Kjálkaskurðaðgerð og tannréttingaferli sem sat á hakanum í tvo áratugi
- Kristinn Rúnar
- May 21, 2020
- 8 min read
Updated: Dec 22, 2024
Í gær, 20 maí, fór ég í mína stærstu aðgerð á ævinni – kjálkaskurðaðgerð. Þá var brotið fullkomlega heilbrigt kjálkabein til þess að færa kjálkann fram í rétta bitafstöðu. Neðra kjálkabeinið var sagað í sundur báðum megin, beininu síðan snúið og það fært fram þannig að bitið væri rétt. Að lokum var kjálkabeinið fest kyrfilega saman í rétta stöðu. Þetta var gert til þess að laga sentímeters djúpa yfirbitið sem ég hef haft frá unga aldri. Aðgerðin tók 2 klukkustundir og 8 mínútur. Það er ekki vitað með vissu hvort að þetta djúpa bit sé fæðingargalli eða hafi orsakast vegna þess að ég var með snuð til sex ára aldurs! Mamma hefur átt svolítið erfitt með að ég sé í þessu krefjandi ferli, vitandi að það séu líkur á því að þetta skrifist á snuðnotkunina löngu.
Ég hef auðvitað vitað af þessu djúpa biti mínu ansi lengi. Það er nokkuð algengt að vera með u.þ.b. 2 mm yfirbit en 70% fólks eru með yfirbit af einhverju tagi. Hins vegar eru 8% með 6 mm eða meira. Ég fór alla leið með þetta og splæsti í 10 mm dýpt (1 cm), og var því sennilega í hópi 1% eða undir því, sem hafa/höfðu svo djúpt bit. Ég þekki vel að vera í þeirri prósentu, en þeir sem eru með geðhvörf eru einnig um 1% jarðarbúa. Yfirbit er þegar neðri kjálkinn er of stuttur miðað við þann efri, þ.e. efri góms framtennur eru fyrir framan neðri góms framtennur. Útlit fólks með yfirbit er þannig að það er oft með inndregna höku. Undirbit er þá þegar þessu er öfugt háttað, oft kallað skúffubit, en það er miklu sjaldgæfara. Síðan eru til opið bit, þar sem tennur efri og neðri góms snertast ekki þegar bitið er saman, og krossbit þar sem oftast er um að ræða misræmi í stærð efri- og neðri tannboga, þannig að efri tannboginn er of þröngur.
Tannfræðingurinn minn, Guðrún Stefánsdóttir hjá Krýnu, hefur hvatt mig til þess að láta skoða þetta og laga á hverju einasta ári síðan ég var tólf ára gamall. Hún átti mörg samtöl við mig um alvarleika málsins á unglingsárunum en ég var alltaf mjög mótfallinn þessu, því það var vitað að ég þyrfti spangir og ég gat bara ekki hugsað mér það, sérstaklega ekki á viðkvæmum unglingsaldrinum – ofan á mjög svart þunglyndi sem ég var að byrja að upplifa, þá var þetta bara ekki inni í myndinni, þó svo að það truflaði mig nokkuð mikið að vita af þessu stóra vandamáli.
Ég ákvað að kýla á þetta í janúar 2019, mér fannst ég þá loksins tilbúinn til þess að taka slaginn, og pantaði tíma hjá Árna Þórðarsyni tannréttingasérfræðingi. Hann nefndi mjög fljótlega við mig að kjálkaskurðaðgerð væri fljótlegasta og besta leiðin fyrir mitt tilfelli. Einnig tjáði hann mér að hann myndi sækja um að fá meðferðina niðurgreidda hjá Sjúkratryggingum Íslands, því um alvarlegt atvik væri að ræða. Árni sagði mér að það væri möguleiki að þetta gengi eftir en lét mig jafnframt vita að það væri eins og að vinna í lottó-inu að fá svona 2,5 milljón króna pakka, 95% greiddan af SÍ. Ég gerði mér því ekki miklar væntingar um að fá þetta samþykkt en fékk síðan tölvupóst í júní ´19 frá SÍ með jákvæðu svari, sem var virkilega ánægjulegt og einfaldaði allt mjög mikið fyrir mig. Mér var tjáð að ég hafi verið með það djúpt bit að þó ég hefði verið með spangir til æviloka þá myndi það ekki duga til þess að laga bitið. Ég fagnaði þessu fyrirkomulagi með aðgerðina mikið þó svo að stór og nokkuð kvalafull aðgerð biði mín.
