Starfsmönnum Jóa útherja brugðið

Updated: Dec 30, 2018

Ég fór með áritað eintak af bókinni minni í dag til uppáhaldsverslunar minnar síðan ég var 10 ára, Jóa útherja. Mig langaði að gefa þeim eintak fyrir góða tíma í gegnum tíðina en þó aðallega vegna innlits sem ég átti til þeirra í ágúst 2017. Þessi saga kemur fyrir í bókinni, en ég er að endursegja hana núna.


Ég var floginn mjög hátt á þessum tímabili og einungis nokkrir dagar í innlögn á geðdeild. Strákarnir í búðinni þekktu mig en ekki vegna geðhvarfanna - einungis vegna óbilandi áhuga míns á fótbolta síðan ég var barn. Þeir höfðu sagt mér áður að það spáði enginn jafnmikið í litlu hlutina og ég gerði, þá aðallega að fá gömlu Manchester United treyjurnar nákvæmlega eins og þær voru og kom ég gjarnan með sérpantaðar vörur að utan til þess að láta þá merkja fyrir mig.


Starfsmönnum verslunarinnar grunaði því ekkert að ég væri í maníu þegar ég kom til þeirra í ágúst í fyrra. Á tíu mínútum var ég búinn að safna á afgreiðsluborðið m.a. sjö knattspyrnutreyjum, tvennum pörum af takkaskóm, markmannshönskum, KSÍ-síðbuxum, Mitre bolta og nokkrum öðrum flíkum. Einn starfsmaður spurði mig í gríni hvort ég ætlaði mér að tæma búlluna. Reikningurinn var upp á 189.740 kr. og það með miklum afslætti! Allt saman greitt með Netgíró sem ég vissi að ég þyrfti ekki að hugsa um að borga strax. Þetta endaði síðan með milljón króna eyðslu á rétt um mánuði.


Þegar ég hitti starfsmennina áðan fann ég að þeim var örlítið brugðið þegar ég sagði þeim ástandið á mér þarna - þó þeim þætti vænt um eintakið og innlit mitt. Við gerðum samkomulag um að ef ég ætlaði að kaupa fyrir háar upphæðir þá yrði það greitt með peningum eða eigin korti en ekki lánsöppum. Það var algjörlega mín ósk. Þetta er þunn lína og ef starfsmenn og verslanir ætla sér að reyna að grípa inn í svona aðstæður þar sem eitthvað er ekki eins og þá á að vera, er allt eins líklegt að einstaklingar bregðist við með mikilli reiði. Við ræddum það líka.

Það var virkilega skemmtilegt að kíkja til þeirra og ræða þessi mál. Ég er þá vonandi búinn að koma í veg fyrir annað eins spreð hjá þeim, og með því að skrifa um þetta í bókina og ræða við þá held ég að ég muni ekki reyna það í náinni framtíð.


KRK