top of page

Filippseyjar - Land fegurðar & slúðurs

Updated: Sep 5, 2022

Eftir Dallas-ferðina mína árið 2019 og þangað til takmörkunum um Covid á Íslandi lauk í febrúar 2022, þá fór ég tvisvar sinnum út fyrir höfuðborgarsvæðið - norður með Kórdrengjum á handboltaleik og í heimsókn til systur minnar á Selfoss. Ég var þægur í þessum heimsfaraldri og ákvað að fara í alvöru ferð þegar það „mætti”.


Í nóvember 2020 kynntist ég hinni frábæru Anna Mae, ég sá auglýsingu á Facebook sem hét “Filipino Cupid”, og hugsaði með mér: „Mig langar næst að fara til Asíu, athugaðu hvort það sé ekki áhugi á kallinum.” Ég gerðist áskrifandi, nokkurs konar einkamál.is okkar Íslendinga og já, það var áhugi til staðar. Margar af þessum konum þrá betra líf en mér fannst þetta ekkert fara sérstaklega vel af stað. Nokkrar af þeim „ödduðu” mér á WhatsApp-forritið en báðu mig mjög fljótlega um peningagreiða. Þar með var minn áhugi farinn. Eftir nokkra daga töluðum við Anna saman og hún vissi mikið um Ísland. Fyrsta video-spjallið var við hana eftir skráningu. Glæsileg snót, skemmtileg, klár, frábær í ensku og ekki að biðja um neitt frá mér þrátt fyrir erfiðar aðstæður heima fyrir. Ég bauðst síðan til þess að hjálpa fjölskyldunni aðeins og keypti handa þeim rúm, alla tíð höfðu þau sofið á gólfinu. Ég fékk svolítið samviskubit hvernig maður lifir sjálfur, sennilega betur en 95% mannkyns. Ég hefði heimsótt hana í júní eða desember ‘21, ef allt hefði verið eðlilegt. Það liðu því 1,5 ár frá því við kynntumst þangað til við hittumst. Langur tími og erfitt á köflum.


Við hittumst í Manila, höfuðborg Filippseyja þann 16. júní, en áttum að hittast þann 13. Flugvesen hjá mér vegna glænýrra Covid-reglna á Filippseyjum urðu til þess að ég þurfti þrjár tilraunir til þess að komast á áfangastað. Það voru miklir fagnaðarfundir þegar við hittumst á flugvellinum en daginn eftir áttum við síðan klukkutímalangt flug til heimabæjar hennar - Catarman (Northern Samar). Anna hafði aldrei ferðast út fyrir bæinn sinn áður, aldrei farið í flugvél eða lest. Þetta var því mikið til nýtt fyrir okkur bæði þessi ferð mín.


Catarman er einn fátækasti bær Filippseyja, á top 10 á þeim leiðinlega lista. Það var svona eins og að fara 50 ár aftur í tímann að vera þarna og stór hluti fólksins hefur ekki hugmynd um stöðuna í mörgum öðrum löndum heimsins. Maður var stundum sorgmæddur að vera þarna. Þrennt sem ég tók strax eftir með þessa 1970 stemningu - allt, gjörsamlega allt, borgað með peningum, ekkert rusl flokkað og rafbílar mjög langt því frá að vera veruleiki. Margir eru með að meðaltali 800 kr. íslenskar á dag í laun og ég veit að lögreglan er með 100.000 kr. á mánuði í höfuðborginni en það er engin lögregla í Catarman. Ætli það sé ekki sirka 5x ódýrara að lifa þarna að meðaltali heldur en á Íslandi og að launin séu u.þ.b. 20x lægri. Tanduay, gæða Rhum frá Filippseyjum kostar t.d. 283 kr., 750 ml, 40% flaska.


Að vera útlendingur þarna, sérstaklega eins og ég svona mikið öðruvísi, var mikil upplifun. Kannski samt ekki alveg eins mikið “Shock” fyrir mig eftir að hafa búið í Mexico árið 2013. Mia, systir Önnu, orðaði þetta skemmtilega: Þú ert eins og “Instant Celebrity”, að vera útlendingur í Catarman. Fólk sneri sér í tvo hringi þegar það sá mann, hætti vinnu sinni í smá tíma og börn störðu í fleiri mínútur ef svo bar við - höfðu aldrei séð annað eins fyrirbæri áður.


