top of page

COVID-19 undirbúningur í þrjú ár

Updated: Jul 17, 2020

Fyrir nokkrum árum fór mér að finnast ég ógeðslega skítugur ef ég snerti hurðarhúna (aðra en mína eigin), ruslatunnur, eða t.d. þegar ég hef þurft að slá inn leyninúmer á posa í verslunum. Semsagt allt sem ég vissi að aðrir höfðu snert í massavís. Að taka í hendur á fólki er eitthvað sem ég forðast aldrei, en mér þótti ég alltaf létt skítugur eftir það – enda hefur maður ekki hugmynd um hvað það var að gera mínúturnar á undan. Ég hef alltaf verið frekar mikill snyrtipinni, en ég man nákvæmlega hvað orsakaði þessa hreinlætisáráttu hjá mér...


Fyrir sirka þremur árum, þá heyrði ég einhvern nágranna minna í Furugrundinni, henda rusli í sorprennuna og fara síðan út um aðalinnganginn. Ég hugsaði með mér að það væri ekki fræðilegur möguleiki að ég færi framvegis út um þessa hurð, án þess að spritta á mér hendurnar um leið og ég væri kominn út um hana. Ég fór í apótekið daginn eftir og keypti tvo sprittbrúsa, einn í bílinn og annan til að eiga heima hjá mér. Síðan þá hefur verið talsverð árátta hjá mér, þó þannig að aðrir tækju ekki mikið eftir því. Ingi bróðir minn hló smávegis að mér fyrir að vera með sprittbrúsa í bílnum, og að ég færði hann á milli bíla ef ég fékk hans bíl að láni. En hann hlær sennilega ekki mikið núna 😳


Ég hef auðvitað haldið mínu striki með hreinlætið í þessum COVID-19 faraldri og það er svolítið sérstakt að sjá allt í einu alla komna á sama level og ég með þetta, og jafnvel ýktari. Mér hefur alltaf fundist stórfurðulegt að fólk sé að snerta hitt og þetta án þess að finnast það skítugt eftir á. Eitthvað sem ég hef síðustu ár kannski öfundað það örlítið út í, hvað það væri þægilegt að vera bara slétt sama um þetta, og vera ekkert að spá í þessu – því þetta getur tekið á, að vera með þetta á heilanum. Rennihurðir eru t.d. í sérstöku uppáhaldi hjá mér, að þurfa ekki að hafa áhyggjur af einhverjum heilhveitis grútskítugum hurðarhúnum alltaf!


Ef ég greinist með COVID-19 sjúkdóminn þá tek ég því auðvitað bara, það er ekkert annað í stöðunni. Ég myndi samt líta á það sem óheppni, frekar en kæruleysi af minni hálfu, því ég er mjög varkár í þessum efnum. Manísk yfirlýsing frá mér væri að ég hafi fundið þennan faraldur á mér og undirbúið mig undir hann, og einnig með því að láta fólk vita hvað hreinlæti væri mikilvægt. En ég er ekki kominn þangað upp (ennþá), þannig að segjum bara að þetta sé tilviljun – þó að ég viti að þær séu ekki til.


KRK




bottom of page