top of page

Febrúar á Filippseyjum - svefnlitlir dagar og öll plön breytt

Eins og ég skrifaði í síðasta pistli í byrjun febrúar þá var ég búinn að festa mig í Parañaque City, einni af borgunum sem tilheyra Manila, í sex mánuði. Pat, vinur minn, og fjölskyldan hans, hjálpuðu mér að finna íbúðina og allt virtist líta vel út. Ég vissi að byggingin væri ný og ég væri fyrsti leigjandinn í íbúðinni. Eftir á að hyggja hefði ég átt að spyrja betur um stöðuna á öðrum íbúðum og hvort það væri gott næði. Ég, eins og flestallir, viljum búa við gott næði en það er ekki alltaf hægt.


Ég mætti galvaskur 2. febrúar og sá strax tæki og tól á 12. hæðinni og allt var frekar skítugt. Strax vonbrigði, ég var nýbúinn að skrifa undir leigusamning til hálfs árs. Ég vonaði innilega að íbúðirnar í kringum mig væru á lokametrunum og allt væri búið fljótlega. Framkvæmdir voru 7.30-17.30, sex daga vikunnar. Alvöru framkvæmdir. Borvélar, hamarshögg, slípivélar … 7.30 var maður glaðvaknaður og ekki séns að sofa meira. Mitt nánasta fólk var farið að sjá að ég var þreyttur til augna á myndum. Ég er næturhrafn, þannig að þetta var ekki að virka vel. Ef ég væri að vinna 8-17, þá hefði þetta verið miklu auðveldara.


Um miðjan febrúar þegar ég sá betur hvað sumar íbúðir voru komnar skammt á leið - nokkrir mánuðir eftir af framkvæmdum, ákvað ég að reyna að losna. Það gekk vel, ég hafði borgað fyrsta mánuðinn ásamt einum mánuði í tryggingu og fæ hann til baka fljótlega í mars. Eigandi íbúðarinnar býr í S-Kóreu og sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir umfangi framkvæmdanna. Leyfum honum að njóta vafans með það. Ég held að þessi íbúð hafi verið sú eina sem var tilbúin á hæðinni og ég var orðinn lúinn í lok febrúar. En að öðru leyti frábær íbúð og gott hverfi.


Öll plön voru breytt. Ég var samt pínu sáttur að þurfa ekki að vera þarna í sex mánuði. Finnst það of langur tími á sama stað erlendis. Hefði verið til í þrjá mánuði þarna í góðu næði. Það er bara erfitt, eða ómögulegt, að fá þriggja mánaða leigu á Filippseyjum. Ég vissi ekki alveg hvað ég ætti að gera þegar þarna var komið sögu.


Þegar maður kemur til Filippseyja sem útlendingur þá fær maður 30 daga Visa. Því næst er 29 daga framlenging sem maður fær hjá útlendingastofnun. Eftir það er hægt að fá 2, 3, eða 6 mánuði framlengda. Ég klúðraði minni framlengingu, 29 daga framlengingunni. Ég var kærulaus, vissi að það væri ekkert stórmál að fara fram yfir en var samt auðvitað með plan. Það var nýtt að geta framlengt um 29 dagana á Netinu, svo ég nýtti mér það. Ég gerði það hins vegar daginn áður en Visa rann út hjá mér en það var nokkurra daga ferli að samþykkja það. Kæruleysið hjá mér var að athuga þetta ekki betur áður. Ég skaust því á næstu útlendingastofnun sem var alveg að loka á föstudegi. Það var búið að færa þessa útlendingastofnun annað og tíminn of naumur til að fara á nýja staðinn. Ég vissi því, fyrst ég var búinn að klúðra þessu, að ég þyrfti að fara til einhvers nágrannalands á næstunni til að endurnýja Visa hjá mér. Hvort ég færi daginn eftir eða eftir 29 daga, það skipti ekki máli. Refsingin væri sú sama, 10.000 kr. sekt.


Fyrst að ég lenti í íbúðarvandræðunum þá þurfti ég ekki að skjótast til nágrannalands. Ég gat allt eins verið þar í mánuð. Valið stóð á milli Hong Kong, Víetnam og Taílands. Það síðastnefnda varð fljótlega fyrir valinu, aðallega því mjög margir halda að ég sé alltaf í Taílandi, þó svo að ég hafi eytt samtals rúmum þremur mánuðum á Filippseyjum í tveimur mismunandi ferðum. „Kiddi bara kominn með eina Tææælenska, maður!” Oft hefur maður heyrt þetta síðasta árið, á meðan ég var í raun allt annars staðar! 15 ára náfrænka mín var meira að segja að tjá vinum sínum að ég væri í Taílandi fyrir nokkrum vikum. Þá gafst ég upp á reyna að segja fólki muninn. Ég hélt að þetta væri meira bundið við eldri kynslóðir en yngri. Jæja, ég er allavegana kominn hingað til Taílands núna til að sjá muninn sjálfur og að geta frætt fólk um það kannski betur.


Ég verð í Taílandi til 25. mars og fer þá aftur til Filippseyja. Byrja í Bangkok og ferðast síðan aðeins um landið. Kem með öflugan pistil um Taíland í lok mars!


KRK




 
 
 

Comments


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page