Maníuraunir ekki sýnileg á geðdeildum

Updated: May 3, 2020

Eftir að ég gaf út bókina mína, Maníuraunir, í október 2018 þá fór ég með samtals sex eintök á þær geðdeildir sem ég hef dvalið á frá árinu 2009 – á bráðageðdeildina og tvær opnar geðdeildir. Ég skrifaði inn í þær og þakkaði fyrir reynsluna þessi fimm skipti sem ég hef þurft að dvelja á Hringbrautinni – þetta væru ekki eingöngu slæmar upplifanir og væri tími sem hefði kennt mér mjög mikið. Þó svo að ég hefði vissulega viljað sleppa þessari reynslu.


Fyrst um sinn heyrði ég að starfsmenn og skjólstæðingar á deildunum hefðu lesið bókina og nokkrir tjáðu mér hvað þeim fannst hún fróðleg, og það væri áhugavert fyrir starfsmennina að lesa um mína upplifun á því að vera lokaður inni.


Nýlega sendi strákur mér skilaboð og sagðist hafa lesið bókina, og að hún hefði hjálpað honum töluvert. Hann sagði mér jafnframt að hann hefði viljað lesa bókina á meðan hann var inni á geðdeild, að það væru bara einhverjar spennusögur þar í boði; eitthvað sem hann hafði engan áhuga á. Ég sagði honum að ég hefði farið með tvær bækur á þrjár deildir sem ég hafði verið á. Hann sagði mér að hann hefði verið á einni af þessum deildum en bókin ekki verið sýnileg. Ég fór því að kanna málið...


Ég ræddi við nokkra starfsmenn sem ég þekki orðið ágætlega. Þau sögðu mér að bókin hefði verið tekin og færð í lokað rými. Ég hugsaði því með mér hver ástæðan gæti verið. 9. kafli bókarinnar ber heitið: Lífið inni á geðdeild á Íslandi. Þar tjáði ég mig á opinskáan hátt um upplifun mína á að vera innilokaður á geðdeild, hvernig þessi reynsla breytti lífi mínu á ýmsan hátt, hæfni geðlækna og annarra starfsmanna þar inni og líka hvað ég gerði mér til dægrastyttingar.


Það er eitthvað þarna sem starfsfólkið rak augun í, og hugsuðu með sér að það væri ekki gott fyrir skjólstæðinga deildanna að lesa. Að þeir gætu orðið sammála mér um einhver atriði og þar af leiðandi mótfallin einhverju ákveðnu. Ég gæti trúað því að yfirlæknir bráðageðdeildarinnar hafi tekið þessa ákvörðun en ég hef yfirleitt verið ósammála henni í mínum innlögnum, og hikaði ekki við að skrifa um það. Mér finnst mjög leiðinlegt að bókin hafi verið tekin úr umferð út af einum kafla, þetta hentaði þessu fólki greinilega ekki. Aðrar maníusögur í bókinni geta og hafa hjálpað öðrum aðilum með geðhvörf að átta sig betur á sínu ástandi.


Ég hef verið í nokkuð góðu andlegu jafnvægi frá því eftir síðustu maníu, frá hausti 2017. Það eru meiri líkur en minni á því að ég þurfi einhvern tímann aftur að leggjast inn á geðdeild, ég vona auðvitað að svo verði ekki. Ég viðurkenni að það kítlar mig örlítið að ef ég leggst inn á næstu árum, að ræða þetta mál við geðlækna og starfsfólk deildanna. Ég verð þá bara með eintök á mér til þess að koma henni aftur að!


KRK