Fjölskyldan sem ég eignaðist á Filippseyjum
- Kristinn Rúnar
- Jun 11, 2023
- 2 min read
Í júní á seinasta ári var upphaflega planið að dvelja eina nótt í Manila á Filippseyjum áður en ég héldi aftur heim til Íslands, eftir mánaðardvöl í Catarman. Ég dvaldi á hóteli sem heitir RedDoorz, en þurfti að fara út í búð í grenjandi rigningu. Á leið minni þangað sá ég mann að nafni Paterno sem skilgreinir sig sem Patrick og kallar sig Pat, en er í dag ekkert annað en Patrekur í okkar samtölum. Patti á síðan eftir að koma inn seinna meir! Patrekur var að steikja á veitingastaðnum sínum og ég sagði honum að ég kæmi í hádeginu daginn eftir, fyrir flugið mitt. Ég þyrfti stað til að drepa tíma dágóða stund, sem og að borða góðan mat.
Ég var hjá honum og fjölskyldu hans í þrjá klukkutíma fyrir flug og fann að þau væru mjög indæl; indælli en gengur og gerist og hugsaði með mér eftir svona klukkutíma að þetta gæti orðið fólk sem ég myndi halda sambandi við í náinni framtíð. Þau buðust til að keyra mig út á flugvöll. Við tókum nokkrar myndir saman og urðum Facebook-vinir. Þar sem strangar Covid-reglur voru ennþá á Filippseyjum fyrir ári síðan lenti ég í alls kyns vandræðum í þessu “roundtrip“ og eitt smáatriði olli því að ég komst ekki til baka heim til Íslands þennan dag. Það var því ekkert annað í stöðunni en að senda Patreki, og frú Badet, skilaboð á Facebook og spyrja hvort þau gætu sótt mig - mjög eðlilegt allt saman. Það var ekkert mál og ég var viku í viðbót á meðan ég fann flug við hæfi aftur heim. Ég var heldur ekkert að flýta mér, ég hafði eignast nýja vini í Manila!
Eftir að ég kom aftur til Filippseyja í desember sl. hef ég hitt þau mjög reglulega og ekki verið mjög langt frá þeim. Mikil vinátta hefur myndast og hjálpum við hvort öðru með ýmislegt. Ég fæ t.d. að geyma stóru ferðatöskuna mína hjá þeim þegar ég skrepp til annarra nálægra landa og einnig fæ ég að senda vörur til þeirra. Það er kannski ekki mjög sniðugt að geta haft möguleika á að senda vörur á rock solid heimilisfang því ég á það til að versla svolítið á Netinu - treyjur, skó og fleira. En það er bara gaman. Ég fékk t.d. pakka frá Íslandi með nokkrum nauðsynjavörum í vikunni sem var gott að vita að myndi lenda í öruggum höndum.
Um helgina fór ég á heimili þeirra og veitingastað, fékk þar dýrindispizzu á opnunartilboði, en þau voru að byrja að selja pizzur. Uppáhaldið mitt hefur alltaf verið Coffe Vanilla in Manila hjá þeim en pizzan gæti breytt því á næstunni!
Mér líður einkar vel hér á Filippseyjum, en ég kem aftur heim til Íslands, a.m.k. í heimsókn, í október nk.
KRK

Comments