top of page

Eftirminnilegustu atburðir ársins 2017

Updated: Oct 11, 2018


Þá er þetta ágæta ár 2017 að renna sitt skeið. Hvað var eftirminnilegast á þessu ári? Það eru nokkir atburðir sem standa upp úr hjá mér en fyrir utan fæðingu dóttur systur minnar núna í desember er eitt atvik sem átti sér stað í sumar sem ég mun aldrei nokkurn tímann gleyma. Ég hef sagt mjög fáum náið frá þessu en ég nefndi þetta örlítið í síðasta pistli. Einnig er ég búinn að skrifa á annað þúsund orð um þetta í bókina mína, Maníuraunir, sem kemur út næsta haust. Ég á því miður ekki mynd af þessu atviki en ég ætla að gera mitt besta að reyna að lýsa því. Ragnheiður Kristinsdóttir systir mín gifti sig þann 15. júlí og ég átti að vera veislustjóri. Í í lok júní byrjaði hins vegar að kræla á sér býsna væn manía. Dagarnir liðu og ég fór alltaf hærra upp, mér var farið að líða eins og brúðkaupið yrði ekki. Mér fannst vanta örlítið upp á undirbúininginn og mér þótti óraunverulegt að það yrði á meðan ég væri „sky high.Ég spurði Davíð Ásgrímsson, mág minn, tveimur dögum fyrir brúðkaupið hvort það yrði í alvörunni. Hann tjáði mér að ekkert væri breytt, ég fór ekki einu sinni með jakkafötin mín í hreinsun og undirbjó mig ekki neitt sem veislustjóri. Daginn sem brúðkaupið var þá lagði ég af stað fótgangandi á inniskónum mínum frá Furugrund í Kópavogi þar sem ég bý og áleiðis niður í bæ, en giftingin var í Digraneskirkju. Hugurinn var kominn á rosalegt flug, sem ég hafði vart kynnst áður.


Ég var töluvert með öryggisgæslu á heilanum eftir Rammstein-tónleikana sem ég fór á í mai, þeir voru tveimur dögum fyrir árásina á Ariana Grande tónleikunum í Manchester. Ég hafði skrifað pistil tveimur mánuðum áður um áhyggjur mínar og mér fannst ég þurfa að fara inn í Kringluna og kanna aðeins öryggið. Mér fannst eins og Ísland gæti orðið næsta skotmark hryðjuverkamanna og að ég væri maðurinn til að gæta að örygginu - eins klikkað og það hljómar.

Ég var með Ipod-inn minn í botni, með stór heyrnartól og í góðum fíling. Fljótlega fór ég út eftir að hafa farið inn í nokkrar verslanir og kannað öryggishliðin og öryggismyndavélarnar í verslunum. Í hugsunarleysi mínu skildi ég lyklana og inniskóna mína eftir fyrir utan Kringluna og fór á sokkunum að ljósunum á Kringlumýrarbrautinni. Þar tók ég nokkur lauflétt dansspor fyrir fólkið á ljósunum og eftir það tók ég síðan sprettinn yfir ljósin í áttina að Lágmúlanum þar sem ökumaður spurði mig hvort ég vildi ekki far, það væri ekki gott að vera svona á sokkaleistunum. Ég sagði honum að ég væri góður og hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af mér. Stuttu síðar kom hann aftur, ég sagði honum þá að drulla sér í burtu - ég væri búinn að segja honum að ég þyrfti ekki aðstoð. Mér sýndist hann taka upp símann og klaga í lögregluna, honum fannst sér ógnað enda sagði ég honum til syndanna.


Ég var talsvert farinn að hugsa um umhverfið mánuðina á undan og týndi upp rusl hjá Lágmúlanum, á sokkunum, með góða tónlist og á fínu róli. Ég týndi töluvert upp og fann nokkur bjórglös úr hörðu plasti. Ég var síðan að ganga framhjá Hilton-hótelinu þegar ég sá lögregluna nálgast mig, varð pirraður og negldi glösunum niður í götuna fyrir framan Hilton og tók síðan á rás yfir götuna og í átt að Laugardalsvellinum. Á nokkrum sekúndum var ég kominn í kapphlaup við laganna verði sem náðu mér ekki. Ég var kominn í ágætisform eftir stífar æfingar hjá Vilhjálmi Steinarssyni vikurnar á undan en samt sem áður var ég ennþá góð 125 kíló - lögreglan átti ekki möguleika að stoppa mig, ég hló að þeim á meðan ég tók stefnubreytingar. Er ekkert þolpróf hjá lögreglunni!? Þetta voru fyrst ein kona og einn karl á eftir mér, ég þekkti konuna persónulega. Hún kallaði: „Kiddi, Kiddi, stoppaðu!Á meðan hún reyndi að ná andanum á harðahlaupum. Ég hlýddi engu og áður en ég vissi af var hún búin að piparúða mig! Gömul vinkona mín, þetta var allt saman mjög súrrealískt. Ég öskraði af sársáuka og hljóp áfram í áttina að World Class í Laugum þegar fleiri lögreglubílar nálguðust en það var síðan gangandi vegfarandi sem stökk á mig við tré rétt fyrir ofan Laugardalsvöll. Ég sá lítið en þetta var mjög svo fagmannlega gert hjá honum þvi ég meiddi mig ekkert.