Ég taldi að ég væri að sleppa við að fá spangir, sem ég hef alltaf forðast eins og heitan eldinn. Árni hringdi síðan í mig í lok júní í fyrra og sagði að ég ætti að koma í undirbúning fyrir spangir í vikunni á eftir. Hann er húmoristi og skemmtilegur karl þannig að ég beið skelkaður í símanum í 15-20 sekúndur og vonaði innilega að hann væri að grínast. Ég sagði honum að ég héldi að ég myndi sleppa við þær fyrst ég færi í aðgerðina. Árni tjáði mér þá að við hefðum misskilið hvorn annan og spangir væru nauðsynlegar fyrir og eftir aðgerð – að aðgerðin ein og sér væri ekki nóg og þær yrðu notaðar til undirbúnings til þess að auðvelda aðgerðina og einnig til þess að klára tannréttingaferlið. Þetta var heilmikið högg og næstu vikuna Googlaði ég í margar klukkustundir hvort það væri ekki hægt að fá ósýnilegar spangir (Invisalign), en þær eru hins vegar eingöngu notaðar til þess að þétta tennur en ekki við bitskekkju. Martröð mín beið því, og ég var búinn að sjá fyrir mér að ég myndi mjög takmarkað vera á meðal fólks næstu 18 mánuðina. Ég fékk glærar spangir í efri, að minni ósk, en þurfti stàlin stinn, eins og það er kallað, í neðri. Eftir svona mánuð fór þetta að venjast ágætlega og miklu betur en ég átti von á. Ég hef lítið hikað við að hitta fólk eða fara á djammið – þó svo að þetta hafi alveg haft áhrif á sjálfstraustið manns. Engin hefur ennþá endað á fjórum í þessu ferli, og á ég ekki von á breytingum í þeim efnum. Það horfir vonandi til betri vegar með það fljótlega, með nýja bitinu og auknu sjálfstrausti!
Til þess að aðgerðin yrði framkvæmd þá var ljóst að ég þyrfti að létta mig töluvert, mér var sagt það fljótlega, en nákvæm kílóa tala lá ekki strax fyrir. Þetta var út af svæfingunni, aðgerð sem þessi er allavega ekki framkvæmd á venjulegri stofu ef fólk er yfir ákveðnum þyngdum. Kjálkaskurðlæknirinn minn, Guðmundur Ásgeir Björnsson hjá Lífsteini, lét mig síðan vita í nóvember sl. að ég mætti í mesta lagi vera 120,3 kg í aðgerðinni, en ég var þá 140 kg. Þetta voru skilaboð frá svæfingalækninum í teyminu hans. Guðmundur tjáði mér að ég þyrfti að vera 35 eða undir á BMI-stuðlinum. 35 BMI fyrir mig, sem er 185,5 cm, er nákvæmlega 120,3 kg. Ég var hreinskilinn við Guðmund og sagði honum að mér fyndist algjörlega galið að fara eftir BMI-stuðli nú til dags, að þessi stuðull sýndi eingöngu hæð og þyngd viðkomandi en ekki vöðvamassa – að ég gæti lofað honum að þrátt fyrir að ég væri þetta þungur (140 kg þá), væri ég í betra líkamlega formi en margir 120 kg menn. Það hefði alltaf verið frekar þungt í mér pundið og að fólk héldi iðulega að ég væri 15-20 kg léttari en ég raunverulega væri. Við ræddum þetta fram og til baka og hann sagðist ekki geta breytt neinu sem kæmi frá svæfingalækninum. Ég sagði honum, fyrst að þetta yrði svona, þá ætlaði ég jafnframt að gefa honum loforð fyrir því að ég yrði undir 120 kg í aðgerðinni þann 20. maí. Guðmundur sagði að hann hefði trú á mér að ég gæti náð þessu, en ef þetta gengi ekki eftir, þá væri næsti lausi aðgerðartími ekki fyrr en í október. Ég var ekki að fara að láta það gerast, að fresta öllu ferlinu um fimm mánuði út af nokkrum kíló-um.
Það er, og hefur, verið mjög erfitt að halda sér í formi þegar maður upplifir stórar geðsveiflur nokkuð reglulega, og það hefur alltaf tekið mig 2-3 ár að komast aftur í gott form eftir maníur. Þetta var mjög flott áskorun að fá þó ég hafi mótmælt þessu BMI-fyrirkomulagi. Ég þurfti á henni að halda. Ég náði 120,3 kg markmiðinu 25. apríl og vó 118,5 kg að morgni aðgerðardags – og verð sennilega 105 kg eftir sex vikur, þar sem ég mun lítið getað borðað á næstunni, og kominn þá í mjög fínt stand. Eitthvað sem ég hef beðið spenntur eftir í nokkur ár. Fyrir aðgerðina þurfti ég einnig að láta rífa úr mér fjóra endajaxla en Guðmundur sagði þá alveg sérstaklega fasta í mér, og að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að tennurnar í mér myndu hrynja úr mér á gamalsaldri. Hann sagði við mig: ,,Þetta er langt frá því að vera eðlilegt,“ þegar hann var að reyna að ná einum þeirra úr mér. Eitthvað sem er kannski ekki alveg draumurinn að heyra akkúrat þegar maður vill að þessu sé lokið af! Einnig tjáði hann mér eftir að hafa séð myndir af neðra kjálkabeininu mínu, að það væri mjög sterkt og þétt, sem væru mjög jákvæðar fréttir fyrir aðgerðina.