Flestir fara sínar ferðir á mótorhjólum þar sem er sett stór kerra á þau og þetta kallað tricycle, engu að síður passaði ég afar illa inn í þessar kerrur. Venjulega eru 4-6 farþegar sem borga hver 50-60 kr. fyrir tíu mínútna far. En bensínlítrinn kostar 195 kr. þarna, dæmið gengur engan veginn upp. Ef það þurfti að taka bensín á miðri leið þá varð mótorstjórinn að fá pening frá farþegunum því þeir áttu aldrei neitt aukalega og settu bara einn lítra af bensíni hverju sinni á tankinn. Ég greiddi alltaf lágmark tvöfalt gjald enda örlítið þyngri en aðrir farþegar. Stundum borgaði ég 300 kr. fyrir farið og það munaði ótrúlega miklu fyrir þessa duglegu karla.


Eftir svona tíu daga var ég kominn með ágætlega nóg af bænum, alltaf á 30 km hraða, sem er kannski ágætt til að hægja á manni, og hver dagur svipaður. Mér fannst maturinn allt í lagi þarna, fékk allavega ekkert í magann af honum. Mikið til fiskur, kjúklingur og svínakjöt en flestir íbúar Catarman hafa aldrei smakkað lambakjöt eða nautasteik. Við fórum oft og fengum okkur skyndibita og voru kjúklinga- og svínagrillspjót í miklu uppáhaldi hjá mér. “Not Available” heyrði ég á hverjum degi varðandi einhvern mat eða meðlæti sem ég ætlaði að fá, oft pirrandi en ekkert sem afgreiðslufólkið gat gert í því. Margir ávextir eru í heimsklassa þarna, ber þá helst að nefna Mangosteen og Jackfruit - einnig eru þau með viðbjóðslega ávexti á borð við Durian sem ég tók myndband af mér að smakka.


Anna og hennar fólk forðast sólina mikið, hitinn er mikill, 31-33 gráður á daginn, allan ársins hring, og síðan eru ákveðnir fordómar þarna ef þú ert örlítið dekkri á hörund en aðrir. Eitthvað sem við Íslendingar tökum varla eftir, nánast enginn munur, og ég sagði þeim hvað þetta væri fáránlegt. Það var því ekki oft legið i sólinni eða farið á ströndina, ég náði litlum lit fyrstu vikurnar. Ég vildi verða aðeins brúnni en Anna ögn ljósari. Bingó í Ólafssal … ekki alveg.


Ég leigði íbúð í einn mánuð hjá manni að nafni Bhonn Tags í Aurelio’s Lodge, virkilega ánægður með hann því hann ofrukkaði mig ekki. Það eru mjög fáir útlendingar í bænum hverju sinni, kæmi mér ekki á óvart þó ég sé eini Íslendingurinn sem hefur farið til Catarman. Ég hafði skoðað hótel áður, Anna fékk verð fyrir einn mánuð þar og síðan hafði ég samband við hótelið. Þá var það þrisvar sinnum dýrara en verðið sem hún fékk uppgefið hjá þeim. Bhonn gaf mér verð og afslátt á hvern dag, u.þ.b. 70.000 kr. sem mánuðurinn kostaði. Eina sem ég vildi var rúm og að geta sturtað niður klósettinu, það er lúxus þarna. Ég baðaði mig síðan í fötu og skvetti yfir mig vatni, sem var bara fjör.


Eftir tvær vikur í Catarman fórum við Anna til Cebu með ferju. Cebu er falleg eyja og það var eins og að fara áfram um 30 ár frá Catarman. Við vorum þar í fimm daga á hóteli með sundlaug og hótel-bar á 21. hæð sem var bara unaður. Hápunktur ferðarinnar var þegar við fórum dagsferð til Kawasan Falls. Fjögurra klukkutíma ganga í grjóti og vatni og hoppað ofan í fossana. Náttúruperla sem toppar margt á Íslandi þó Ísland sé draumastaður ferðamannsins. Leigubílstjórinn sem sótti okkur fyrsta daginn bauðst til þess að vera “driver-inn” okkar í 12 klukkutíma ef við færum að Kawasan Falls. Fjórir tímar hvor leið, frá og til Cebu, og fjórir tímar í fossunum. Hann sagði að þetta myndi kosta 5000 Php Pesos - 12.500 kr. Ég sagðist myndi borga honum 17.500 kr. og hann var mjög sáttur með það. Þegar ég síðan borgaði honum 7000 Php Pesos þá sagði hann: “No more money for me?” Ég sagði honum að ég hafi borgað honum ágætlega yfir venjulegt verð og að hann þyrfti ekki að koma daginn eftir og skutla okkur þangað sem við ætluðum með honum. Ég nenni ekki svona kjaftæði, segðu bara hvað þú vilt fá greitt fyrir og ekki betla síðan meira eftir að hafa verið “tips-aður.”


