top of page

Fundur hjá Heilbrigðisráðuneytinu til að draga úr fordómum í fjölmiðlum

Updated: Apr 20, 2019

Síðastliðinn föstudag sat ég fund hjá Heilbrigðisráðuneytinu. Í haust setti ráðuneytið saman starfshóp sem hafði það að markmiði að leita leiða til að draga úr fordómum gagnvart fólki með andlegan vanda í fjölmiðlum. Hópurinn er búinn að setja saman drög að viðmiðum í umfjöllun um geðheilbrigðismál. Það var mikill heiður að vera boðaður til þeirra og segja mína skoðun, þar sem ég hef töluvert látið þessi mál mig varða undanfarin ár. Ég hef skrifað mikið til að reyna að minnka fordóma og oft á tíðum reynt að fá blaðamenn til að vanda sig í umfjöllun sinni - ekki að vera í einhverri æsifréttamennsku um viðkvæm mál til þess eins að fá fleiri flettingar.


Listinn um viðmiðin verður endanlega tilbúinn fyrir sumarið og margt á honum eru atriði sem ég hef reynt að hamra á síðustu ár. T.d. að ég sé með geðhvörf en ekki geðhvarfasýki... Að það eigi ekki að draga orð fólks í efa á þeim grundvelli að viðkomandi eigi sér sögu um geðræn veikindi... Ekki birta myndir eða myndbönd af fólki í geðrofi eða með skert veruleikaskyn... Þessi punktur hér er mjög flottur og nauðsynlegur: Getum ekki um sjúkdómsgreiningar fólks með geðrænan vanda sem fremur ofbeldisverk nema slíkt skipti augljóslega máli. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk með geðræn vandamál beiti ekki frekar ofbeldi heldur en annað fólk.


Ég vona svo sannarlega að það séu bjartir tímar fram undan.


KRK







bottom of page