Mjög takmörkuð öryggisgæsla á Rammstein-tónleikunum

Updated: Oct 11, 2018


Mér, rétt eins og öllum Íslendingum brá mikið við að heyra af hryðjuverkaárásunum í Manchester á mánudagskvöld. Þetta er svo nálægt okkur og fjölmargir heimsótt borgina, þ.m.t. ég sjálfur nokkrum sinnum. Virkilega óhugnaleg árás sem sýnir illsku í heiminum blákalt. Það sem ég hugsaði strax voru Rammstein tónleikarnir sem ég sótti á laugardaginn, ekki nema u.þ.b. 1.600 km frá Manchester-borg.


Í Kórnum var ekki leitað eftir nokkrum sköpuðum hlut nema þú varst með tösku meðferðis. Af þeim 16.000 sem mættu var einungis rifið af miðum fólks, þægilegt fyrir alla aðila en getur varla gengið upp eins og heimurinn er í dag, því miður. Hver sem er gat verið með hníf eða handsprengju í jakkavasanum eða í buxunum. Hvað er hægt að kalla svona? Litla öryggisgæslu í besta falli. Hryðjuverkamenn vilja hræða lítil samfélög eins og okkar og að þau verði ekki eins frjáls og þau vilja vera, það er m.a. tilgangur þeirra. Við erum staðráðin í því að láta þeim ekki takast það en mér fannst samt alltof lítil gæsla á eins stórum tónleikum og voru í Kórnum á laugardaginn.


Ég sá í gærkvöld viðtal í þættinum 19:10 á Stöð 2 við þær Jónu Sólveigu Elínardóttur þingmann Viðreisnar og formann utanríkismálanefndar Alþingis og Lilju Alfreðsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra. Þær ræddu við Telmu Tómasson um árásina í Manchester og að Ísland væri mjög vel á varðbergi gagnvart hryðjuverkaárásum og í góðu samstarfi við önnur nágrannalönd.

Jóna Sólveig sagði þegar hún var spurð um aukna hættu á hryðjuverkaárásum: Íslensk stjórnvöld gera sér að sjálfsögðu grein fyrir hversu mikil ógn þetta er, þessi aukna hætta á hryðjuverkaárásum og við gerum okkar ýtrasta til þess að vernda landið okkar, og til þess að passa upp á öryggi landsmanna. Það er auðvitað grundvallarhlutverk stjórnvalda og við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að gera það. - Mér finnst þetta bara ekki standast hjá henni miðað við að stærstu tónleikar ársins á Íslandi voru að klárast og öryggisgæslan var nánast engin. Tilgangurinn hjá henni er væntanlega að koma á ró hjá fólki en það var ágætlega sjokkerandi að heyra þetta frá henni rétt eftir Rammstein-tónleikana og öryggisgæsluleysið sem þar átti sér stað.


Bæði Jóna og Lilja töluðu um að við þyrftum að passa að láta ekki svona árásir stöðva okkar frjálslynda samfélag og standa vörð um okkar gildi. Mitt mat er að við þurfum samt sem áður að gera meiri ráðstafanir en við erum að gera og ekki missa okkur í þessu stolti varðandi frjálslyndið í landinu okkar. Það truflaði mig sérstaklega þegar Jóna talaði um að okkar löggæsluyfirvöld gerðu allt til þess að svona voðaverk gætu ekki átt sér stað á Íslandi. Ef svo væri þá hefði verið talsvert meiri öryggislæsla í Kórnum á laugardaginn og einnig á öðrum opinberum viðburðum, við gætum allt eins verið næsta land á blaði hjá hryðjuverkaskrímslum heimsins.


Ég hugsaði eftir tónleikana á laugardaginn hvað það væri allt rosalega afslappað varðandi öryggisgæsluna og hvað við værum illa stödd ef eitthvað kæmi upp á. Eins og við fengum að sjá á mánudaginn í Manchester þá eru þetta einmitt staðirnir sem þessir hryðjuverkamenn nota, opinberir vettvangar til þess að valda sem mestum skaða og hræða fólk sem mest.

Maður vonar það af öllu hjarta að ekkert komi fyrir okkur hér á landi, sem og annars staðar auðvitað, en miðað við hvað það hafa orðið margar mannskæðar árásir í Evrópu á síðastliðnum 30 árum þá verðum við að vera betur viðbúin en þetta. Ég er smeykur við kæruleysið og að stjórnvöld séu að fegra það fyrir okkur fólkinu í landinu að allt sé gert til þess að vernda okkur, því það er ekki verið að því.


KRK