Það voru ágætlega miklar hindranir sem ég stóð frammi fyrir þegar líkamsræktarstöðvar lokuðu tímabundið í marsmánuði vegna COVID-19. Ég átti þá eftir að tálga af mér fjögur kíló en það hafði gengið mjög vel í ræktinni mánuðina á undan. Ég fór því út að ganga nánast á hverjum degi, sem er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér, tók reyndar spretti inn á milli, og gerði einnig heimaæfingar. Troðfyllti ísskápinn minn af Hámarki og Hleðslu, hélt mér við efnið og kláraði þetta vel, sem var mjög ánægjulegt í ljósi aðstæðna.
Í lok árs verð ég laus við spangirnar og ferlinu þar með lokið, sem ég hlakka gríðarlega mikið til; það verður nokkuð stór persónulegur sigur fyrir mig, miðað við hvað ég frestaði þessu lengi og var hræddur við þetta. Að vera með spangir er verkefni; töluvert mikið vesen og einnig óþægindi, sem felur t.d. í sér að spangirnar valda stundum sárum í kringum varir og í kinnum. Maður þarf að nota tannstöngul eftir hverja máltíð og plokka matarleifar úr tönnunum. Nauðsynlegt er að bursta sig þrisvar sinnum á dag og eftir eina af þeim burstunum að nota tannþráð og þræða í gegnum hverja einustu tönn. Það ,,session“ tekur samtals, ásamt burstun, 12-14 mínútur og er alltaf sama þrotið, svo ég segi það bara alveg eins og er; það er mikil handavinna að halda tönnunum í lagi, verandi í tannréttingum. Síðan er ekkert voðalega notalegt að láta strekkja á spöngunum, sem veldur þrýstingi á tönnunum í 4-5 daga á eftir, en það er gert mjög reglulega.
Næstu sex vikurnar munu fara í að borða/drekka nær eingöngu súpur, Hámark/Hleðslu og vera á maukfæði ... og drekka mikið vatn auðvitað. Láta kjálkabeinið gróa, bólgurnar hjaðna, ná að tyggja aftur og ná að tala eðlilega. Einhver útlitsbreyting verður á mér. Ég var, og er, eiginlega meira stressaður fyrir því heldur en ég var fyrir aðgerðinni sjálfri og bataferlinu. Varanleg útlitsbreyting er smávegis ógnvekjandi, en vonandi mun þetta koma ljómandi vel út. Það verður algjör draumur að finna fyrir réttu biti loksins, en verður líka mjög skrítið því ég þekki ekkert annað en gamla djúpa bitið. Það hefur haft mikil áhrif á mig í gegnum árin. Oft á tíðum hausverkur og ég gnísti tönnum í svefni – t.d. fyrir nokkrum vikum þá braut í aftan af framtönn því ég gnísti svo fast. Síðan hafði bitið orsakað það að ég nuddaði og eyddi framtönnunum.
Þessar vikur í bataferlinu verða held ég lítið mál. Fyrstu 10 dagarnir verða samt eins erfiðir og þeir nánast geta orðið eftir aðgerð. Sterk verkjalyf, miklar bólgur í andlitinu, mikill dofi í hökunni og vörinni og auðvitað mjög viðkvæmur í kjálkanum, enda nýbúið að brjóta hann. Að drekka, bursta sig og taka inn lyf er líka mjög flókið. Kjálkabeinið var fest saman með títanskrúfum og í kjölfarið voru settar fjórar stórar teygjur til stuðnings, sem gerir það að verkum að ég get opnað munninn það lítið að ég næ rétt svo að troða einni töflu upp í mig í einu. Þetta verður svona í fjórar vikur, þangað til teygjurnar verða teknar. Ástæðan fyrir því að ég segi að þetta verði ekki mikið mál er vegna þess að ég undirbjó mig mjög vel andlega og líkamlega fyrir þetta, vissi nákvæmlega hvernig aðgerðin yrði og hverju ég ætti von á í bataferlinu. Spurði fagfólkið margra spurninga og heyrði reynslusögur frá fólki. Það hjálpar mér líka að mér muni ekki leiðast á næstu vikum, því ég er einfari að miklu leyti, sem kemur sér vel núna, þó ég hafi eins og alltaf gott stuðningsnet í kringum mig. Ég er mjög þakklátur fyrir það.
Ég mun nýta tímann vel til þess að fara yfir ensku útgáfuna af Maníuraunum, með þýðandanum mínum, og einnig mun ég ritstýra bókum frá LEÓ Bókaútgáfu.
Ég sé ykkur vonandi sem flest ... laukfersk síðar í sumar!
KRK

Comments