top of page

Hress í augum Íslendinga - Alvarlegur í augum Mexíkóa

Updated: Oct 11, 2018


Ég ætla að rifja upp Mexíkódvöl mína, af því ég hef aldrei tekið þá ferð saman og líka til að gefa fólki betri innsýn hvernig það er að vera öðruvísi einstaklingur í framandi landi að gera eitthvað nýtt og spennandi.


Ég bjó þar í hálft ár, frá hausti 2013 og fram á fyrstu mánuði 2014. Það gerðist frekar skjótt í júlímánuði 2013 að ég ákvað að fara út en það tók smá tíma fyrir foreldra mína að taka það í sátt. Ég fékk gamlan samstarfsfélaga minn til að koma á fund með þeim og ræða við þau, en hann hafði búið í bænum sem ég flutti svo til. Það róaði þau töluvert.


Ég fór mjög þreyttur út í byrjun september og við tók langt og strangt ferðalag, níu dögum áður hafði ég farið í hálskirtlatöku og var því ekki í mínu besta ástandi. Ég millilenti í New York og var þar í einn dag. Daginn eftir var ég staddur á JFK flugvellinum á leið til Mexico City þegar ég var spurður hversu lengi ég ætlaði að vera í landinu. Ég sagði án þess að hugsa „few months“, sem er ekki gott svar. Konan í afgreiðslunni sagði við mig að hún gæti ekki hleypt mér þangað ef ég ætlaði að vera í óákveðinn tíma. Ég hafði sem betur fer keypt miða frá New York til Íslands en það sýndi að ég átti flug þremur mánuðum síðar heim þó ég ætlaði ekki að nota miðann, þannig að þau sáu að ég ætlaði ekki að vera þarna í „few months“. Þungu fargi af manni létt, vægast sagt.


Ég kom svo til Guanajuato síðar um kvöldið, örþreyttur. Þetta er mjög flottur, 160.000 manna bær. Ég kíkti í tungumálaskólann sem ég hafði skráð mig í og mér voru sýndir helstu staðir bæjarins. Ég man mjög takmarkað eftir því sökum þreytu, fór síðan í íbúðina sem mér var úthlutað og reyndi að sofa en gat það ómögulega sökum kirkjuklukkna og hundagelts. Ég lá uppi í rúmi, lítill í mér og hugsaði með mér hvað í ósköpunum ég væri búinn að koma mér út í. Ipod-inn bjargaði ýmsu og ég náði tíu tíma svefni og allt varð miklu betra. Ég hafði nefnilega ekki sofið nema samtals sjö klukkutíma seinustu þrjá sólarhringa á undan. Við tóku súrrealískir dagar, algjörlega magnað að vera þarna og maður reyndi að koma undir sig fótunum. Að vera ljóshærður og með blá augu í Mexíkó var eitthvað sem margir þarna úti höfðu aldrei á ævinni séð og þegar maður fór í strætó fór ég alltaf aftast því það var yfirleitt farið í störukeppni við mann.


Ég lærði spænsku í þrjá klukkutíma á dag, fimm daga vikunnar í skóla sem heitir Escuela Falcon. Flottur, einkarekinn skóli og ég fann mig vel. Það var eins gott að vera fljótur að ná spænskunni því rétt rúm 10% Mexíkóa tala ensku en það var langt því frá að ná því þar sem ég var, kannski 2% sem kunnu eitthvað. Ég gafst upp á skólanum eftir sjö vikur því ég áttaði mig á því að það var miklu betri og ódýrari leið að læra spænku með því að taka leigubíla og tala á fullu við leigubílstjórana - 15 mínútna akstur kostaði ekki nema 300 krónur íslenskar. Á rúmum tveimur mánuðum var ég orðinn nokkuð fær í spænskunni, allavega miðað við að þegar ég fór út kunni ég um 20 orð, en það er að mestu leyti farið núna þremur árum síðar. Þetta liggur ennþá hjá mér einhvers staðar, ég þarf bara að sækja það.


Tungumálaörðugleikar og misskilningur eru alltaf skemmtilegir og ég lenti í þeim nokkrum. Einn kennarinn og félagi minn á sama tíma, sagði alltaf orðið „sali“ til að segja „okei.Þannig að ég fór að nota þetta orð frekar mikið og fannst það töff. Ég fór síðan út á lífið eitt laugardagskvöldið einn míns liðs og mér var boðið af vinahópi sem ég þekkti ekki neitt að vera með þeim, ég þáði það. Ein stelpa fór að spjalla við mig og segja mér hluti og alltaf sagði ég „sali“ til þess að segja „okei.Hún hló svona létt þegar ég sagði þetta í fyrstu tvö skiptin en var á sama tíma svolítið hneyksluð á mér. Síðan þegar ég sagði þetta í þriðja skiptið við hana þá spurði hún mig af hverju ég segði þetta orð alltaf. Hún útskýrði fyrir mér að orðið „sali“ geti þýtt „okei“ en oftar þýði það „what ever“ eða á góðri íslensku „skítt með það!Það var því ekki beint góð leið hjá mér til þess að kynnast fólki og vingast við það að nota þetta orð þannig að ég snarhætti því og skammaði félaga minn fyrir að vera ekki skýrari með þetta og fyrir að koma mér í þessi vandræði.

