Amma Guðrún 100 ára
- Kristinn Rúnar
- Sep 5, 2022
- 3 min read
Amma mín, Guðrún Magnea Jóhannesdóttir, hefði orðið 100 ára í dag, 5. september. „Amma í beinni” eins og hún var oft kölluð - því hún sagði iðulega það sem hún hugsaði hverju sinni og því var erfitt að klippa eitthvað til eftir á sem hún hafði verið að segja við fólk! Amma var einhver mesti húmoristi sem sögur fara af. Ætli ég sé ekki „Kiddi í þráðbeinni“, allavega í seinni tíð, enda var amma mikil fyrirmynd mín í lífinu.
Hún lést 88 ára gömul, hinn 16. febrúar 2011, og lifði töluvert lengur en afar mínir og föðuramma gerðu. Langlífi er ekki alltaf það að lifa brjálæðislega heilsusamlegum lífsstíl- amma í beinni plaffaði nokkrar retturnar í gegnum árin og skálaði vel við góð tilefni.
Þegar ég var barn vildi ég ekkert síður vera hjá ömmu heldur en foreldrum mínum og átti ég það til að lengja aðeins veikindi mín í 1-5. bekk í grunnskóla til að vera lengur hjá ömmu - fá okkur ristað brauð með hamborgarhrygg ofan á, drekka Coca-Cola og horfa á bíómyndir, þá helst með hennar uppáhaldsleikkonu - Juliu Roberts.
Amma var mikil listakona og eru ófáar myndirnar eftir hana uppi á veggjum foreldra minna, systkina og víðar. Ég læt fylgja með tvær myndir af listaverkum eftir hana sem eru í íbúðinni minni. Algjört gull.
Amma rak m.a. blómabúð á Hlemmi í mörg ár við góðan orðstír (Blómabarinn) og elskaði hún að hitta og spjalla þar við alls konar fólk.
Helsta markmiðið hjá ömmu, síðasta áratuginn eða svo á lífi, var að sjá barnabörnin sín vaxa úr grasi og hana langaði að sjá okkur systkinin öll fermast. Það munaði ekki nema tveimur árum að það hefði tekist og þykir mér mjög vænt um að yngri bræður mínir náðu góðum og mikilvægum árum með ömmu.
Það er gaman að segja frá því að við bræðurnir berum allir Rúnars nafnið sem millinafn vegna ömmu Guðrúnu. Ragnheiður systir hóf systkinaröðina og var skírð í höfuðið á föðurömmu okkar. Það er því ekkert launungamál að það „átti” að koma önnur stelpa og þá kannski helst svona í blálokin. Mamma var búin að sjá svolítið fyrir sér að eignast aðra stúlku og að skíra hana Guðrúnu Magneu, en hver strákurinn á fætur öðrun mætti til leiks og sá síðasti fékk því nafn ömmu að miklu leyti: Magni Rúnar.
Amma í beinni lifir sterkt með mér. Ég tala oft um að ég eigi tvo verndarengla í lífinu sem passa upp á mig, það eru amma Guðrún og Guðni bróðir. Það hefur meira að segja lengt geðdeildarinnlögn hjá mér eftir að geðlæknir spurði mig spjörunum úr fyrir nokkrum árum - hvort einhver væri að fylgjast með mér eða hvort ég heyrði einhverjar raddir. Ég sagði: Ég er með geðhvörf en ekki geðklofa, ég heyri ekki raddir og það er enginn að fylgjast með mér en ég á hins vegar tvo verndarengla sem fylgja mér og passa upp á mig - ömmu í beinni og Guðna bróður. Það lengdi innlögnina mína að vera svona hreinskilinn um mína líðan og sýn á lífið. Lækninum fannst þetta vera meira manía heldur en raunveruleikinn sem ég tjáði honum en hann má hafa þá skoðun. Það er gott ráð að segja sem minnst á geðdeild til þess að útskrifast fyrr! Hvort sem ég er í maníu, inni á geðdeild, í góðu jafnvægi eða hvað sem er, þá fylgja amma og Guðni mér. Passa upp á mig, hlæja með mér, gráta með mér, ráðleggja og segja mér að gera einhverja vitleysu - negla í kráku í daufri stemningu og almennt að hrista upp í hlutunum.
Við fjölskyldan fögnuðum 100 ára afmæli ömmu að hennar hætti - með heimagerðum kjúkling, brúnni sósu, frönskum og cocktailsósu … sem hún bauð iðulega uppá á sunnudagskvöldum. Eftir mat fékk ég mér síðan Capri Menthol sígarettu í hennar anda, sem ég lét síðan flúra á mig eftir andlát hennar.
Til hamingju með 100 árin, amma mín.
„Dýrið gengur laust”, eins og hún sagði alltaf þegar ég var lítill á Spáni og kominn vel á stjá. Ég fékk að leika lausum hala sem er mikilvægt fyrir börn að fá að gera. Ég er þakklátur fyrir það. Takk fyrir allt saman.
KRK

Comments