top of page

Lyf geta virkað en í fleiri tilfellum slökkva þau á lífsvilja fólks

Updated: Oct 11, 2018


Það eru langflestir að eiga við eitthvað andlegt, ef ekki þau sjálf þá einhver nákominn. Allt frá kvíða upp í geðhvörf eða geðklofa. Margir þurfa að leggjast inn á geðdeild og er það ekkert til að skammast sín fyrir þó margir geri það. Ég hef ekki fengið nein neikvæð viðbrögð frá því að ég fór að tala opinskátt um það að ég hef þurft að leggjast

þangað inn þrisvar sinnum - 2009, 2014 og 2015. Dvölin var nauðsynleg að vissu leyti, til að ná manni niður, en það er margt sem situr ennþá í mér. Ber þar hæst að nefna það að vera sprautaður niður gegn vilja mínum sem er bara hreint og beint ofbeldi, það gerðist 2009 og 2015 en ég þurfti að hafa mig allan við árið 2014 að það yrði ekki gert. Léleg læknisþjónusta þar sem bókakláru læknarnir kunna fátt annað en að dæla lyfjum í fólk er mjög áberandi. Hrikalegt að vera svona bókaklár en kunna síðan ekki mannleg samskipti. Ég er allavega feginn að það sé öfugt háttað hjá mér.


Ég sendi Halldóru Jónsdóttur yfirlækni á bráðageðdeild 32 C á Landspítalanum við Hringbraut ágætlega harðort bréf þann 5. mars. Þar sem ég hef ekki fengið svar frá henni þá hef ég ákveðið að opinbera bréfið og vona ég að það fari sem víðast. Ágætt fyrir hana að sjá þetta opinberlega fyrst hún sá ekki sóma sinn í því að svara mér. Það eru ekki margir sem hafa þorað að hrista uppi í kerfinu, það hentar þessu liði ekki sem er að vinna þarna að fá einhvern á móti sér. Þetta kerfi er frekar mikið þannig sett upp að maður eigi að grjóthalda kjafti og fara eftir öllu sem manni er sagt að gera.

Bréfið er hér fyrir neðan.


Fyrirsögn: Nokkrar pælingar


Sæl Halldóra, Kristinn Rúnar hér sem hefur verið hjá þér á deild 32 C síðustu tvö sumur.


Mig langar að þakka þér kærlega fyrir að koma raflostsmeðferðinni í kring í nóvember/desember og einnig langar mig að ræða nokkra hluti við þig því 90% af tímanum sem við höfum talað saman hef ég ekki verið í mínu besta standi.

Þú ert yfirlæknir á bráðageðdeild 32 C þannig að mér finnst fullkomlega eðlilegt að senda þér tölvupóst um mínar pælingar.


Núna er stutt í vorið og meiri birta en mánuðina á undan, við vitum bæði hvað þetta getur þýtt - vonandi helst ég stabíll. Mér finnst ég meira lifandi núna heldur en í desember til dæmis sem var skelfilegur. Ég hef bara farið í þrjár maníur en 20-25 djúpar niðursveiflur. Mér finnst þessi deild sem þú ert yfir bara ekki góð. Tólf maníuveikir menn steyptir saman á sama blettinn. Síðan er þessi lyfjagjöf ekki í lagi, af hverju eru allir geðlæknar svona miklir lyfjalæknar? Lyf geta virkað en í fleiri tilfellum slökkva þau á lífsvilja fólks, er það - það sem þú vilt? Munurinn á mér t.d. síðan ég greindist 2009 er að ástríða mín fyrir íþróttum er miklu minni en hún var. Í guðanna bænum hendið Seroquel ruslinu út og farið að vinna meira í fólkinu.


Ég var að lesa viðtal við þig varðandi grein þar sem móðir varð dóttir sinni að bana og næstum syni. Þú segir: „Okkur tekst þó að halda einkennum mjög vel niðri með lyfjameðferðum og öðrum meðferðum.Fyrir mér er það mjög sorglegt hvernig þú setur lyfjameðferð í 1. sæti og hitt bara eitthvað sem fylgir með. Áður en þú hættir að vinna (eftir 20-25 ár býst ég við) þá verður þessu öðruvísi háttað og ef ég væri þú þá myndi ég fara að spá í þetta og uppfæra mig að nútímanum. Lyfjameðferð er ein ofmetnasta meðferð sögunnar.


Ég hef skrifað nokkuð víða að undanförnu og er að fara í grunnskóla núna í hverri viku að fræða krakkana um geðhvörf. Af 150 krökkum sem ég hef talað við hafa níu af þeim vitað um hvað geðhvörf eru og tveir þeirra hvað manía er. Fullorðna fólkið er ekkert mikið skárra.

Hvernig væri að að hætta eingöngu, já eingöngu þessari lyfjameðferðaþvælu, stíga fram og tala um geðsjúkdóma og fræða fólk betur? Fólkið okkar í landinu veit lítið sem ekkert um geðsjúkdóma nema þau séu sjálf með einhvern sjúkdóm eða náinn ástvinur. Ég brýni mikið fyrir krökkunum og kennurunum hvað lyf séu oft á tíðum mikill viðbjóður. Ég er mjög stórhuga, sama hvort ég sé í maníu eða ekki og þessir mánuðir á 32 C sitja mjög fast í mér - ég mun gera allt til að þess breyta þessari þróun sem er í gangi þar inni.


Takk fyrir að lesa. Bkv, Kristinn Rúnar.




bottom of page