Eru geðsjúkdómar galli í genum fólks eða frávik frá norminu?

Updated: Oct 11, 2018

Ég hef mikið velt því fyrir mér í gegnum tíðina af hverju fólk er með geðsjúkdóma. Hvað það er sem valdi þeim og einnig hvort það sé rétt að flokka suma þeirra sem sjúkdóma. Er þetta galli í genum fólks eða einfaldlega frávik frá norminu? Það er eitthvað sem hefur aldrei fengist afgerandi svör við. Hversu mikið eru erfðir, hversu mikið spila umhverfisþættir inn í og af hverju þetta stafar?


Verkefnið mitt sem ég byrjaði með fyrir rúmu ári síðan heitir Vitundarvakning um geðsjúkdóma. Mér finnst það nokkuð sterkt og gott nafn en ég hef einnig leitt hugann að því hvort það sé endilega gott að vera að tala um þetta sem sjúkdóma. Ef nefndir eru sjúkdómar þá hugsar fólk strax að eitthvað mikið sé að og lítur jafnvel á það sem dauðadóm fyrir einsktaklinga sem eru með þá. Fyrir mitt leyti eru geðhvörfin sem ég er með bara hluti af mér, svona er ég gerður og er fullkomlega sáttur með það. Ég samþykki það ekkert endilega að ég sé með geðsjúkdóm. Þegar ég er í þunglyndi eða maníu er ég á ákveðnu tímabili eða í ákveðnu ástandi, 85% tímans lifi ég eðlilegu lífi - hvernig svo sem það nú er. Að tala um sig sem veikan á geði eða með erfðagalla er aldrei upplífgandi og ekki hollt, ég fer því aðrar leiðir hvort sem fólk er sammála mér með það eða ekki.


Frávik frá norminu hljómar vel, það eru u.þ.b. 50 milljónir 18 ára og eldri í heiminum með geðhvörf - þó á misjöfnum stigum. Þau eru flokkuð sem geðhvörf I og geðhvörf II ásamt nokkrum öðrum undirflokkum. Geðhvörf I eru ýktari sveiflur, ég er líklega í hópi fólks með hvað ýktustu geðsveiflurnar - þær hafa kennt mér rosalega margt og gert mér kleift að upplifa hluti sem fáir hafa upplifað. Það er engu að síður ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd með geðhvörfin að margir hafa framið sjálfsvíg eða þurft að kveljast sökum þeirra. Í hina áttina er fullt af fólki sem lifir mjög góðu lífi, hafa áorkað miklu og náð að nýta sér orkuna og sköpunarkraftinn til góðs. Þeir sem glíma við andlegar áskoranir þurfa yfirleitt að taka meiri ábyrgð á sínu lífi heldur en aðrir. Huga þarf vel að reglusemi, góðum svefni og heilbrigðu líferni.


Ef fólk nær góðu jafnvægi í lífinu eru þeim allir vegir færir, flestir þeirra sem eru greindir með geðhvörf eða geðklofa eru yfir meðalgreind. Fjölmargir af mestu snillingum samtímans hafa verið tæpir á geðief svo má segja. Ein af mínum uppáhalds tilvitnunum er eftir gríska heimspekinginn Aristóteles, hann sagði: There is no great genius without a mixture of madness.Að þessu sögðu er ég engan veginn að gefa það í skyn að ég sé einhver snillingur, ég ætla samt að leyfa mér að hafa trú á því að ég geti gert góða hluti á einhverju sviði þegar ég hef náð mínu besta jafnvægi, líklega eftir tvö til fjögur ár - þegar ég hef náð meiri þroska og lært betur inn á geðhvörfin og þar af leiðandi sjálfan mig.


KRK