Lífið inni á geðdeild á Íslandi 2017

Updated: Oct 11, 2018

Sumarið hefur verið viðburðarríkt hjá mér; ég tek við mér á sumrin. Veðurfars- og birtuskilyrðin á Íslandi henta mér skelfilega verandi með geðhvörf. Þunglyndur á veturna og manískur á sumrin. Ég þyngist andlega þegar það dimmir og frystir almennilega í nóvember og desember og tek svo við mér þegar vorar og flýg með reglulegu millibili hátt upp milli júní-ágúst. Ég þarf að búa erlendis í hita og birtu á meðan vetrardekkin eru á bílunum hérna heima, frá október-apríl og venjast veðurfarinu. Mér á að geta liðið eðlilega og vel allan ársins hring í bland við rétt lyf.


Ég greindist með geðhvörf árið 2009, tvítugur að aldri. Í sumar upplifði ég mína fjórðu maníu og af virðingu og

væntumþykju við fjölskyldu mína lagðist ég tvisvar sinnum inn á bráðageðdeild 32 C við Hringbraut. Ég er nýútskrifaður af opinni deild 33 C og líður vel. Fjölskyldan mín var að fara á límíngunum - eins og Gaupi myndi orða það, yfir mínum plönum og hröðu hugsunum. Ég er búinn að segja þeim að þau verði að reyna að slaka á þegar ég fer upp en það er því miður hægara sagt en gert.


Eins og ég hef skrifað um áður er geðheilbrigðiskerfið okkar meingallað en samt sem áður eru flestir að reyna sitt besta. Ég myndi segja að 70% starfsmanna geðdeildanna séu góðir starfsmenn, aðrir þurfa að hugsa sinn gang og sér til hreyfings. Sumir læknar eru eingöngu bókaklárt fólk sem kunna ekki mannleg samskipti og dæla bara sterkum geðlyfjum í fólkið. Margir starfsmenn hafa unnið þarna inni í mörg ár, undir miklu álagi á undirmönnuðum deildunum. Þau vinna margar yfirvinnuvaktir, því fólki ber að hrósa; þau vilja raunverulega hjálpa fólki. Hins vegar er svo mikil peningavöntun inn í kerfið að ég get ekki gert fólki grein fyrir því í rituðu máli, það þarf að upplifa það til þess að raunverulega trúa því.


Eins og staðan er núna á bráðageðdeildinni, 32 C, þá er fólk sem m.a. er með geðhvörf og geðklofa að fljúga hátt upp í maníu og á meðan eru stórar framkvæmdir frá morgni til kvölds, beint fyrir utan gluggana hjá einstaklingum sem eru á deildinni - líka um helgar! Starfsfólkið undir miklu álagi, garðurinn fullur af verkfærum og vinnumönnum og þar af leiðandi ekki hægt að fara út í ferskt loft; eina fríska loftið sem er í boði fyrir fólkið. Þetta er langt frá því að standast nokkrar kröfur - háværar múr- og steypuviðgerðir því húsið er ónýtt og öll háværustu tækin í notkun, alveg frábært! Af hverju í ósköpunum er þetta gert þegar álagið er sem mest á deildinni? Af hverju er þetta t.d. ekki gert í apríl og maí? Það er ekki spáð neitt í hlutina þarna. Af hverju er ekki gert plan B á undan plan A með að fólkið fái að fara í frískt loft? Af hverju er ekki hringstigi á svölunum svo einstaklingar geti farið niður í garðinn en ekki alltaf í fylgd með tveimur starfsmönnum eins og þau séu morðingjar? Það þarf svo ótrúlega margt að gerast í þessu meingallaða geðheilbrigðiskerfi okkar.

Maturinn er síðan vægast sagt vondur, önnur hver máltíð eru soðnar dúnmjúkar fiskibollur eða 1/4 fiskiflak. Hann er samt talsvert betri á bráðageðdeildinni en á opnu deildunum.


Ég er búinn að senda tölvupóst á Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og gera honum grein fyrir alvarleika málsins; ef hann er ekki nú þegar búinn að átta sig á honum. Ég hef alltaf fílað Óttarr en hann þarf að fara að stíga upp núna og sýna úr hverju hann er gerður. Það hafa tveir einstaklingar á síðustu tveimur vikum fyrirfarið sér inn á geðdeildunum á Hringbraut. Hvað þarf í alvörunni að gerast meira svo menn í ríkisstjórninni fari að hysja upp um sig buxurnar og setja pening í geðheilbrigðiskerfið okkar? Bjarni, Benedikt, Óttarr - farið að setja penning í þetta batterí, þið getið ekki beðið lengur með þetta. Þið bara getið það ekki.


Eitt enn - á geðdeildunum eru stanslausir hurðaskellir og starfsmenn að opna hurðar með lyklum hátt í 50 sinnum á vakt. Ég myndi vilja sjá alla starfsmenn með kortaskynjara og síðan vera með dempara á hurðunum þannig að þær lokist rólega eins og þekkist í löndum sem eru mörgum skrefum á undan okkur í þessum málum, t.d. Danmörk. Halldóra Jónsdóttir, yfirlæknir á deild 32 C, hefur kannað aðstæður í öðrum löndum og ræddum við þessi mál. Fólk á deildunum er stanslaust að bregða vegna hurðaskella þegar þau eiga að vera að ná ró og varnarteymið svokallaða sífellt að koma hlaupandi inn því fólk er að ærast yfir súrefnisleysi og innilokunarkennd. Nauðungarvistun er ólögleg en samt er henni beitt allt að 100 sinnum á ári á einstaklinga - ótrúlegt.


Ég ætla að halda áfram að vera bjartsýnn á betri tíma, vonin deyr aldrei en stjórnvöld eru virkilega að gera okkur öllum erfitt fyrir með seinagangnum í þessum efnum. Koma svo!


KRK