Svo að ég taki út “rant-kaflann” hérna þá fór langmest í taugarnar á mér við fólkið á Filippseyjum slúðrið þar. Það slúðra flestir almennt að einhverju leyti en þetta var á við tífalt sem ég hef upplifað áður og annars staðar. Frá því að fólk vissi í fyrra að Anna ætti erlendan kærasta, sem hlyti nú að vera svolítið efnaður, þá fór það að biðja hana mikið um að kaupa gjafir fyrir sig, einnig um sígarettur og áfengi og bílstjórar ofrukkuðu hana. Á meðan ég var úti töluðu sumir sín á milli um að okkar samband myndi aldrei endast, ég myndi örugglega barna Önnu og láta mig síðan alfarið hverfa. Ef ég var einn á ferli í Catarman, sem gerðist kannski fimm sinnum í heildina, þá spurðu stelpur mig hvar Anna væri eiginlega og hvort það væri eitthvað að hjá okkur. Ég var kannski bara að ná í kvöldmat fyrir okkur. Enginn af fólkinu “confrontaði” mig beint, það var bara safnað í slúður. Vonandi verður þetta skárra næst þegar ég mæti. Margir báðu okkur um gjafir, sem er kannski skiljanlegt ef lítið er til hjá fólki. Ég hins vegar gladdi og hjálpaði þeim sem báðu ekki um neitt og voru “humble” og góðar manneskjur. Mér var alltaf tekið vel alls staðar og flest allir voru vinalegir - mér var aldrei sagt að drulla mér heim til mín (til Íslands), sem ég kunni að meta. Ég upplifði enga hættu, enda varkár á framandi slóðum, og aldrei að þvælast neitt einn á nóttunni.


Við Anna fórum tvisvar sinnum í þorpið þar sem foreldrar hennar búa. 500 manna þorp og ég var annar útlendingurinn í sögunni til að stíga þangað fæti. Í fyrra skiptið sem við fórum var hátíð og meðal annars drottning þorpsins valin. Einnig var hægt að velja nokkra til þess að dansa við lifandi tónlist og gefa pening í kassa. Ég var valinn af mínu borði og gáfum við um 5.000 kr. til þorpsins sem er sennilega á við 30-40.000 kr. á Íslandi.


Ég hélt upp á afmælið mitt á Venson Bar And Restaurant, ásamt nokkrum vinum Önnu, sem var hrikalega skemmtilegt. Venson’s myndi sóma sér vel t.d. í miðbæ Reykjavíkur þrátt fyrir að vera staðsettur í Catarman og hrósaði ég eigendunum mikið fyrir að láta reyna á þetta, staðurinn opnaði í febrúar síðastliðinn. Live Music öll kvöld og flottur matseðill. Hljómsveitirnar sem spila þarna fá ekki mikið greitt fyrir fjögurra tíma “gigg”. Eitt óskalag fyrir mig og ég greiddi þeim það sem kostar mig að fá mér “Heavy Special” á Stælnum heima. Það var samt meiri peningur en þau fá greitt fyrir kvöldið. Það var auðvelt að vera svolítill Shaquille O’Neal stundum þarna úti án þess að finna mikið fyrir því, þeir skilja sem skilja. Gleðja þegar það átti við með smávegis “tipsi”. Enda var ég oft í All-Star Shaq treyjunni minni. Þeir aðilar sem ég kynntist mest í Catarman, ótengdir Önnu, voru eigendur Venson’s og Kim Ballesta Chia. Hann gaf mér klaka í bjórinn minn á ströndinni og vinátta þar með innsigluð í kjölfarið. Algjör öðlingsdrengur.


Það kom að kveðjustund í Catarman, 14. júní, og Anna átti svolítið erfitt með það síðustu dagana. Ég var hins vegar himinlifandi. Ég segi nú svona, það var virkilega skemmtilegt og áhugavert að vera þarna og sjá hennar heim en ég vissi samt að 70-80% einfarinn sem ég er myndi ströggla á einhverjum tímapunkti að vera alltaf með einhverjum 24/7. En ekkert alvarlegt, stundum bara ekki alveg í bullandi gír.


