.


Ég byrjaði í körfunni níu ára gamall með Blikunum líka, og það var sama og með

fótboltann. Ég þótti efnilegur og´89 árgangurinn okkar var góður. Við náðum þó

aldrei að skáka Njarðvíkingum sem töpuðu einungis tveimur keppnisleikjum á Íslandi

alla yngri flokkana. Ég held að ég sé ekki að skyggja á neinn þegar ég segi að ég hafi

verið topp 3 leikmaður fæddra 1989 hér á landi á meðan ég var níu til tólf ára gamall.

Það fór hins vegar að síga á ógæfu hliðina sumarið 2001.


Geðhvörfin byrja að láta á sér kræla


Ég byrjaði að finna fyrir ójafnvægi sumarið 2001 og á þremur mánuðum fór ég úr 50

kíló-um í 62. Yfirburðir mínir í íþróttum, ef svo má segja, hurfu og ég varð að

meðalmanni á nánast einu augabragði. Veturinn á eftir gekk samt þokkalega,

þunglyndið var ekki byrjað af fullu. Ég fór í markið í fótboltanum, hélt þar með mínu

sæti í A-liðinu og í körfunni færði ég mig bara aftar á völlinn og setti þristana niður.

Vörnin hjá mér var samt ekki upp á marga fiska sökum þyngsla. Haustið 2002, í

byrjun áttunda bekkjar, fór ég í gegnum mjög erfið þunglyndistímabil, sem á rætur

sínar að rekja til þess að árið áður þyngdist ég um þessi tólf kíló sem var gríðarlegt

áfall, þetta voru líklega erfiðustu tímar lífs míns. Geðsjúkdómar byrja oft á tíðum með

einhvers konar áfalli í lífi fólks, þetta var það í mínu tilfelli. Í unglingadeildinni datt

ég sennilega niður 15 sinnum í mjög djúpar þunglyndislotur og hver niðursveifla

varði í tvær vikur í senn. Ég þroskaðist mjög lítið líkamlega miðað við jafnaldra mína

á þessum tíma og 17 ára gamall sem dæmi þá var ég 175 cm en 19 ára var ég orðinn

186 cm.


Ég hef oft hugsað út í það hvað það voru lítil úrræði til staðar til að hjálpa manni í

íþróttunum á þessum tíma. Eins með skólana, og ég veit að það er ekkert breytt í dag.

Ég er hins vegar með fyrirlestra þar um mín veikindi til að reyna að breyta því.

Þjálfararnir töluðu mjög lítið við mig um mín veikindi, lítið var um góð ráð eða að

menn leituðu faglegrar aðstoðar. Þeir höfðu líklega hvorki færni né þekkingu til þess

þó þeir hafi verið færir þjálfarar að öðru leyti, bæði fótbolta og körfuboltaþjálfararnir

mínir. Ef ég hugsa út í það þá hefði ég þurft þjálfara sem væri mjög fær í svona

málum því ég var ekki opinn með þetta, vildi helst ekki tala um þetta og skammaðist

mín. Skammaðist mín líka hvað ég var orðinn slakur í boltanum, þetta voru mjög

erfiðir tímar að ganga í gegnum og ég hugsa ennþá reglulega út í það hvað ef þetta og hvað ef hitt. Ef ég væri tólf ára gamall og vissi það sem ég veit núna, ég myndi gera svo

mikið fyrir það að þið trúið því ekki. Ég hætti í fótboltanum 15 ára gamall og í

körfunni 19 ára þó ég hafi komið með nokkur comeback í 2. deildina, sem var aðallega

bara til að sprikla aðeins og upp á félagsskapinn.


Tilraun til endurkomu í skugga veikinda


Sumarið 2009 greindist ég svo með geðhvörf, tvítugur að aldri en það gerist þegar aðilar upplifa maníu í fyrsta skipti. Oftast eru bæði þunglyndis- og maníutímabil en það þekkist líka að fólk sé greint með geðhvörf því það upplifi bara maníu. Þarna var s.s. fyrsta manían mín að byrja og guð minn almáttugur hvað ég ætlaði að sigra heiminn. Nú

yrði ég sko loksins atvinnumaður! Ég vissi að ég þyrfti að byrja rólegaog það var

með Blikunum sem urðu bikarmeistarar það sumarið og ég ekki búinn að spila

fótbolta í einhver fimm ár þarna. Ég hringdi í þáverandi þjálfara Breiðabliks eftir 0:0

jafnteflisleik gegn Fjölni sem var einn af lágpunktur sumarsins hjá þeim. Ég hringdi í

