top of page

Miklu betra að vera sveiflukenndur en flatur og leiðinlegur

,,Það er miklu betra að vera sveiflukenndur, heldur en að vera alltaf flatur og leiðinlegur." Ég veit ekki hvort að ég eigi þessa setningu skuldlaust en ég segi þetta alltaf ef ég er spurður að því hvort sveiflurnar sem ég hef upplifað undanfarin 20 ár séu ekki erfiðar. Þær eru það vissulega, en langoftast er ég í góðu jafnvægi, frekar hress og ánægður með lífið og tilveruna.


Ég fór í snarpa maníu í sumar eins og ég var búinn að skrifa um, dvaldi í tvær vikur á geðdeild og til þess að flýta fyrir heimkomu þá samþykkti ég þrjár sprautur og fékk að velja sjálfur styrkleikann. Ég bað um 40% styrk, mér fannst það passlegt. Í sprautunum var Cisordinol sem er sefandi og róandi lyf. Einnig var vöðvaslakandi lyf haft með því af Cisordinol einu og sér verður maður eins og spýtukall ... stífnar allur upp.


Á eftir maníu fylgir alltaf niðursveifla, hún er mismikil eftir styrkleika maníunnar. Ég átti ekki von á mikilli dýfu þegar manían var að renna sitt skeið á enda, en frá lok júlí fram í miðjan september var allt miklu þyngra og erfiðara en vanalega. Ég þurfti virkilega að hafa fyrir því að klára vinnudaginn, líkamsrækt varð t.d. leiðinleg og vinir mínir sögðu mig svolítið þöglan og hugsi þegar þeir hittu mig. Ég var samt ekkert eitthvað rosalega þungur en ég myndi segja að mér hafi liðið svona sirka 3 af 10 mögulegum á ánægjuskalanum. Ég svaf að meðaltali 15 klukkutíma á dag - þetta voru sex vikur sem var miklu lengra en ég átti von á, miðað við bara tíu daga maníu í júní. Geðdeildardvölin og sprauturnar höfðu greinilega meiri áhrif en ég bjóst við.


Þegar ég var yngri og upplifði mjög djúpar þunglyndissveiflur þá vörðu þær bara í 10-12 daga - en þær voru svakalega svartar og erfiðar. Líðanin var þá 0,5 af 10 á ánægjuskalanum, ef það náði því. Kannski er betra að upplifa svoleiðis sveiflu og hún er búin á 10-12 dögum, frekar en sex vikur af deyfð ... og þó, í stuttu sveiflunni er allt ómögulegt og viljinn til þess að lifa nánast enginn.


KRK






bottom of page