Áramótapistill 2024 - Árið sem einfarinn kallaði þetta gott af löngum ferðareisum
- Kristinn Rúnar
- Dec 30, 2024
- 3 min read
2024 var bara nokkuð flott ár og skemmtilegt.
Hinn 15. janúar hélt ég til Mexíkó og var þar fram í júní. Frábær tími en þetta var "El Regreso" eða endurkoman. Èg var þarna líka 2013-2014 og aftur núna í sama geggjaða bænum, sem heitir Guanajuato. Lærði meiri spænsku, fór á fullt af León-fótboltaleikjum og verslaði mér „nokkrar" treyjur í safnið mitt góða og stóra. Kynntist fólki og borðaði tacos, quesadilla og torta í nánast öll mál.
Um miðjan júní hélt ég síðan til Asíu á nýjan leik og var fram í ágúst. Asían stóra Laukliggur og ég mæli mikið með - hef farið til nokkurra landa í suðaustur Asíu og er hvergi nærri hættur.
Ég heimsótti Filippseyjar, Taíland og Malasíu á þessum tveimur mánuðum. Allt mjög helllandi staðir.
Ég kom síðan heim í brúðkaup áratugsins hjá Kalla og Kötu þann 17. ágúst. Þvílík og önnur eins veisla og gleði! Svona á að gera þetta. Ég undirbjó ræðu áður en ég kom heim og hélt hana nánast orðrétta fyrir framan skemmtilegan sal af frábæru fólki; algjörlega ógleymanlegt.
Andlega jafnvægið var mjög gott á árinu eftir erfiða mánuði í lok árs 2023. Ég hef aldrei upplifað neina geðsveiflu erlendis, sem er magnað en ég tek alltaf einhver fimm kíló af lyfjum með mér út í svona langar reisur. Jöfn birtuskilyrði allan ársins hring, eins og er í þessum löndum, er mitt besta meðal og hefur sannað sig mjög vel.
Ég fór til Ekvador í byrjun september og planið var að ferðast um S-Ameríku í nokkra mánuði. Ég pakkaði fyrir átta mánaða reisu.
Það voru nokkrir hlutir sem spiluðu inn í að ég var þar einungis í tvo mánuði. M.a. að mér fannst ég ekki nægilega öruggur, verandi einn í höfuðborg í S-Ameríku ... það var svolítið verið að koma upp að mér og kalla á eftir mér, alls konar fólk í misjöfnu ástandi. Biðjandi mig um pening og maður var hálfvarnarlaus. Ég var kominn með klinkpoka með mér eftir smá tíma þarna til að láta þau skrautlegustu hafa pening til að vera látinn í friði.
Einnig var ég svolítið kominn með nóg af löngum ferðalögum einn míns liðs. Þó að ég hitti auðvitað fólk og kynnist sumum að þá er ég samt mjög mikið einn. Yfirleitt mjög gaman og ég er mikill einfari en þetta var komið gott í bili. Það var takmarkað mikið hægt að „boost-a" einfarann hjá mér meira og hann var kominn í botn eftir nánast samfleyt ferðalög síðustu tveggja ára. Mig langaði orðið að vera meira á Íslandi með fjölskyldu og vinum.
Síðan ætlaði ég ekki að missa af báðum Breiðabliks Íslandsmeistaratitlunum í fótboltanum, þannig að ég kom rétt fyrir sögulega 0-3 sigurleikinn í Víkinni. Sú gleðin og það partý-ið! Allt þess virði að drífa sig heim á þessum tímapunkti og upplifa þetta með öllum Blikavinum mínum og félögum. Ég hefði átt mjög erfitt með það, hefði ég misst af þessari stund.
Ég hafði ferðast 18 af síðustu 22 mánuðum áður en ég kom aftur heim í lok október en núna ætla ég að vera á Íslandi í tíu mánuði á ári og ferðast „bara" í tvo mánuði. Mexíkó og Filippseyjar eru á dagskrá í mars og júlí. Það verður virkilega gaman að skjótast þangað aðeins.
Ég er kominn í hlutastarf aftur í fjölskyldufyrirtækinu okkar, Mathofinu, og planið er að næla sér í háskólagráðu fyrir fertugt. Það væri Blaða- og fréttamennska með ritlist sem aukagrein, ef ég ætti að skrá mig núna, en íslenskan hefur einnig alltaf heillað. Sjáum til, ég ákveð mig 2025.
Gleðilegt nýtt ár, elsku vinir! Megi gæfan fylgja ykkur alla tíð.
- Þess óskar, LA Kröddz.
KRK

Comments