top of page

Ferðalagið mjög svo skrautlega til S-Ameríku og tíminn heima á Íslandi

Updated: Sep 17, 2024

Ég er búinn að vera í Quito í Ekvador í þrjá daga. Á miðvikudagsmorgun hélt ég af stað í 30 klukkutíma ferðalag. Fyrst var förinni heitið til London, síðan til Kólumbíu og loks til Ekvador. 15 klukkutímar í loftinu ... hef séð það mun „verra" áður.

Ferðalagið var vægast sagt skrautlegt. Eins og oftast áður þegar ég legg af stað í svona reisur þá fer ég ósofinn, og þá meina ég algjörlega ósofinn. Mikið að græja og gera og ákveðinn spenningur í gangi. Ég get yfirleitt ekki sofið sitjandi en ég gerði það hins vegar oft í þessari ferð sökum mikillar þreytu.


Öruggast er að kaupa miða til baka frá landinu sem maður er að fara til, svo að það sjáist að þú farir úr landinu á einhverjum tímapunkti. Það er alls ekki alltaf spurt um það, ég myndi segja í svona 20% tilvika.

Í London á leiðinni til Kólumbíu var ég spurður um „return ticket." Ástæðan fyrir því að ég var spurður þar var af því að sama flugfélag átti að fara með mig til Ekvador.

Ég var mættur 45 mínútum fyrir brottför en var þá tjáð að ég þyrfti miða til baka frá Ekvador. Ég sagði ekkert mál, ég kaupi bara ódýran miða til nágrannalands Ekvadors. Kona nokkur hjá flugfélagi Avianca frá Kólumbíu sagði mér hins vegar að það yrði að vera aftur til London og ég hefði aðeins 5-10 mínútur til að græja þetta áður en hætt væri að hleypa inn í vélina.


Ég snögg stressaðist allur upp, hef ekki orðið svona stressaður síðan flugin mín til Filippseyja sumarið 2022 klúðruðust vegna nýrra Covid-reglna þar í landi, þegar Covid var í raun lokið.

Ég fór á Netið og fann bara einhvern miða 3. desember frá Quito í Ekvador til London. Einhvern þokkalega ódýran miða með engum töskum. Í öllu stressinu endaði þessi miði til Miami í Bandaríkjunum. Ég hef ekki hugmynd um hvernig það gat gerst og ég sá fram á þrotaða og kostnaðarsama tíma fram undan, örþreyttur í London - að ég þyrfti að panta mér hótel og ný flug til Ekvador.

Ég fór aftur til konunnar og sagði henni að þetta hafi klúðrast hjá mér, að miðinn hafi endað í Miami í öllu stressinu. Ég spurði hvort að þetta væri ekki nóg og af hverju miðinn þyrfti endilega að vera til London. Hún stóð fast á sínu að flugmiðinn til baka frá Ekvador þyrfti að vera til London. Stressið gat ekki verið meira og hún sagði að ég hefði tvær mínútur til að kaupa miða til London frá Ekvador. Ég reyndi, en tíminn var á þrotum.


Ég settist niður, niðurlútur og vonsvikinn - skildi ekki alveg hvað hefði gerst.

Allt í einu, þegar hliðið til að ganga inn í flugvélina var að lokast, kom að mér starfsmaður. Ég veit ekki almennilega hvort að hann var að vinna fyrir kólumbíska flugfélagið Avianca eða hvort hann var starfsmaður á Heathrow-flugvellinum. Líklega hið fyrrnefnda. Hann sá að ég var í vandræðum og ég útskýrði hlutina fyrir honum. Hann tjáði mér þá að flugfarið mitt frá Ekvador þyrfti ekkert endilega að vera til London í Englandi, það mætti vera til hvaða lands sem er (sem ég hélt allan tímann).

Hann sagði mér að ég mætti ganga inn í flugvélina án frekari vandræða og þegar þangað var komið var ég síðasti farþeginn um borð. Hlutirnir breyttust úr martröð í paradís á nokkrum mínútum því ég fékk þrjú flugsæti út af fyrir mig og gat legið og sofið í sjö klukkutíma af þeim tíu klukkutímum sem flugferðin tók.


Þegar til Kólumbíu var komið var aðeins 90 mínútna flugferð eftir til Ekvador og stutt í að þessu væri lokið.

Ég tók síðan 40 mínútna Uber að íbúðinni sem ég hafði leigt í viku og áttum ég og bílstjórinn góðar samræður á einfaldri spænsku.

Ég er núna að vinna í því næstu dagana að finna mér íbúð hér í þrjá mánuði til að byrja með og ég ætla einnig að ferðast til annarra landa í S-Ameríku.


Sumir hafa velt þessum ferðalögum mínum öllum fyrir sér og spurt af hverju ég sé að þessu og af hverju ég sé ekki meira á Íslandi. Íbúðin mín á Vitastíg er alltaf í útleigu og ég á því engan fastan samastað heima. Mér finnst gaman að ferðast og ég get verið einn míns liðs mikið því ég er 70% einfari. Í þessum ferðalögum „boost-a“ ég einfarann upp í 90% en er mun félagslyndari þegar ég er á Íslandi. Góður einn og góður í hópi líka.


Ég var á Íslandi 9. ágúst-11. september. Það var ótrúlega skemmtilegt, miklu skemmtilegra en í fyrra þegar mikið ójafnvægi átti sér stað. Manía, blandað ástand, sjálfsvígshugsanir, geðdeildarinnlagnir og fleira.

Núna var jafnvægið frábært og ég naut þess í botn að vera heima.

Ég elska fjölskylduna mína, vini mína og Ísland en það er staðreynd að birtuskilyrðin heima hafa gert mér erfitt fyrir. Ég hef dvalið erlendis í samtals rúmlega tvö ár þar sem birtuskilyrðin eru mjög jöfn allan ársins hring; 12 tímar af birtu og 12 tímar af dimmu. Engar geðsveiflur hafa átt sér stað þar og hafa þessi jöfnu birtuskilyrði verið magnað meðal fyrir mig. Ég tek þó miklar birgðir af geðlyfjum með mér út og er í góðu sambandi og eftirliti með geðlækninum mínum á Íslandi.


Vonandi í framtíðinni get ég átt aðra íbúð til að dvelja lengur heima. Það væri mjög gaman að vera lengur en einn mánuð næst en ég pakkaði núna fyrir níu mánuði. Það gæti þó orðið styttra. Ég er alltaf maðurinn á krossgötunum sem veit bara nokkra mánuði í senn fram í tímann.


KRK





 
 
 

Comments


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page