Ég streittist á móti handtökunni, ég hef aldrei og mun sennilega aldrei öskra jafn hátt af sársauka og ég gerði þarna. Fjórir lögreglumenn að reyna að handtaka mig á meðan sviðinn í augunum var ólýsanlegur. Þau voru ekki með handklæði, ekkert vatn og enga mjólk. Það var bara meisað út í loftið á meðan 125 kílóa maður var að hlaupa þau af sér! Ég var orðinn virkilega þyrstur á þessu augnabliki eftir raunir dagsins og einnig var andlitið á mér orðið mjög rautt og aumt eftir þokkalegt magn af piparúðanum. Ég var algjörlega uppgefinn, það var búin að vera mikil keyrsla á mér og nánast enginn svefn tíu daga á undan. Ég var líka virkilega ringlaður hvað var að gerast og talsvert hræddur um tíma. Ég grátbað um vatn en það var hvergi til, mig langaði mest að dýfa mér ofan í ískar og þamba góðan líter eftir á. Ég fékk að fara í sturtu á lögreglustöðunni á Hverfisgötu eða hvert sem ég var kominn, ég er ekki ennþá viss hvert var farið með mig. Sturtan var heit þrátt fyrir að ég tjáði lögreglumönnum að ég vildi fara í kalda sturtu. Einhver misgáfaður jaki í lögreglunni tjáði mér að sturtan væri svellköld og ég ætti að hætta þessu veseni. Ég sagði honum að hann væri heimskur því sturtan væri augljóslega sjóðandi heit, hann var líklega bara að vera með stæla eins og sumir lögrelgumenn eru með eftir að þeir klæða sig í búninginn sinn, verða allt í einu svaka karlar. Ég fór með nýlega piparúðað andlitið á mér í sjóðandi heita sturtuna sem var ekkert sérstaklega notalegt, fékk hrein föt og fór með fimm lögrelgumönnum í stórum bíl upp á geðdeild - eins og ég hafi framið morð.


Þetta var að gerast þremur tímum fyrir brúðkaup systur minnar, það var eitthvað sem dreif mig til þess að fara algjörlega út fyrir normið sem leiddi til handtöku. Ég var í engu ástandi til að vera í brúðkaupinu, algjörlega ömurlegt engu síður að hafa misst af því. Það hefur sannað sig að brúðkaup henta mér alls ekki um mitt sumar, ég missi yfirleitt af þeim. Systir mín sagði mér eftir á að það hafi verið skrítin stemning í brúðkaupinu, sérstaklega fyrst, en að það hafi samt allt gengið mjög vel fyrir sig. Líklega var betra að ég væri kominn inn á geðdeild en að vera einhvers staðar að gera eitthvað misgáfulegt á meðan á því stóð. Til að gera langa sögu ögn styttri þá útskrifaði ég mig sjálfur af geðdeildinni tíu dögum síðar því ég var ekki nauðungarvistaður, eftir á að hyggja var það of snemmt - ég var ekki búinn að jafna mig alveg nógu vel. Ég rauk síðan aftur upp í maníu og var lagður inn öðru sinni um miðjan ágúst. Það sem gerðist á milli fyrstu og annarrar innlagnar í sumar og fjölmargar aðrar maníusögur verða í bókinni, sem eins og ég sagði kemur út í haust.


Gleðilegt ár kæru vinir, vonandi verður 2018 ykkur gæfuríkt. Ég hef undanfarin ár passað mig á því að fara hóflega bjartsýnn inn í ný ár, því meiri kröfur sem maður gerir því vonsviknari verður maður ef allt gengur ekki upp - það er mín reynsla.


KRK




 
 
 

コメント


この投稿へのコメントは利用できなくなりました。詳細はサイト所有者にお問い合わせください。
  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page