Erfið gallblöðruaðgerð
- Kristinn Rúnar
- Jul 23
- 2 min read
Ég útskrifaðist fyrst af Kviðarhols- og þvagfæraskurðdeild 13EG við Hringbraut fjórtán klukkutímum eftir gallblöðruaðgerðina, á miðvikudag.
Allt leit vel út, aumur, smávegis verkjaður en gat borðað og pissað eðlilega.
Var kominn heim 13:00 en 14:30 fór ég að æla og fá mikla verki. Að æla í nýsaumaðan kvið og miklir verkir með því er engin draumastaða. Ég var hræddur fyrst við að æla, hélt að ég væri að skemma aðgerðina.
Skrokkurinn var mjög órólegur og gríðarlega verkjaður. Ég var kominn með hita og kuldaköst og blóðþrýstingurinn töluvert hár.
Ég hringdi því á 13EG en þurfti að fara í gegnum bráðamóttökuna. Fór þangað í forgangi, skurðlæknir hafði hringt og tjáð bráðamóttökunni að ég væri nýkominn úr óvenju erfiðri gallblöðrutöku.
Fékk Morfín í æð. Einnig OxyNorm undir tungu og uppáhaldið mitt frá Mexico, Tramadol, einnig þekkt sem Tradalon. Ásamt því fékk ég ógleðislyf í æð en ég ældi samtals sex sinnum á nokkrum klukkutímum, mest á bráðamóttökunni. Það er nokkuð sterk staða að vera ælandi á bráðamóttöku, nýkominn úr aðgerð.
Var síðan ferjaður aftur á deild 13EG við Hringbraut, þar var dælt í mig meira af verkjalyfjum í æð og reynt að ná hitanum niður. Ég er vanur miklum verkjaköstum síðustu ár en þetta var það allra versta.
Miðvikudagskvöldið var mjög slæmt en ég hætti að kasta upp aðfaranótt fimmtudags og var eingöngu á fljótandi fæðu í tvo daga.
Sneiðmyndatökur af kvið og heila komu mjög vel út. Það er því búið að athuga mig í bak og fyrir og ekkert óvænt eða slæmt sem ætti að geta komið upp.
Æluköst eru ekki algeng fyrir og eftir gallblöðrutöku þannig að ef það heldur áfram þá fer ég í til meltingarlæknis í magaspeglun. Ég er búinn að vera að díla við reglulegar ælutarnir frá því 2018.
Ég vona að þetta tengist gallblöðrunni og að ég hafi verið að eiga við endakarlinn í þessu öllu.
Á von á því næstu vikurnar að borða nokkuð venjulega fæðu en tek ógleðislyf með því.
Beauty-ið við lífið er að það heldur alltaf áfram, sama hvað, og maður getur oftast jafnað sig á hlutum og verkefnum og komið sterkari til baka. Það tekur bara tíma.
KRK

Comments