Annar misskilningur var að þessi sami félagi og kennari minn vildi fá mig með sér einhvert. Þetta var þegar ég var tiltölulega nýkominn út og enskan hans var í kringum 60%. Hann vantaði lykilorðið hvert við værum að fara þannig að ég sagði við hann þegar hann var að vandræðast með þetta að ég kæmi bara með honum. Orðið sem hann vantaði var „wedding.Við vorum semsagt á leiðinni í brúðkaup hjá vinafólki hans og ég klæddur í fjólubláa Real Madrid treyju og stuttbuxur. Eins og það hafi ekki verið nóg að vera eini hvíti maðurinn á svæðinu! Mjög kjánalegt en mikil upplifun í leiðinni.


Maturinn þarna var snilld. Taco, quesadilla og torta í flest mál og ég viðurkenni að eftir þessa sex mánuði kom ég tíu kílóum þyngri heim. Ég spáði ekki of mikið í það, ég var að lifa lífinu. Maður fékk fullbúna máltíð með þessum þremur réttum á í kringum 200 krónur. Ég var að sjálfsögðu helsáttur í hvert skipti.

Það var algjörlega magnað hvað fólkið þarna gat borðað sterkan mat, það sem mér fannst sterkt var 1 á skalanum 1-10 hjá þeim. Í eitt skiptið fór ég út að borða með krökkum sem ég hafði kynnst og þau helltu öllum rótsterku sósunum yfir matinn sinn og drukku ekki dropa með því. Ég fékk mér smávegis af sósunum út á, kófsvitnaði og drakk líter af vökva með. Hálf vandræðalegt að reyna að standa undir því að vera kallaður „El Enchiladoþarna úti sem er á íslensku „Sá Kryddaði.“ Kryddi er gælunafn sem ég er oft kallaður hér heima þannig að það var kannski ekki mjög sniðugt að vera að segja þeim það því ég leit mjög illa út að reyna við þessar sósur sem eru fyrir þeim í styrkleika eins og tómatsósa fyrir mig.


Einhverjir vina minna höfðu áhyggjur að ég væri að flytja til Mexíkó og einn sagði við mig „vertu með byssu á þér hvert sem þú ferð!“ Ég upplifði ekki eina einustu hættu í bænum sem ég bjó í og ég held að sú hætta í Mexíkó tengist mest fíkniefnaheiminum eins og víðar. Reyndar upplifði ég mig ekkert alltof öruggan þegar ég var einn í Mexico City á nóttinni, þar búa rúmlega 20 milljónir manna og er borgin ein sú stærsta í heiminum. Ég fór þangað tvisvar sinnum og skynsemin sagði mér það strax að vera ekki að þvælast þarna einn á nóttinni svona öðruvísi útlítandi en allir. Í Guanajuato þar sem ég bjó leið mér nánast bara eins og í Kópavoginum, virkilega þægilegt allt saman.

Veðrið var mjög hentugt meðan ég var þarna, um 25 gráður á daginn en það fór suma daga niður í þrjár gráður á nóttinni. Það eru engir ofnar í húsunum þannig að það gat orðið vel kalt en snögghitnaði svo þegar leið á morguninn. Mig langar að heimsækja landið aftur en ég þarf að passa mig að fara á svipuðum tíma. Sumrin eru ansi heit en maí er heitasti mánuðurinn, þar fer hitinn auðveldlega í 40 gráður yfir daginn. Maður er langt í frá frá gerður fyrir svoleiðis veður.


Ég fékk nokkrum sinnum að heyra það að ég væri svo alvarlegur þó að mér hafi fundist ég bara ljómandi ferskur. Einn orðaforðakennari í skólanum spurði mig í fyrsta tímanum okkar hvort allir á Íslandi væru svona alvarlegir eins og ég. Þá varð ég eiginlega bara pirraður því hún var ekki beint sú hressasta sjálf og ég talinn vera ágætis húmoristi heima fyrir og langt því frá alvarlegur. Þá fór ég að spá í það hvort maður passaði þarna inn í þeirra heim en ég fékk þau svör frá fólki sem ég hafði kynnst betur að kannski leit ég út fyrir að vera alvarlegur því ég skyldi ekki allt sem var talað um og væri oft hugsi.


Það er skemmtilegt að breyta til og búa annars staðar en þegar maður hefur prufað að búa svona langt í burtu og séð hvað margir litlir hlutir geta verið stór vandræði þá sér maður að Ísland er alltaf best. Að fara t.d. aldrei í þægilega sturtu (alltaf svellkalda) því heitt vatn var takmarkað og fá ekki hluti sem manni finnst sjálfsagðir hér heima er eitthvað sem ég fékk að kynnast og var gott og þroskandi að upplifa. Eins og að reyna að fá sæmilegt internet, það kom mjög seint og illa og ég þurfti að bíða lengi eftir öllu, sama hvað það var. Ég er nægjusamari fyrir vikið, þolinmóðari og met landið mitt betur. Grasið er sjaldan grænna hinum megin við ána en ég hvet samt alla sem vettlingi geta valdið að fara svona út, maður verður gríðarlega sjálfstæður á því og sér nýja heima.


Ég læt fylgja með útvarpsviðtal sem var tekið við mig á meðan ég bjó úti:

http://www.visir.is/k/clp23634


KRK




bottom of page