Hver af ykkur ætlar að verða einkabílstjórinn minn í útlöndum á næstunni?

Updated: Sep 2, 2020

World Class Laugum var sem fyrr svolítið eins og miðpunktur alheimsins þegar ég var að fljúga upp. Ég var þar þrisvar sinnum á dag yfir vikutímabil og ég var ennþá á fljótandi fæði eftir kjálkaskurðaðgerðina. Ég reiknaði að á tveimur dögum, þegar orkan var sem mest, þá innbyrti ég aðeins 3.000 kalóríur samtals en brenndi yfir 20.000. Ég sá sjálfan mig einfaldlega grennast á þessum tveimur dögum. Kjálkaskurðlæknirinn minn hafði tjáð mér að ég mætti helst ekkert æfa fyrstu fjórar vikurnar eftir aðgerð, ég væri að innbyrða það lítið af kalóríum yfir daginn. Ef ég gæti ekki beðið, þá mætti ég taka mjög rólegar æfingar. Fyrsta æfingin var níu dögum eftir aðgerð og ég jók tempó-ið með hverri æfingunni. Ég held að ég verði að vona að hann lesi ekki um þetta, en ótrúlegt en satt þá svimaði mig aldrei og mér varð ekki óglatt á öllum þessum æfingum.

Frá aðgerðinni 20. maí, og þangað til manían var að klárast 18. júní, hafði ég farið úr 120 kílóum niður í 110, sem jók bara sjálfstraustið hjá mér.

Eftir 100 kílómetra gönguna var ég ansi þreyttur og lúinn og blóðflæðið í fótunum var nánast ekki neitt. Ég gekk úr Kópavoginum í Laugar og haltraði inn eins og níræður maður. Starfsfólkið hafði áhyggjur af mér – bakið var bogið, ég studdist við allt sem ég gat og var heila eilífð niður stigann. Ég vissi að ég þyrfti að komast í hitann í spa-inu og endurhlaða sjálfan mig. Ég fór inn í slökunarherbergið þar sem arininn er staðsettur og var einn þar inni.

Ég brast í grát. Ég var svo gjörsamlega sigraður á líkama og sál og vissi ekki hvað ég var að reyna að gera, eða hvað tæki við hjá mér. Ég var ótrúlega svangur en var ekki með neinn pening meðferðis. Ég lét sítrónuvatnið duga að því sinni og fór í heitapottinn sem var alveg sérstaklega heitur þarna, sem kom sér vel fyrir mig.

Ég haltraði ekki eins mikið úr Laugum og ég haltraði inn. Á leiðinni heim hljóp ég í gegnum Laugardalsvöllinn og lét starfsfólkið þar örlítið heyra það, og sagði þeim að það væri miklu farsælla að byggja nýjan völl en að vera að halda þessu eitthvað við. Þetta væri barn síns tíma og það væri löngu kominn tími á 20-25.000 manna völl, án hlaupabrautar. Eftir að ég tjáði starfsfólkinu skoðun mína ákvað ég að ég vildi hitta Guðna Bergsson, formann KSÍ. Það væri best fyrir alla aðila, að ég teldi, að ég tæki við sem formaður. Ég væri með stærri hugmyndir en hann og myndi láta hlutina gerast hraðar og betur. Guðni mætti hins vegar vera varaformaður og mín hægri hönd næstu árin.

Leið mín lá að inngangnum efst í stúkunni vestanmegin, þar sem skrifstofa formannsins er, eftir að hafa klifrað upp stúkusætin. Ég sá að starfsmennirnir á vellinum tóku sprett upp stúkuna þegar ég var að nálgast skrifstofuna. Hurðin opnaðist og allt var galopið en Guðni var því miður ekki á staðnum til þess að taka við hugmyndum mínum og vonandi til þess að stíga til hliðar sem formaður. Nokkrir starfsmenn komu að mér hjá skrifstofu Guðna og var nokkuð brugðið að ég hafi farið þarna inn, þeim var líka vafalítið brugðið yfir þessum tíu mínútum sem ég lét í mér heyra á vellinum, hlaupandi um svæðið.

Við þurfum nýjan þjóðarleikvang, það er ljóst. Guðni heyrir kannski í mér ef hann les þetta og vill fá ráðleggingar um framhaldið ;)

Eftir að hafa verið fylgt út af starfsmönnum KSÍ sá ég Laugardalshöllina og blótaði henni líkt og Laugardalsvellinum. Þvílíka draslið – eldgömul kúla, sem er orðin ólögleg til keppnisiðkunar vegna öryggisatriða og er ennþá meira barn síns tíma heldur en Laugardalsvöllur.

Leiðin lá í áttina að Kópavoginum en ég stoppaði á Ölver í Glæsibænum. Ég var illa klæddur, þannig að ég hitaði aðeins á mér hendurnar þegar þangað var komið og fékk mér vatnsglas, enda enn á ný fótgangandi langar vegalengdir. Ég settist aftast og hlustaði á þrjá menn við barinn tala um bíla og umferðina á Íslandi. Sjálfstraustið er iðulega gott í maníu þannig að ég fór til þeirra, og sagði án þess að kynna mig: ,,Hver af ykkur ætlar að verða einkabílstjórinn minn í útlöndum á næstunni?“

Þetta kom flatt upp á þá, tveir af þeim sögðust vera með góða vinnu hérna heima en sá þriðji var áhugasamari og spurði hvenær þetta yrði. Ég sagði: ,,Frá og með næstu viku.“ Hann hafnaði tilboðinu eftir smá umhugsun og ég sagði honum að þetta hefði verið hans versta ákvörðun á ævinni.

Ég haltraði síðan út og hristi hausinn. Við verðum að sjá til eftir nokkur ár hvort að þetta verði hans versta ákvörðun eða ekki!

Þetta er svo skrítið ástand, maníuástandið. Eina stundina er maður grátandi og bugaður á því. Klukkutíma seinna er maður fullur sjálfstrausts að segja starfsfólki á knattspyrnuvelli hispurslaust sína skoðun, og síðan mættur á barinn að bjóða mönnum sem maður hefur aldrei hitt áður vinnu sem einkabílstjórarnir manns í útlöndum.

Það verður seint sagt að ég lifi leiðinlegu lífi, en sveiflukennt og óútreiknanlegt er það engu að síður.


KRK