Fólk þarf að hafa reynt sjálfsvíg eða vera með sjálfsskaða til að fá innlögn

Updated: Oct 11, 2018


Ég fagna því gríðarlega að síðustu daga hefur fólk stigið fram og deilt upplifun

sinni af geðdeildum landsins. Umræða sem er svo nauðsynleg, sérstaklega núna

þegar kerfið okkar er eins gallað og það er og geðheilbrigðismál svelt.


Skipta reynslusögur fólks einhverju máli fyrir stjórnvöld?


Ég velti því fyrir mér hvort þessar reynslusögur sem hafa átt sér stað síðustu

misseri hafi eitthvað að segja varðandi það að stjórnvöld bregðist við með

róttækum hætti sem svo margir eru að bíða eftir. Hversu mörgum mannslífum

þurfum við að sjá á eftir svo þessu verði kippt í liðinn? Manni líður eins og þetta

séu algjörlega ógerlegar breytingar sem þurfa að eiga sér stað því það er ekkert

gert en þetta er það ekki. Ég á mjög erfitt með að skilja aðgerðarleysið og mér

finnst eins og þetta sé tíminn til að hamra járnið á meðan það er heitt. Ég mun

allavega aldrei gefast upp á að vekja athygli á þessum málum.


Við þurfum nauðsynlega sólarhrings opnunartíma á bráðamóttöku geðsviðs


Það vantar talsverðan pening í heibrigðiskerfið okkar svo það sé hægt að taka við

fleira fólki inn á geðdeildirnar, bæta þjónustuna og hafa bráðaþjónustu geðsviðs

opna allan sólarhringinn, allan ársins hring - handleggsbrotnum manni er ekki

sagt að kíkja við eftir helgi þegar það opnar á bráðamóttökunni í Fossvoginum

svo dæmi sé tekið, þar er alltaf opið. Bráðaþjónusta geðsviðs við Hringbraut er

hins vegar eingöngu opin 12.00-19.00 virka daga og 13.00-17:00 um helgar, í

neyðartilvikum er hægt að leita til bráðamóttökunnar í Fossvogi en hún sérhæfir

sig í líkamlegum meiðslum og veikindum. Þetta er langt frá því að vera eðlilegt

eins og þessu er háttað núna!


Reynslusögur sem ættu að vega þungt


Síðustu dagar hafa verið viðburðarríkir í þessum málum. Gunnar Hrafn Jónsson

þingmaður steig fram um helgina og lýsti sinni upplifun af þunglyndi og hvernig

það sé að vera inni á geðdeild. Mjög stórt skref fyrir okkur sem erum að berjast fyrir

vitundarvakningu í þessum málum, örugglega fyrir hann sjálfan líka og alla sem vilja sjá breytingar í þessum málaflokki. Það að þingmaður deili reynslu

sinni af geðdeild er eitthvað sem hefur ekki þekkst hér á landi að ég held og

því merkilegt og gríðarlega flott hjá Gunnari.


Einnig birtist um helgina viðtal við móður sem deildi reynslu sinni á hetjulegan

hátt. Hún hefur misst tvö börn sín, dóttur úr heilahimnubólgu og son úr sjálfsvígi.

Saga sem snerti mig persónulega og tengdi ég mikið við son hennar en líf hans

hefði mjög líklega verið bjargað með góðu heilbrigðiskerfi. Það er því miður

yfirleitt ekki nóg að líða virkilega illa og vera með sjálfsvígshugsanir til að fá

innlögn á geðdeild á Íslandi. Þú þarf að hafa gert afgerandi tilraun til sjálfsvígs

eða vera illa farin/n eftir sjálfsskaða til að vera lagður/lögð inn. Það eru alltof

mörg dæmi um að fólk hafi verið sent heim eingöngu með lyf í farteskinu og sagt

að koma aftur ef líðan þeirra versnar. Sumir binda endi á líf sitt dagana á eftir því

þau finna það svo sterkt að engin hjálp sé fyrir hendi sem þau þurfa nauðsynlega

á að halda.


Þú þarft því miður að vera ansi veikur til að eiga möguleika á innlögn


Ég hef áður skrifað um geðdeildirnar varðandi það að vera á hinum endanum, maníuendanum, og hvað megi bæta þar á bæ. Ég hef hins vegar ekki skrifað um

hvernig það sé að reyna að fá innlögn þegar maður er í kjallaranum eins og ég

orða það.

Ég lét í eitt skipti reyna á það. Þetta var í desember árið 2010, mér leið skelfilega

illa og sjálfsvígshugsanir létu á sér kræla eins og gerist oftast í svo mikilli

vanlíðan. Ég fór á Hringbrautina, óskaði eftir viðtali og lýsti því í kjölfarið hvernig

mér liði og vildi fá að leggjast inn. Mér var sagt hreint út að ég væri ekki ekki

nógu veikur fyrir innlögn. Þunglyndissveiflurnar - u.þ.b. 25 talsins sem ég hef

upplifað frá því ég var 13 ára gamall eru hins vegar með þeim dýpstu sem fólk

upplifir, hefur mér verið tjáð af geðlæknum og fagfólki. Algjört svartnætti og

tilgangur lífsins er enginn á þessum vikum sem á þessu ástandi stendur. Af því að

ég var ekki búinn að reyna sjálfsvíg og ekki með sjálfsskaða utan á mér þá var

mér vísað frá.


Ég má þakka fyrir gott stuðningsnet sem ég hef alltaf haft og bestu fjölskyldu sem

um getur að ég komst upp úr mínu þunglyndi. Ég hef ekki farið niður í djúpt þunglyndi síðan í ársbyrjun 2011 þrátt fyrir sveiflur upp og niður síðan þá, eins og við má búast

hjá fólki með geðhvörf.


Vonandi bjartir tímar fram undan


Ég vona innilega að næstu dagar og vikur verði viðburðaríkir hvað þessi mál

varða. Það er rosalega mikilvægt að við eigum þingmann sem er berjast fyrir

breytingum af öllum krafti. Ég fylgdist með umræðum á þinginu í gær og er

bjartsýnn á að Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, maður sem ég hef mikla trú á,

standi sig vel í sínu embætti - það kæmi mér mjög á óvart ef hann verður ekki

öflugur. Ég hlakka einnig til að sjá hvað forsetinn okkar gerir því ég veit að

Gunnar Hrafn er búinn að leita til hans í þeirri von að koma af stað frekari

vitundarvakningu í þessum mikilvæga málaflokki og einnig gera honum grein

fyrir því að það ríki neyðarástand í geðheilbrigðismálum landsins.


KRK