hann daginn eftir og sagði: Blessaður, Kristinn Rúnar hérna - markakóngur á

Shellmótinu ´98. Þetta var ansi dapurt hjá okkur í gær, fólk var nánast með tárin í

augunum eftir leikinn. Ég var að spá hvort ég mætti ekki kíkja á æfingu, það vantar

augljóslega markaskorara. Sannfæringarkrafturinn þarna (yfirleitt mun meiri í

maníu) gerði það að verkum að hann var spenntur að fá mig á æfingu og sem gamall

Bliki þekkti ég marga stráka í liðinu. Þeir voru ánægðir að fá einn hressan í klefann

eins og þeir orðuðu það. Ég ætlaði mér að skora allavega tíu mörk í þeim tólf leikjum

sem voru eftir í deildinni, fara síðan í ensku úrvalsdeildina um haustið og auðvitað að

spila með Manchester United við hlið Wayne Rooney.


Svona getur manían verið skæð, það getur endað mjög illa. Ég mætti á æfingu og var kynntur fyrir hópnum og var svo beðinn um að kaupa mér betri skó fyrir æfingu morgundagsins. Þáverandi formaður meistaraflokksráðs karla hringdi svo í pabba um kvöldið, en pabbi er heiðursbliki og þekkir því mjög vel til klúbbsins. Formaðurinn sagði að það væri eitthvað bogið í gangi og menn gætu ekki labbað bara sisvona inn í liðið. Við pabbi fórum síðan á fund hjá honum daginn eftir í höfuðstöðvum Breiðabliks, Smáranum, og mér var tjáð að ég þyrfti að vinna mig upp í liðið og byrja á því að mæta á æfingar hjá varaliðinu, Augnabliki, í 3. deildinni. Það var alls ekki eitthvað sem mig langaði að heyra!


Nokkrum dögum síðar var ég svo búinn að keyra mig algjörlega út og lagður inn á geðdeild. Þessu ævintýri var lokið að sinni. Það sem mér finnst leiðinlegast við þessa

lífsreynslu var hvað þjálfarinn og formaðurinn litu öðruvísi á mig þegar þeir hittu

mig nokkrum mánuðum síðar, svokölluðu hornauga. Ég get talið svoleiðis viðbrögð

og framkomu frá fólki gagnvart mér eftir að ég hef verið í maníu á fingrum annarrar

handar. Að fá svoleiðis frá svo háttsettum mönnum innan íþróttafélags í efstu deild í

knattspyrnu segir mér að þeir voru ekki mikið að hjálpa mönnum sem áttu við andleg

veikindi að etja. Ég hvet því íþróttafélögin til að stíga upp, auka við fræðsluna um

þessi málefni, vera meira til staðar fyrir iðkendurna og benda þeim á þau úrræði sem

eru í boði. Það eru samtök til staðar sem eru til í að hjálpa sé til þeirra leitað en það

sem skiptir mestu máli í grunninn að mínu mati er að ræða saman, sýna skilning og

vera til staðar fyrir iðkendurna, sama á hvaða aldri þau eru.


Við erum að missa alltof mikinn efnivið úr íþróttum vegna

andlegra veikinda


Ég sá viðtal við landsliðsþjálfarann okkar í knattspyrnu karla, Heimi Hallgrímsson, fyrir nokkrum dögum þar sem hann var að tala um hvað margir strákar sem hann þjálfaði hefðu ekki verið nein gríðarleg efni en enduðu á því að verða góðir fótboltamenn og svo á hinn bóginn hvað það voru margir efnilegir fótboltamenn sem varð svo ekkert úr. Það er nokkuð ljóst, tel ég, að þarna voru margir sem áttu við andleg veikindi að etja en fengu ekki þá hjálp, fræðslu, umhyggju og væntumþykju sem þeir þurftu á að halda á erfiðum tímum og flosnuðu upp úr boltanum. Það er nánast þannig að annar hver maður á landinu er að eiga við kvíða eða þunglyndi og svo eru sumir með stærri geðsjúkdóma á borð við geðhvörf, geðklofa eða alvarlega kvíðaröskun. Öll förum við upp og niður, bara mismikið og í mínu tilfelli er það í líkingu við rússíbanareið. Ég vona að það byrji bolti að rúlla núna og við tökum okkur öll saman um að koma af stað vitundarvakningu um andleg veikindi í íþróttum og landinu öllu - útrýmum fordómum og aukum fræðslu sem stuðlar þá að betri leikmönnum í framtíðinni og betri félagsliðum.


KRK