Raflostsmeðferð er mjög vanmetin
- Kristinn Rúnar
- Nov 30, 2016
- 3 min read
Updated: Oct 11, 2018
Ég hef farið tvisvar sinnum í raflostsmeðferð, 2011 og 2015. Þessi meðferð á rætur sínar að rekja til 4. áratugs 20. aldar og var mikið notuð á fólk með geðklofa og aðra geðsjúkdóma. Eftir að geðlyf hösluðu sér völl á 6. áratugnum minnkaði þörfin á raflækningum og er í dag notað í alvarlegum þunglyndistilvikum og þegar lyf eru ekki að svara nægilega vel.
Meðferðin virkar misvel á fólk en hefur virkað rosalega vel fyrir mig þegar ég hef upplifað mikið þunglyndi á minni lífsleið. Í dag er lítið rætt um þessa meðferð en í lok árs 2010 var ég mikið þunglyndur, lyfin voru ekki að virka á mig sem skyldi og ég fór því og leitaði ráða sjálfur. Ég vafraði eftir lausnum á Netinu og rambaði á þessa meðferð og leist strax vel á.
Mikið og gott jafnvægi myndaðist
Geðlæknarinn minn kom þessu í kring fyrir mig en ég hafði verið að detta endurtekið í djúpar þunglyndislotur mánuðina á undan. Það fór svo að ég fór í raflostsmeðferð - níu skipti á fjórum vikum í upphafi árs 2011. Það er einnig algengt að fara allt upp í þrisvar sinnum í viku í nokkrar vikur; 6-12 skipti er algeng lengd á meðferð.
Um 80% svara þessu vel og það gerði ég svo sannarlega. Við tóku fjögur frábær ár sem ég vil að miklu leyti þakka raflækningunum. Ég kláraði stúdentinn - sem tók mig ekki nema átta ár, og ég komst í besta form lífs míns árið 2013. Stöðugleikinn sem myndaðist var magnaður. Árið 2014 fór hins vegar að halla undir fæti hjá mér og mikið ójafnvægi myndaðist. Tvær maníur með ekki nema tíu mánaða millibili áttu sér stað og nokkuð djúpt þunglyndi fylgdi á eftir.
Taka tvö
Ég ákvað í desember í fyrra að fara aftur í raflostsmeðferð, þá var það gert á styttri tíma. Ég fékk því að upplifa aukaverkanir sem er varað við - skammtímaminnið hvarf á þessu tímabili og ég man mjög lítið eftir jólunum í fyrra. Það eru hins vegar að koma aftur jól og ég er í miklu betra ástandi núna en á sama tíma í fyrra. Engin manía í sumar og ég hef verið einkennalaus eftir meðferðina sem kláraðist milli jóla og nýárs. Meðferðin hefur engin áhrif á langtímaminnið.
Ég nota tvenns konar lyf til að reyna að haldast stöðugur en það er hægt að fara í eitt raflostskipti á mánuði til að halda manni við, eitthvað sem ég þarf að hugsa út í ef ójafnvægið byrjar mögulega aftur eftir nokkur ár eins og eftir fyrri meðferðina. Ég er á þeirri skoðun að þessi meðferð sé betri en fólk heldur og sé mjög vanmetin. Ég hef meiri trú á raflækningum heldur en geðlyfjum ef ég ber saman árangurinn með sjálfan mig síðasta áratuginn við þessar ólíku meðferðir.
Neikvætt umtal oft á tíðum
Sumir tala illa um raflostsmeðferðina, mjög líklega þeir sem svara henni illa og upplifa að skammtímaminnið hverfi á þessu tímabili. Þetta er kannski svipuð upplifun og með lyfin, sum geta virkað vel á mann en önnur gera lítið sem ekkert gagn og geta unnið gegn þér.
Umtalið hefur einnig ekki verið gott í gegnum tíðina, vegna þess t.d. hvernig meðferðin hefur verið sett fram í bíómyndum. Þetta er hins vegar allt mjög fagmannlega gert á Landspítalanum við Hringbraut og hefur þróast til betri vegar með árunum.
Allt mjög vel undirbúið og vandað til verka
Áður en meðferð hefst fer maður í hjartalínurit, röntgenmynd er tekin af lungum og einnig er blóðprufa framkvæmd. Fyrir hvert skipti eru gefin svefn og vöðvaslakandi lyf í æð og súrefni. Viðstaddir eru geðlæknir, svæfingalæknir og hjúkrunarfræðingur.
Eftir það eru rafskaut sett á höfuðið og vægur rafstraumur settur á í nokkrar sekúndur til að mynda krampa við heilann. Krampinn þarf að lágmarki að standa yfir í 20 sekúndur til að það skila árangri og er oft allt að ein mínúta að lengd, mismunandi eftir einstaklingum hvenær krampinn myndast. Læknar og heilbrigðisstarfsfólk fylgjast með línuritum á meðan og passa að allt fari vel fram. Til að ná sem mestum árangri þarf að ná fram þessum krampa en það er gert á lágmarksstyrkleika.
Ég man vel eftir fyrsta skiptinu mínu, ég var með mikinn verk í kjálkunum því ég beit svo fast saman tennurnar þegar krampinn átti sér stað - allt þess virði eftir á og gerðist ekki í hin átta skiptin.
Ein af mínum bestu ákvörðunum
Ég er með sér glæru í fyrirlestrinum mínum um hvað raflostið hjálpaði mér mikið og hvaða góðu hlutir í mínu lífi gerðust í kjölfarið.
Ég er ekkert smeykur að segja frá því þó svo að fólk kunni að hafa einhverjar neikvæðar skoðanir á raflækningum.
Þetta er mín upplifun af raflostsmeðferð, af upplifuninni get ég fullvissað að fólk þurfi ekki að vera hrætt að gangast undir hana, meðferðin hefur hjálpað mér að komast upp úr dimmum dölum og ég er alveg undirbúinn því að fara aftur síðar. Geðhvörf eru óútreiknanleg en ég ætla að njóta þess á meðan vel gengur, maður verður alltaf að vona það besta.
Ég studdist við heimild frá:
http://www.landspitali.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=25321
KRK

Comments