Munurinn á að vera með geðsjúkdóm á Íslandi og í Frakklandi

Updated: Oct 10, 2018


Ég hitti um helgina tvo franska blaðamenn sem tóku við mig viðtal, tvær stelpur á svipuðum aldri og ég, mjög sérstakt og skemmtilegt. Önnur þeirra er frá Lille og hin frá París. Þær eru að bera saman geðheilbrigðiskerfin á Íslandi og í Frakklandi en þau eru mjög ólík. Að því loknu ætla þær að birta niðurstöður sínar í fjölmiðlum í Frakklandi. Það verður spennandi að fylgjast með því.


Að vera með geðsjúkdóm þar í landi er mjög erfitt sögðu þær mér, miklir fordómar og það er stimpill á fólki að vera hættulegt - vægast sagt erfitt að vera frábrguðinn því venjulega þar. Þetta er auðvitað bara skortur á þekkingu og utanaðkomandi þættir, s.s. bíómyndir spila þar væntanlega stórt hlutverk. Við Íslendingar erum ekki ennþá komin mjög langt í þessum efnum en engu að síður mun framar en Frakkarnir. Með hverju árinu sem líður tölum við meira opinskátt um þessi mál, dæmum minna og skömmumst okkar minna fyrir okkur sjálf eða vini og ættingja.

Fólk er ólað niður á geðdeildum í Frakklandi og skoðanir þeirra sem eru þar inni lítið virtar, raunar einnig þegar þau eru ekki lokuð þar inni sem er mjög sorglegt. Kannski fer ég núna og læri frönsku til þess að breyta þessu rugli í Frökkunum! Það væri margt vitlausara en það.


Það var mjög svo fróðlegt að fara í þetta viðtal og að verkefnið mitt, Vitundarvakning um geðsjúkdóma, sé farið að spyrjast út, jafnvel út fyrir landsteina. Það fær mann til þess að halda áfram að berjast og opna augun á fólki varðandi einstaklinga með geðsjúkdóma - eða einstaklinga sem eru örlítið frábrugðnir norminu, það hljómar allavega miklu betur.


KRK