top of page

Guðni bróðir

Updated: Aug 20, 2023

Á Menningarnótt hinn 18. ágúst 2007, lést Guðni Rúnar bróðir minn. Ég lofaði honum því að ég myndi minnast hans a.m.k. tvisvar sinnum á ári opinberlega og halda minningu hans á lofti - og það mun ég ávallt gera. Ég hef skrifað margt um hann og okkur í gegnum árin og er ég langt frá því að vera hættur. Ég tel mig ennþá eiga góð 60-70 ár eftir hér á jörð.


16 ár eru liðin síðan Guðni kvaddi alltof snemma, áfall og svartnætti sem ég óska engri manneskju að upplifa. Ég var staddur á Benidorm með vinahópi mínum þegar Svanhildur Sif, ein besta vinkona móður minnar, færði mér sorgarfréttirnar á hóteli. Hún hafði gert sér ferð sérstaklega til þess, frá Torrevieja, að ósk fjölskyldu minnar. Ég þurfti að bíða í u.þ.b. tíu sekúndur eftir að við settumst niður saman, þangað til ég fékk að heyra hvað hefði komið fyrir, því Hilda brast í grát og ég vissi ekkert hvers kyns fréttir hún væri að færa mér. Augljóst var að þær voru alvarlegar.


Ég hafði þó fengið fyrirboða fyrr um daginn, söknuð og minningar um Guðna, en ég hélt að það væri meira þess eðlis að ég hlakkaði svo mikið til að hitta hann nokkrum dögum síðar - eftir þriggja mánaða aðskilnað, en ekki vegna þess að hann hefði látið lífið í flugslysi. Það var mjög svo óraunverulegt og óþægilegt að fá fréttirnar en ég verð alltaf þakklátur að hafa fengið þær svona en ekki símleiðis, verandi þá mögulega einn einhvers staðar. Þetta myndi þó ekki ganga upp í dag, tíminn sem leið … miðað við hraða samfélagsmiðla. Vinkona mín sendi mér samúðarkveðju í formi SMS-skilaboða frá Íslandi, hálftíma eftir að ég fékk að heyra sorgarfréttirnar. Það hefði verið mjög sérstakt að fá þau skilaboð á undan. Þetta stóð mjög tæpt hvað það varðar.


Næstu klukkutímana á eftir var ég alltaf með 2-3 vini mína í kringum mig því ég ráfaði um Benidorm, meðtók skilaboð illa og var náttúrulega ekki að trúa því sem hafði gerst. Það þurfti svolítið að vakta mig. Fólk hafði áhyggjur af mér. Allt varð svart og vonlaust en ég ákvað strax þetta kvöld að finna góða húðflúrstofu og láta setja á bakið á mér: R.I.P. GUÐNI RÚNAR KRISTINSSON 1984-2007† Það var ótrúlegt hvað flúrið kom vel út miðað við tilfinningalega ójafnvægið.


Söknuðurinn er alltaf mjög mikill og lífið verður aldrei eins. R.I.P. g-man.


KRK




 
 
 

Comments


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page