Handviss um að lýst væri eftir mér

Ég var að leita að þessari mynd þegar ég setti inn fyrsta pistilinn um fimmtu maníuna fyrir tveimur vikum. Myndin var inni á gamla símanum mínum sem læstist, og hann er ennþá læstur. Ég áttaði mig síðan á að Facebook geymir story sem maður lætur inn og ég hafði sett myndina þangað. Myndin jók vissulega örlítið á áhyggjur fólks ... en ég var ekki í neinum feluleik með mína maníu.


Ég hef verið að velta því fyrir mér síðustu vikurnar hvert þetta ,,Mission“ var hjá mér í maníunni í júni, sem ég skrifa við myndina. Var það að ganga um höfuðborgina og kynnast nýjum hverfum og stöðum, finna mögulega næsta heimili til að búa? Var það til þess að kynnast og tengjast betur náttúrunni, vötnum og lækjum? Eða var það, sem ég hallast að mest, að ég einfaldlega var með það ,,Mission“ að klára sjálfan mig algjörlega, sama hvað það þýddi, og fá síðan hvíld og aðstoð í kjölfarið á geðdeild. Þessi manía var snörp, ekki nema rétt vika og engir skandalar urðu fjárhagslega eða á öðrum sviðum.


Það sem ég sá mest eftir var að mæta ekki í skipulagða pasta-veislu til mömmu og fjölskyldu minnar. Við mútta vorum búin að plana það því þá voru liðnar fjórar vikur frá kjálkaskurðaðgerðinni minni og ég mátti taka úr mér teygjurnar og byrja að tyggja mjúkan mat. Þetta var allt saman virkilega tæpt útaf kjálkanum á mér, manían hófst ekki nema þremur vikum eftir aðgerðina og kjálkinn var ennþá viðkvæmur og brotinn. Mér fannst pínu sárt eftir á að mæta ekki, og valda fjölskyldu minni áhyggjum af mér á sama tíma. Þegar ég var búinn að vera í Mosó í rúmlega tvo daga, þá var ég farinn að hafa áhyggjur af sjálfum mér. Bíllaus, símalaus, peningalaus og fimmtán kílómetrum frá heimili mínu í Furugrund í Kópavogi. Mig langar að þakka fólkinu í Akurholti í Mosó kærlega fyrir kaffið, sígaretturnar tvær og að hafa leyft mér að fara á klósettið hjá sér. Ég sagðist vera að skoða íbúðir í hverfinu, og sagði þeim líka að ég væri búinn að ganga stanslaust í tvo daga. Þau spurðu hvort ég vildi ekki setjast niður og slaka aðeins á. Toppfólk í alla staði. Röltið til baka í Kópavoginn var ekki eins og maður væri laukferskur eftir góðan nætursvefn og morgunverð. Ég var gjörsamlega þrotaður – ekkert sofinn í þrjá daga, ekkert búinn að borða allan tímann og orðinn draghaltur í ofan á lag. Einhvern veginn komst ég samt heim til mín aftur, það var ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn.


Ég var viss um að eftir að ég mætti ekki heim í skipulagða kvöldverðinn og af því ég væri ekki búinn að láta heyra í mér, og ekki heyrt í neinum í nokkra daga, að lýst væri eftir mér og sagt að ég væri í manísku ástandi. Ég var handviss um það og lýsti vonbrigðum mínum í huganum við fjölskyldu mína. Ég hugsaði með mér að ég yrði að gefa mig fram, það væru líkur á því að ég væri hreinlega látinn, fyrst ég væri eftirlýstur í öllum fjölmiðlum. Þetta er eitthvað sem ég vil alls ekki að gerist fyrir mig, en þarna tefldi ég á tvær hættur með það. Ég er samt ekkert viss um að ég hefði komið fljótt í leitirnar. Ég var heillengi að vafra um hesthúsin í Mosó og hjá Flugklúbbi Mosfellsbæjar. Þar var nánast enginn á ferli allan þann tíma sem ég var þar, og því mjög fáir sem sáu til mín í langan tíma.


Eftir að ég skrifaði Maníuraunir og gaf hana út fyrir jólin 2018, þá gerði ég upp nokkur mál. Meðal annars við foreldra mína, til þess að reyna að minnka áhyggjur og afskipti þeirra af mér í maníu. Ég bað þau um í næstu maníu, þessari sem var að ganga yfir, að reyna að lifa lífinu meira og spá ekki of mikið í mér þarna uppi ... vissulega erfið bón frá mér. Þau fóru eftir þessu núna, þó það hafi ekki verið auðvelt fyrir þau, og allt varð betra og þægilegra fyrir vikið. Þau hringdu reyndar í lögregluna í kringum kvöldverðinn sem ég mætti ekki í, en það var eingöngu vegna þess að þau höfðu áhyggjur af mér með brotinn kjálka ofan á uppsveifluna og báðu lögregluna að hafa augun á því ef eitthvað hefði gerst með kjálkann. Sem hafði örugglega ekkert að segja, lögreglan er of merkileg með sig til þess að nenna að spá eitthvað í álíka bónum frá fólki.


Ég hringdi í pabba morguninn eftir að ég var kominn inn á geðdeild og það kom mér gríðarlega á óvart að hann var ekki búinn að frétta af því. Ég fór í róttækar aðgerðir þegar ég gaf út bókina og þurrkaði alla út af aðstandendaskránni minni. Þetta hafði ekki gengið nægilega vel hingað til, þannig að ég þurfti að stokka upp í þessu. Ég leyfði pabba samt að koma meira inn í þetta eftir því sem dagarnir á geðdeildinni liðu. Hann á það til að vera svolítið afskiptasamur og hefur átt erfitt með að sleppa takinu af mér. Ég er 31 árs gamall en ennþá alltaf litli guttinn hans. Þetta gekk samt vel að þessu sinni. Ég held að við sem fjölskylda, og sú staðreynd að ég sé allt öðruvísi en hinir fjölskyldumeðlimirnir, séum að læra betur inn á mínar flóknu og oft erfiðu geðsveiflur eftir því sem árin líða.


KRK