Ráðherrann II - Mitt álit
- Kristinn Rúnar
- Jan 11
- 4 min read
Updated: Jan 14
Ég kláraði að horfa á Ráðherrann II á RÚV í gær. Ég hafði hvorki horft á þátt né bíómynd í u.þ.b. tvö ár en fannst ég verða að horfa á þessa seríu - bæði því ég er með geðhvörf, líkt og aðalpersónan í þáttunum, og því ég hafði horft á fyrri seríuna og skrifað um hana pistil í loks árs 2020.
Ég heyrði í haust að sería tvö hefði farið ansi þungt af stað og það þyrfti eiginlega að hvetja fólk til þess að komast í gegnum fyrstu tvo þættina.
Þunglyndi Benedikts Ríkarðssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, var mjög svart eftir djúsí maníu og höfuðhögg.
Mér fannst persónulega farið fulldjúpt í þunglyndið og þættirnir voru fyrir vikið mjög þungir áhorfs. Þunglyndið var sett fram á frumlegan hátt en kannski þannig að allir skildu það ekki. Mögulegt sjálfsvíg var um tíma yfirvofandi og tók eflaust á marga áhorfendur að horfa.
Þættirnir komust hins vegar á flug upp úr þætti þrjú og mér fannst þá orðið skemmtilegt að horfa. Að horfa á fyrstu þættina var svolítið eins og að gíra sig í 10 km útihlaup, sem manni hlakkaði ekkert sérstaklega til að gera.
Þetta var hins vegar flestallt faglega gert, vel skrifað og leikið.
Benedikt er öðruvísi en allir aðrir, fer sínar eigin leiðir og er alltaf með tromp á hendi gagngvart fólki sem vildi bola honum burt með hinum ýmsum aðferðum. M.a. með því að koma á lögum um að ráðherrar mættu ekki eiga sögu um alvarleg andleg veikindi.
Þegar Benedikt mætti aftur til starfa var hann settur í utanríkisráðuneytið af fólki sem vildi koma honum í vandræði og helst í burtu. Þau vissu að það yrði erfitt fyrir hann að vera í utanríkisráðuneytinu og myndi rugla rútínuna hjá honum. Benedikt hafði að sjálfsögðu tromp á hendi um það hvernig hann gæti leist úr því og gerði það smekklega.
Frá þáttum sex til átta fór Benedikt að fljúga upp. Hann fékk töluvert af gusum yfir sig og hin klassíska lína „ertu að taka lyfin þín?“ var mikið notuð gegn honum. Ömurleg lína að fá á sig en Benedikt brást iðulega vel við því.
Benedikt var utanríkisráðherra í þessari seríu en hafði miklu meiri áhuga á heilbrigðisráðuneytinu og gerði allt til þess að koma inn meiri pening í þann málaflokk, eftir að fjármálaráðherra hafði svikið fjárveitingu í geðheilbrigðiskerfið.
Benedikt var með heilbrigðisráðherrann í vasanum sem vissi ekki hvernig hann ætti að snúa sér gagnvart honum.
Benedikt var mikið að skera niður sendiherrastöður erlendis og sagði vel hægt að halda alla fundi á fjarfundum. Hann lagði til að mynda sendiherrastöðu Indlands á Íslandi niður, sparaði þannig 100 milljónir á ári og setti það í staðinn í geðheilbrigðismál.
Deilan um kvótann við Noreg skaut Benedikt síðan duglega upp, það var sett þannig fram af samstarfsfólki hans innan flokksins, fjármálaráðherra og sendiherra Íslands í Noregi, til þess að láta málið „springa í andlitið á honum“ og verða hans banabiti í stjórnmálum.
Benedikt taldi Rússana vera á eftir sér og að þeir væru komnir inn í íbúð sína til að ræða við sig um deilurnar við Noreg. Það var sett upp þannig að þarna væri hann kominn út fyrir allan raunveruleika, að þetta væru ofskynjanir hjá honum og að hann væri kominn í mikla maníu.
Utanríksráðherra Noregs staðfesti við hann að kafbátar Rússa hefðu sést við Noregsstrendur en líklega var hann að nýta sér ástand Benedikts til þess að fá hann til að undirrita skjöl um að deila helmingshluta kvóta við Noreg.
Benedikt var síðan sprautaður niður hjá Alþingi, færður á geðdeild og nauðungarvistaður eftir að Steinunn, kona hans, sannfærði geðlækni um að hann væri í blússandi maníu. Aðrir í kringum hann sögðu ástandið ekki svo slæmt.
Lögin um skiptingu kvóta við Noreg var hafnað og samþykkt á þingi að fara í stríð við Noreg um kvótann. Sendiherra Íslands í Noregi uppljóstraði síðan í lokin um plottið milli sín og fjármálaráðherra, um að koma Benedikt í sem mestu vandræði með þessu máli. Fjármálaráðherra var síðan vísað úr ríkisstjórn í kjölfarið.
Endirinn var stórskrítinn. Á meðan Benedikt var að jafna sig á geðdeild fór eiginkona hans í framboð til formanns Sjálfstæðisflokksins og Benedikt var ekki skemmt yfir því, hann var ekki ánægður með sína konu.
Samband þeirra var handónýtt, hún stóð í framhjáhaldi með Grími, samstarfsmanni Benedikts, og Eva barnið þeirra var mikið ágreiningsefni sem endaði með lögreglumáli.
Lokaatriðið var síðan af fyrsta skóladegi Evu, dóttur þeirra, fimm árum síðar.
Allt virtist í blóma hjá fjölskyldunni en ekkert kom fram um það hvort Steinunn hefði orðið formaður Sjálfstæðisflokksins eða hvernig hefði gengið hjá Benedikt á þessum fimm árum sem liðu.
Ég býst við því að það verði ekki framhald af Ráðherranum nema að það verði eitthvað spólað til baka og þetta fléttað saman.
Steinunn, kona Benedikts, var að mínu mati mest pirrandi „stóri karakterinn“ í þessari seríu og maður óskaði þess oft að hann ætti sér betri konu. Benedikt var hættur að taka mark á henni og „sá hana ekki“ þegar hann flaug upp.
Í raun og veru það eina sem ég get sett út á, og hefði mátt gera betur, voru lítil en samt svo stór atriði eins og að nota geðhvörf í stað geðhvarfasýki og að sleppa því að nota orð eins og „maníukast“ yfir uppsveiflu.
Ólafur Darri átti sem fyrr stórleik, það var ekki hægt að finna betri leikara í þetta verkefni. Aðrir leikarar stóðu sig einnig fantavel. Þættirnir hjálpa fólki að skilja geðhvörf betur, sem mikil þörf er fyrir.
Ég gaf fyrri seríunni 4,3/5 stjörnur en þessi fær 3,6/5 og því samanlagt 7,9/10.
KRK

Comments