Tilviljanir, örlög og bróðurmissir

Updated: Aug 1, 2019


Mig langar að skrifa um tilviljanir, örlög og bróðir minn heitinn. Það veldur mér alltaf vonbrigðum þegar fólk talar um tilviljanir en áttar sig ekki á því að um örlög eru að ræða. Hér er eitt dæmi sem maður hefur heyrt í gegnum tíðina: Ég er búinn að vera giftur í þrjátíu ár og hitti ástina í lífi mínu fyrir algjöra tilviljun í veislu hjá sameiginlegum vini okkar. Lífið er ekki alveg svona einfalt að mínu mati. Þarna var þessu fólki ætlað að hittast og eyða ævinni saman. Það er mín tilfinning að flest allt gerist af ástæðu en auðvitað eru tilviljanir líka til, ég ætla ekki að segja að það séu örlög ef að þrír hvítir bílar eru lagðir hlið við hlið fyrir utan Kringluna.


Ástæðan fyrir því að ég trúi svona sterkt á örlög er af því að ég hef fengið að upplifa þau eins blákalt og þau gerast. Þegar Guðni bróðir minn, sem var fimm árum eldri en ég, lést 22 ára gamall í flugslysi árið 2007 í Kanada var ég á Benidorm í skemmtiferð með vinum mínum. Ég var búinn að vera þar í ellefu daga og fyrri parturinn af deginum örlagaríka sem ég fékk tíðindin hafði verið mjög skemmtilegur. Það tók einn dag að tjá okkur fjölskyldunni þetta og það var ótrúlega erfitt að vera fjarri henni á þessum tíma.

Ég hafði verið að horfa á Manchester City-Manchester United á bar og skemmti mér vel með nokkrum Bretum. Stuttu eftir leikinn rölti ég um borgina einn míns liðs og mér fannst gleðin snúast fljótt yfir í sorg þrátt fyrir að ég hafði ekki ennþá heyrt neinar slæmar fréttir. Söknuðurinn og minningarnar um bróður minn streymdu yfir mig og mig langaði að slaufa ferðinni strax og halda heim á leið. Hann hafði verið að læra atvinnuflug í þrjá mánuði í Kanada því það var mun ódýrara en hér heima og einn af hans bestu vinum býr þar. Ég og Guðni áttum að koma til Íslands með dags millibili næstu daga á eftir.


Ég fékk sem sagt fyrirboða, tilfinningu á undan fréttunum sem ekki margir upplifa á lífsleiðinni hef ég heyrt, sem betur fer. Við vorum svo nánir að mér voru send skilaboð - að handan líklega, að hann væri farinn. Ég trúi því að það hafi verið til þess að undirbúa mig fyrir áfallið sem var fram undan. Þrátt fyrir það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en þegar ég fékk svo fréttirnar u.þ.b. klukkustund síðar, að heimurinn hafi hrunið. Þetta var þyngsta og versta augnablik lífs míns og ég staddur fjarri fjölskyldu minni ofan á það. Að fara síðan í flug tveimur dögum eftir að bróðir manns lætur lífið í flugslysi, ósofinn 36 tímana á undan, var rosalega erfið upplifun.

Mér finnst svo dapurlegt þegar fólk er að tala um tilviljun þetta og tilviljun hitt. Sérstaklega margir fréttamenn sem nota það í sínum fyrirsögnum og fréttum, það stingur mig alltaf aðeins.


Var það tilviljun að Guðni lést? Nei, hann var feigur og voru ætlaðir aðrir og stærri hlutir á öðrum stað, ég er alveg viss um það. Mér finnst hann lifa sterkt í mér og ég finn mikið fyrir honum. Sérstaklega þegar ég fer upp í maníu, þá finnst mér hann vera að hvetja mig áfram til að láta mikið af mér kveða. Fráfall hans gerði það að verkum að líf mitt gjörbreyttist á allan hátt. Ég syrgði hann mikið fyrstu árin á eftir en þegar geðhvörfin hjá mér tóku sig upp á ný, í ágúst 2014, og skynjunin hjá mér jókst til muna, fór ég að finna meira fyrir honum og finnst mér hann núna vera hluti af mér.

Ég áttaði mig á því á þeim tíma að þetta er líklega aðeins eitt líf af fjölmörgum sem við höfum lifað saman, rosaleg fortíðarþrá mín hefur líka mikið að segja um þessa afstöðu mína. Einnig fann ég fyrir ömmum mínum og öfum, ég þurfti á styrk þeirra að halda á erfiðu tímabili. Ég hugsa til Guðna oft á dag og hvernig lífi hann myndi lifa ef hann væri enn á meðal vor. Ég er viss um að hann sé ánægður með mig hvað ég held minningu hans alltaf á lofti, ég læt fylgja með myndband um hann neðst sem ég bjó til á seinasta ári.


Ég fór að hugsa til hjólabrettavina hans þegar ég skrifa þetta, hann hefur líklega beint mér þangað. Þvílíkir eðaltöffarar sem þeir eru og nokkrir búnir að tattúvera sig til minningar um hann, gríðarleg virðing á það! Ég ætlaði ekki að tala svona mikið um Guðna hérna en hann lifir bara svo sterkt í mér að á nokkrum mínútum var ég búinn að skrifa þetta sem ég skrifaði um hann.


Það er oft sagt um þá sem eru með geðhvörf að eini tíminn sem þeir fá frí frá hugsunum sínum er þegar þeir sofa, það er svo sannarlega þannig hjá mér og eins og staðan er núna hef ég litla hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég veit allavega fyrir víst að tilviljanir munu ekki ráða því.

Ég fæ stundum svona köllun að setjast niður og skrifa. Ég var að keyra hjá Hrísateignum þar sem Guðrún amma mín heitin átti heima og þá kom þessi köllun að fara heim og skrifa um þetta. Það að fólk sé svona tilviljana þenkjandi varð til þess að mig langaði að tjá mína tilfinningu og skoðun með það en ég held samt að þessi skrif mín munu ekki breyta mjög miklu varðandi afstöðu fólks - það þarf að finna þetta hjá sjálfu sér en kannski fæ ég einhverja til þess að hugsa til baka um eitthvað sem hefur gerst í lífi þeirra og þau sjá að það var ástæða fyrir því en ekki tilviljun.


Ég veit vel að ég er skrítinn/sérstakur eða hvað sem fólk vill kalla það en ég vona að einhverjir hafi gaman af því að lesa um svona djúpa hluti. Ég veit líka að margir eiga eftir að vera ósammála mér, það væri sennilega ekkert svo skemmtilegt ef allir væru sammála um allt. Það er kannski ekki nema von að ég varð aldrei þessi venjulegigæi enda lærði ég að lesa með því að lesa minningargreinar um alla þá sem létust í Morgunblaðinu fimm ára gamall því ég vildi sjá hvort ég hafði einhver tengsl við þetta fólk, allt eðlilegt við það!


Ég læt fylgja með minningarmyndband um Guðna sem ég gerði árið 2015: https://www.youtube.com/watch?v=qZb_-oy_asw


KRK