top of page

Margra ára gallsteinagreining - Tilkynnt um mann í miðbænum að æla á bíla

Loksins er komin niðurstaða varðandi erfið líkamleg veikindi sem ég hef glímt við á köflum frá árinu 2018. Ég hef í 12-15 skipti upplifað u.þ.b. tveggja vikna ælutarnir, þar sem skrokkurinn varð auk þess mjög aumur, kuldaköst fylgdu, beinverkir, 40 stiga hiti, engin matarlyst var og almennt mikil vanlíðan.


Tvisvar sinnum fór ég á bráðamóttökuna, einnig á Læknavaktina en var alltaf bara kýldur niður: „Ertu ekki bara með ælupest?" Hver er með ælupest stanslaust í tvær vikur...

Verst var þetta í Ekvador í haust, einn míns liðs, og stór ástæða þess að ég sneri við heim. Í desember og janúar sl. fóru síðan að fylgja gríðarlegir kviðverkir með æluköstunum.


Loksins núna fékk ég viðeigandi aðstoð þrátt fyrir að daman á bráðamóttökunni í síðustu viku hafi ekki ætlað að hleypa mér inn svo auðveldlega. Hún sagði: „Þú veist að þetta er bráðamóttakan, sko. Þú lítur ekki út fyrir að deyja, er það?" Nei, nei, sagði ég ... ég er eflaust ekki við dauðans dyr en ég er samt sem áður mjög veikur og verkjaður. Því næst benti hún mér á að fara á Læknavaktina. Ég sagðist helst vilja fá snögglega út úr blóðprufu en til vara að fá allavega blóðþrýstingsmælingu. Konan sem tók þá mælingu vissi meira en þessi í móttökunni og þegar ég sagði henni hvar verkurinn væri grunaði hana að þetta tengdist gallblöðrunni. Einnig var ég með tæplega 40 stiga hita og hjartað sló 127 sinnum á mínútu ... líkaminn var bókstaflega að öskra á hjálp.


Mér var kippt beint inn og ég var í átta klukkutíma á bráðamóttökunni í alls kyns blóðprufum, tölvusneiðmyndatöku og röntgen. Út úr því kom að ég var með miklar bólgur í gallblöðru og líklega með gallsteina. Var látinn fasta með mat og vökva því mögulega yrði gallblaðran tekin um kvöldið. Það þótti síðan ekki æskilegt strax vegna þess hve bólgin gallblaðran var - en ég var fluttur af bráðamóttökunni á Fossvogi yfir á Hringbraut. Nánar tiltekið á Kviðarhols- og þvagfæraskurðlækningadeild.

Ómun leiddi síðan í ljós gallsteina og fór ég í litla en mjög svo sársaukafulla skurðaðgerð til þess að drena sýkingu og vökva úr gallblöðrunni - engin svæfing, bara kæruleysislyf.

Ég fékk síðan fljótlega á eftir morfín í læri. Það hljómar reyndar mjög hart að skrifa það! Hjúkrunarfræðingur tjáði mér að hún hefði séð svona framkvæmt á dúkku í sínu námi og það væri ógnvekjandi að gera sisvona á fólki.

Ég þarf síðan að vera með slöngu og leggpoka á mér öllum stundum næstu þrjá mánuðina, eða þangað til gallblaðran verður fjarlægð.


Skurðlæknirinn á deildinni sagði mig mjög veikan, með 272 í sýkingar- og bólgustuðli (CRP). Heilbrigð manneskja er undir tíu á þessum stuðli. Mér var tjáð að ég hafi verið korter í að fá blóðeitrun, öðru nafni sýklasótt. Lífshótandi ástand.

Ofan á þetta greindist ég síðan með salmonellu á þriðja degi og var settur í einangrun. Smitið kom úr dreninu og gæti hafa grasserað í töluverðan tíma hjá mér. Mögulega frá því ég var í Ekvador í haust. Annað og öðruvísi sýni, sem var tekið, var hins vegar neikvætt. Þetta var lítið mál en ég fékk einkaherbergi, sem kom sér vel.


Eins og ég sagði, verður gallblaðran fjarlægð eftir u.þ.b. þrjá mánuði, hún er hætt að sinna skyldu sinni. Það er ekki hægt að fjarlægja hana fyrr vegna bólgu. Þetta á ekki að hafa mikil áhrif fyrir framtíðina, að hafa hana ekki, betri líðan ætti að verða með tíð og tíma og veikindin þrálátu ættu að vera úr sögunni.


Þetta hafa oft á tíðum verið skrautlegir tímar síðustu ár. Þegar mér leið sem verst þá leið mér skást í heitu og köldu. Þegar potturinn hjá mömmu og pabba var orðinn volgur, eftir mikla notkun, þá fór ég í Sundhöllina og var í heitu og köldu í nokkra klukkutíma. Þetta var eins og morfín fyrir mig, tímabundin vellíðan.

Stundum þurfti ég að æla fjarri salerni og í eitt skiptið, í október 2023, barst lögreglunni tilkynnnig um að maður væri að æla á bíla í miðbænum. Hún hafði upp á mér og spurði mig hvað mér gengi til að vera að æla á bíla. Ég sagði: „Guð minn almáttugur. Haldið þið í alvörunni að ég sé að ganga hér um og leika mér að því að æla á bíla? Ég er að díla við veikindi og get lofað ykkur því að ég er ekki að æla á bíla, þó það gæti hafa litið þannig út úr fjarska, að ég hafi verið nálægt einhverjum bílum." Í þann mund sóttu foreldrar mínir mig á Hlemm og ég bað þau að staðfesta við lögreglu að ég væri veikur, og ekki ælandi á bíla. Hún tók þessum útskýringum gildandi og fór hálfglottandi í burtu út úr þessum furðulegu aðstæðum.


Ég er mjög feginn að hafa hlustað á fjölskyldu mína eftir veikindin síðustu, að ég yrði að fara á bráðamóttökuna. Ég sagði þeim alltaf að fólkið þar segði ekkert að mér. Þegar ég fór á bráðamóttökuna 23. janúar var ég mjög óviss framan að degi að fara, því það myndi hvort sem er ekkert koma út úr því.

Mútta fór hins vegar með mér, stóð sig eins og kletturinn sem hún er, og loksins komu svör sem ég var búinn að bíða eftir mjög lengi.


Ég hef svarað sýklameðferð mjög vel síðustu vikuna og held áfram í 2-3 vikur í viðbót. CRP-gildið var komið niður í 58 í gær og ég því hratt á leið til heilbrigðs manns.

Ég útskrifaðist í dag, fer í blóðprufu eftir viku og síðan eftirfylgni á deildinni eftir tvær vikur. Allt í rétta átt!


Smávegis fróðleikur um gallsteina og gallblöðrutöku: „Gallið myndast í lifrinni og safnast saman í gallblöðrunni. Gallið tekur þátt við það að melta fitu úr fæðu. Í gallinu ríkir viðkvæmt jafnvægi milli hinna ýmsu efna og ekki má verða mikil röskun á samsetningu þess til að þar fari að myndast gallsteinar.

Ástæður gallblöðrutöku eru yfirleitt gallsteinar eða bólga í gallblöðru og er gallblaðran þá að mestu hætt að sinna hlutverki sínu. Einstaklingar með þessa sjúkdóma eru betur settir án gallblöðru."


KRK




 
 
 

コメント


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page