Hefnd á geðdeild
- Kristinn Rúnar
- Aug 8, 2023
- 3 min read
Ég veit ekki alveg af hverju ég hef aldrei sagt frá þessu, kannski var ég að bíða eftir annarri bók, Maníuraunum vol. 2 eða eitthvað álíka, en hún verður líklega ekki að veruleika úr þessu. Ég hlæ alltaf þegar ég hugsa út í þessa hefnd mína. Maníurnar hafa verið vægar, eða alls ekki, síðan Maníuraunir komu út árið 2018. Ánægður með, gott að þroskast, þó maníurnar hafi stundum verið skemmtilegar.
9. kaflinn: Lífið inni á geðdeild á Íslandi, var sá kafli sem fólk átti erfiðast með að lesa. Þeir sem lásu yfir fyrir útgáfu, vinir og fagfólk, hvöttu mig til að vera eins opinskár og ég gæti með lýsingar, það væri mikilvægt skref sem ég væri að taka fyrir sjálfan mig og aðra í svipaðri stöðu. Ég fór um víðan völl í kaflanum, gagnrýndi suma harðlega og hrósaði öðrum í hástert.
Ég gaf geðdeildunum þremur á Hringbraut nokkur eintök við útgáfu í október 2018. Ég heyrði og fékk oft sent að það væri verið að lesa hana og að fólki fyndist bókin áhugaverð. Eftir um hálft ár fór ég síðan að fá skilaboð um að bókin væri hvergi sjáanleg, það væri búið að taka hana úr umferð. Ég vissi af hverju, en fannst það samt full hart að taka hana í burtu. Það væri málfrelsi.
Ástæðan væri annað hvort sú því ég nafngreindi og gagnrýndi tvo starfandi geðlækna eða af því ég deildi í bókinni hvernig væri best að setja allt í uppnám og rugla starfsmenn á deildunum í ríminu á hárréttum tíma, við svokallað „rapport“. Þá er hálftímalangur starfsmannafundur, þar sem rætt er um hvað gerst hafi á vaktinni, og næsta vakt skipulögð. Nánast engir starfsmenn eru þá á gólfinu. Ef atvik áttu sér stað á þessum tíma riðlaðist allt, ég fékk ekkert samviskubit að gera þetta ef ég var ósáttur við gang mála. Það sama átti við þegar mér fannst farið með okkur á deildinni eins og morðingja. Það var dagamunur á hve reglunum var hart fylgt eftir en ef mér þótti á okkur brotið þá átti ég það til að láta í mér heyra og spyrja hátt og snjallt hvort við værum á geðdeild eða í einangrun. Þetta virkaði alltaf og mér tókst að höfða þannig til samvisku starfsmanna.
Ég sagði líka frá því í bókinni hvernig væri best að ná símanum sínum aftur með því að vera klókur og spyrja óreynt eða áhugalaust starfsfólk um eitthvað í skápnum. Og að hrista aðeins ofnana, þá klingdi vel í öllu. Ég held að eitthvað af þessu hafi orðið til þess að bókin var tekin úr umferð, svo skjólstæðingar á deildunum læsu þetta ekki og hermdu eftir. Ég var með meiraprófið á bráðageðdeild 32 C, eins og einn geðlæknirinn orðaði það. Smávegis heiður, en líka smá vont.
Ég var ekki sáttur að heyra þetta árið 2019, að bækurnar mínar væru horfnar og ákvað eins konar hefnd ef ég færi inn á geðdeild aftur. Það gerðist síðan ári seinna og ég var búinn að ákveða að þegar ég fengi leyfi af deildinni eða deildunum, þá myndi ég fara heim til mín og troðfylla bækur í bakpoka, fara með upp á deildirnar og árita hægt og bítandi fyrir alla skjóstæðinga og starfsmenn. Einnig að hafa um 20 óáritað bækur í hillum víðs vegar.
Ég var búinn að fara 3-4 ferðir heim og koma alltaf með bokpoka þegar ég var spurður hvort það væri ekki komið nóg af bókum. Þá voru komnar u.þ.b. 60 bækur víðsvegar um bráðageðdeildina og almenna geðdeild. Mission completed!
KRK

Comments