Lagður inn á geðdeild tvisvar sinnum sama sumarið

Updated: Oct 11, 2018


Hvernig er tilfinningin að vera lagður inn á geðdeild? Hvernig er tilfinningin að vera lagður inn á geðdeild tvisvar sinnum sama sumarið? Ég held að langflestir upplifi skömm í fyrstu og jafnvel alltaf, maður þarf að komast yfir skömmina. Seinni spurningin á við mig þetta sumarið. Ég myndi svara henni að það hafi þroskandi, erfitt, lærdómsríkt en á köflum gat þetta verið skemmtilegt - ótrúlegt en satt. Ég þekki orðið bráðageðdeildina eins og handabökin á mér, yfirlæknirinn sagði að ég væri kominn með meiraprófið á deildinni, ég þekki hvern króka og kima þarna inni.


Ég eyddi samtals 27 dögum af sumrinu á geðdeild, á tveimur mismunandi tímabilum - toppið það. Ég er búinn að skrifa pistil um hvernig lífið inni á geðdeild er en ég fór lítið út í það hvaða áhrif það hafði á mig sjálfan. Ég missti af brúðkaupi systur minnar sem var mjög erfitt og sérstakt fyrir mig og fjölskyldu mína. Ég var lagður inn þremur tímum fyrir brúðkaupið en ég var þá kominn töluvert hátt upp.

Ég var einnig inni á deild þegar það voru tíu ár frá dánardegi Guðna bróður míns og fékk ég ekki að skrifa um hann eða birta mynd þann 18. ágúst. Það var mjög erfitt og ofan á það voru mikil læti á deildinni. Ég ætlaði að skrifa um að þegar ég fékk mér tattú um hann tveimur tímum eftir að ég fékk sorgarfréttirnar þá ómaði lagið Total Eclipse Of The Heart um allt Benidorm þetta kvöld, sorglegt en frábært lag. Akkúrat tíu árum síðar var þetta þjóðhátíðarlag Fm95Blö og ætlaði ég að sjálfsögðu að vera í Eyjum. Mér var einfaldlega ekki ætlað að upplifa hluti þetta sumarið.


Hvað gerðist í þessari maníu/uppsveiflu/oflætisástandi sem varð til þess að ég var lagður tvisvar sinnum inn á geðdeild? Ég hætti að sofa, upplifði það að fólk elti mig og fannst mèr eins og í öðrum maníum að ég gæti gert meira en ég raunverulega gat gert. Mér fannst ég vera eltur og upplifði svolitila ofsahræðslu sem er mjög óþægilegt. Stundum kom ég heim til mín og leit í alla glugga hvort einhver væri á eftir mér. Mér fannst lögreglan vera stöðugt með augun á mér og lenti ég í nokkrum árekstrum við hana. Þegar hún kom síðan upp á geðdeild til að kanna öryggi deildarinnar fannst mér hún vera þar út af mér. Ég lét hana iðulega heyra það.


Eins og ég kom inn á hætti ég nánast að sofa yfir margra vikna tímabil, ég fór aldrei í djúpsvefn í sjö vikur sem þýðir að eini svefninn sem ég fékk var þegar ég lagði mig á daginn í 1-2 klukkutíma í senn, glaðvaknaði síðan og fór að gera eitthvað. Ég svaf aldrei á nóttinni heldur æfði mikið og það komu dagar sem ég treysti mér ekki til þess að keyra bílinn minn því ég var hættur að sjá skýrt. Þá skildi ég bílinn eftir og pabbi sótti mig.

Fjölskyldan mín hafði miklar áhyggjur af mér og foreldrar mínir settu líf sitt að miklu leyti í biðstöðu þegar ég var kominn sem hæst upp. Það er ekki gott að finna fyrir þessum áhyggjum frá þeim en ég skil það að einhverju leyti. Ég hef samt sagt þeim að þau þurfi að bíta á jaxlinn og halda áfram með líf sitt þó ég sé hátt uppi. Svona er ég bara gerður og það er ekki hægt að breyta því. Á meðan ég bý á Íslandi þá upplifi ég niðursveiflur á veturna og uppsveiflur á sumrin. Eins fallegt og Ísland er og ég hef upplifað margt gott hér þá hentar landið mér illa verandi með geðhvörf.


Ég var búinn að fá nóg í ágúst og var að fara að flytja út einn míns liðs, það var hins vegar ekki vel skipulagt og kannski blessunarlega þá gerðist það að miðinn minn til Genf í Sviss var tvíbókaður - þegar ég var að fara í sætið mitt var maður í sætinu mínu sem heitir Kristján Kristjánsson og spúsa hans að nafni Guðmunda. Tölvukerfið hjá Icelandair var gallað og þeim tókst að bóka í sama sætið Kristinn Kristinsson og Kristján Kristjánsson og ég var leiddur út úr vélinni rétt fyrir flugtak. Það hefði verið gaman að kíkja í hátískuna til Genf en eins og ég nefndi var það illa skipulagt og ég hafði ekki fjármagn til þess að flytja út. Ég hugsaði bara með mér að þetta myndi bjargast, á þessum tímapunkti var ég búinn að fá nóg af öllum áhyggjunum og stressinu á Íslandi og langaði að flytja út. Byrja á Genf og flytja síðan til Prag eða Dallas. Þetta var bara ekki rétti tímapunkturinn en hann kemur vonandi seinna.


Njótið lífsins kæru vinir, ég ætla að gera það áður en veður og birtuskilyrði gera það erfiðara.


KRK