top of page

Ragnar Tómas Hallgrímsson

Ef ykkur vantar þýðanda, úr íslensku yfir í ensku, þá er Ragnar Tómas Hallgrímsson kóngurinn í þeim geira. Ég kynntist Ragga í lok árs 2019. Ég hafði verið að leita mér að þýðanda frá því að Maníuraunir kom út ári áður en ég var samt ekki að leita mjög grimmt. Fann á mér að þessi þýðandi sem ég var að leita að kæmi til mín, án þess að ég reyndi mikið. Ég var samt með kröfur, að þessi þýðandi myndi verða svona léttur félagi í ferlinu - ekki bara þýða allt, fá greitt og kveðja.


Í ágústmánuði 2019 hélt ég fyrirlestur og þetta var í eina skiptið sem ég spurði út fyrir mína vini og fjölskyldu hvort einhver vissi um góðan þýðanda. Ég fann á mér að einhver gæti hjálpað mér. Eftir fyrirlesturinn talaði ung kona við mig, hún heitir Sara Huld Jónsdóttir. Við þekkjumst örlítið, hún vann á bráðageðdeild 32 C fyrir nokkrum árum og við áttum þar mörg frábær spjöll saman. Hún sagði mér að hún ætti góðan vin sem væri með BA í ensku og MA í þýðingarfræðum sem hefði búið í sjö ár í USA. Ég spurði bara að einu: Er hann húmorískur? Svarið var já og ég sendi honum því skilaboð þegar ég kom heim.


Þetta tæpa ár sem hafði liðið frá því að Maníuraunir kom út hafði ég misskilið þýðingarvinnuna og hvað ég þyrfti að greiða fyrir þetta alveg virkilega mikið. Ég var að segja við fólk að þetta tæki svona tvo mánuði og myndi kosta u.þ.b. 150.000 kr., sem er eitthvað það vitlausasta sem ég hef látið út úr mér. Raggi var spenntur fyrir þessu og spurði mig hver tímaramminn væri og hvað ég hefði hugsað mér að borga fyrir. Ég sagði 2-3 mánuðir og svona 150.000 kr. (síðan ætlaði ég að vera grand á því og geta neglt upphæðinni upp í 200.000 kr.). Raggi svaraði ekki í nokkra daga á eftir og ég fór að spyrja fólk í bókabransanum nánar út í vinnuna við svona þýðingu. Mér var tjáð að svona 320 bls. bók tæki örugglega 2-3 mánuði í fullri vinnu og 150.000-200.000 væri alltof lág upphæð að borga fyrir. Ég sá þetta fyrir mér sem 2-3 mánuði í léttri aukavinnu en ekki fullri vinnu. Ég bað því Ragga einlægt afsökunar á þessari verðhugmynd en hann sagði og segir enn að tímaramminn sem ég gaf honum hafi verið vandamálið! Ég sagði honum að ég hefði heyrt frábæra hluti um hann, að ég vildi mikið vinna með honum og hvort hann gæti gert mér tilboð í þetta. Honum fannst þetta allt mjög spennandi og ef hann mætti gera þetta með öðrum verkefnum þá gætum við græjað þetta á svona einu ári.


Þetta gekk allt vel, hægt og bítandi, en það voru nokkrar hindranir. Cóvíð auðvitað, Raggi eignaðist annað barn, sem er að sjálfsögðu ekki hindrun en var ekki komið undir þegar við kynntumst og ég fór í tvær maníur en ég var auðvitað sá sem las yfir þýðinguna og fact-tékkaði allt.


Ég myndi segja að það séu ekki margar þýddar bækur jafn útpældar og þessi bók okkar Ragga: Don’t Stop Me - My Life with Bipolar Disorder. Hann var síðan einnig ritstjóri bókarinnar. Við hefðum getað gefið hana út í flýti fyrir síðustu jól en fórum nokkrum sinnum yfir í viðbót í byrjun árs. Í mars sl. ákváðum við síðan að Raggi myndi lesa inn hljóðbókina og þegar ég hélt að bókin væri tilbúin í maí þá var hann að æfa sig að lesa upphátt fyrir hljóðbók og vildi breyta 243 setningum! Þá var ég eiginlega klár á því að ég væri búinn að finna meiri detail-mann en mig sjálfan. Við vorum stundum alveg örugglega að gera hvorn annan sturlaða á yfirferðum og algjörum tiny detail-um en guð minn almáttugur hvað þetta var skemmtilegt og gott samstarf.


Nafnið á bókinni kom mjög seint í ferlinu en aðrar pælingar voru: I’m Only Manic in the Summers … On a Few Mood Swings and One Nude Fling … Life in the Bipolar System … The Many Curious Moods of Kristinn Rúnar Kristinsson … Manic! at the Disco. Don’t Stop Me varð það að lokum, svolítið út frá því hvað fjölskylda og vinir hafa reynt að stöðva mig mikið í gegnum tíðina í maníum, þvert á minn vilja. Þetta eru því ákveðin skilaboð til þeirra að láta mig frekar í friði á meðan manían ríður yfir. Að reyna að stoppa mig og fara í einhverjar aðgerðir hefur gert ástand mitt stundum verra og jafnvel stuðlað að ósætti eða jafnvel að vinabönd hafi slitnað.


Takk kærlega Raggi minn fyrir algjörlega magnað samstarf! You are the Main Man!


KRK










bottom of page