Við Anna kvöddumst með faðmlögum og myndatöku og ég hélt í klukkutíma flug til Manila. Þar hafði ég bókað hótel nálægt flugvellinum til þess að vera eina nótt. “Check Out” var kl. 12.00 þann 15. júní og fyrsta flug af þremur áleiðis heim kl. 18.00. Ég þurfti því að drepa tímann í 2-3 klukkutíma áður en ég færi á flugvöllinn. 20 sekúndum frá hótelinu mínu var Patrick nokkur og hans fjölskylda með lítinn krúttlegan veitingastað. Ég fann strax hvað hann og konan hans voru vinaleg og buðu þau mér að koma aðeins inn fyrir á heimilið þeirra - þar sem þau búa tólf saman ásamt tíu hundum, með þökk! Ástæðan fyrir því að ég fór inn fyrir til þeirra var að èg var svolítið “target-aður” af fólki um peningabeiðnir fyrir utan. Ég borðaði hjá þeim hjónum næstu tvo klukkutímana og kynntist fjölskyldunni smávegis. Þau buðust síðan til þess að skutla mér á flugvöllinn.


Ég lenti aftur í flugvandræðum vegna ferðarinnar í maí, en vegna þess að ég nýtti ekki flugin með Etihad Airways heldur þurfti ný flug með Thai Airways (Covid-reglna-vesen sem ég lenti í) þá þurfti ég að hringja í Etihad, tilkynna þeim og greiða breytingagjald. Vegna þess að ég keypti “roundtrip” í apríl, sex flug, þá hafði þetta áhrif á þau flug sem voru eftir. Ævintýralegt smáatriði og ég var með filippískt símanúmer ennþá þarna og ekkert “International load.” Það voru 20 mínútur í að “desk-ið” hjá Etihad lokaði og ég náði ekki almennilega í Önnu til að græja þessa inneign eða í fjölskylduna heima til að reyna að fá þau til að hringja fyrir mig. Flugfélagið gat ekki heldur hjálpað mér að hringja. Mig langaði í 1,5 sekúndu svona að grenja létt þegar ég áttaði mig á því að þetta væri búið fyrir mig. Að ég þyrfti líklega að ná í enn einn 150.000 kallinn úr vinstri rassvasanum og fara að hringja þung símtöl og bóka einu sinni enn - sem ég var þarna kominn með algjörlega upp í kok af. Sjö flug farin samtals í vaskinn, þar af fjögur frá Etihad. Fæ ég nýja ferð heim án aukakostnaðar? Inneign síðar af góðmennsku frá þeim? Þarf ég að bóka nýja rándýra ferð heim með nánast engum fyrirvara?


Ég var ekkert að drífa mig sérstaklega mikið, bæði nennti ég því ekki, var með ódýrt hótel og nýbúinn að kynnast virkilega góðu fólki. Pat og frú sóttu mig á flugvöllinn fjórum tímum eftir að við kynntumst og ég setti í “story” hjá mér hvað þetta væri magnað og hvað svona tengsl strax væru sjaldgæf. Næstu fimm dagana hringdi ég og fékk hjálp frá fjölskyldu Pat varðandi Etihad. Við fórum líka á skrifstofuna á flugvellinum. Niðurstaðan var að ég get nýtt þessi fjögur flug sem ég missti af hjá þeim innan eins árs. Það þurfa hins vegar að vera nákvæmlega sömu flugferðir og ég missti af + 30.000 kr. rukkun frá þeim fyrir breytingu á miðunum. Til þess að komast alla leið til Catarman og til baka til Íslands þarf samtals átta flug þannig að þetta eru engin svakaleg sárabót, þó eitthvað.


Ég var í Manila í viku í staðinn fyrir einn dag. Mjög skemmtilegt og að djamma í Burgos Circle var geggjað. Svakalegt hverfi. Fór líka t.d. Í kirkju, blak, körfu og fleira. Frábær viðbót við ferðina þessir aukadagar. Pat og fjölskylda skutluðu mér síðan út á flugvöllinn og ég er ekki frá því að við áttum erfitt með okkur vinirnir.


Ég var á Filippseyjum í samtals tæpar sex vikur og þurfti að greiða 10.000 kr. á flugvellinum fyrir brottför fyrir að fara yfir hefðbundna 30 daga sem má vera í landinu án Visa.


Ég hlakka til Filippseyja aftur! Viss um að þetta land verði mér sérstakt í framtíðinni. Ég get nýtt þessi flug hjá Etihad til 15. apríl n.k. þannig að ég býst við því að fara aftur út fyrir þann tíma.


KRK

ree

 
 
 

留言


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page