top of page

Ráðherrann - Mitt álit

Sjónvarpsþáttaröðinni um Ráðherrann lauk á RÚV í kvöld. Mögulega verða seríurnar fleiri á komandi árum, það er búið að tala um það á síðustu dögum og miðað við lokaþáttinn í kvöld þá verður að teljast líklegt að það verði framhald. Pabbi sagði mér fyrir nokkrum mánuðum að handritshöfundarnir hefðu verið í sjö ár að skrifa þessa seríu og aðalpersónan, leikin af Ólafi Darri væri með geðhvörf – háskólakennarinn Benedikt Ríkarðsson sem var dreginn inn í pólitík og varð formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og síðan forsætisráðherra eftir glæstan sigur í alþingiskosningum. Ég varð strax spenntur og ákvað að horfa á þetta gaumgæfulega frá byrjun, með gagnrýnum augum en auðvitað líka með opnum hug. Við pabbi vorum sammála um að svona sjónvarpsefni á Íslandi, þar sem aðalpersónan væri með geðhvörf, hefði líklega ekki verið til umræðu að gera fyrir u.þ.b. 15 árum síðan.

Mér fannst þetta þræl skemmtilegt og vel heppnað í nánast alla staði. Manían hjá forsætisráðherranum fannst mér þó fara of rólega af stað. Benedikt var frá byrjun öðruvísi einstaklingur og með aðrar hugsanir en kollegar hans en ég var að bíða eftir einhverju meira afgerandi fyrr. Í fjórða þætti voru allt í einu margir farnir að hafa áhyggjur af honum, að hann væri orðinn svo ör eftir að hann tók við embættinu og þyrfti á hjálp að halda. Frá þeim tímapunkti fór manían að stigmagnast nokkuð greinilega. Mér fannst vanta eitthvað smávegis í þætti tvö og þrjú, að hann væri þá farinn að fljúga meira upp áður en áhyggjurnar byrjuðu skyndilega hjá fólkinu í kringum hann.

Það var margt sem ég tengdi töluvert við sjálfan mig og nokkur atriði sem mér fannst alveg einstaklega vel gerð. Eitt atriðið lét mig fá sérstaklega mikla gæsahúð ... ,,Benedikt ... hvernig er álagið að fara með þig? Nærðu alveg að sofa?“ ,,Já, já, já, ja, já, jú. Þú veist, eða Ísland sefur ekki sko.“ Mér fannst þetta svo mikið beint í mark, svona litlar en mjög svo manískar setningar. Einnig var viðeigandi fyrir manneskju sem er að fljúga upp þegar forsætisráðherra bankaði upp á hjá innanríkisráðherra kl. 4.30 að nóttu til. Það er erfitt að bíða eftir því að aðrir vakni, þegar maður er spenntur yfir einhverju eða að eitthvað getur ekki beðið. Það segir sig sjálft. Og í næstsíðasta þættinum (þætti sjö af átta) þegar Benedikt, var einn upp á fjalli í jakkafötum og sauðskinsskóm, með kindunum og hundinum sínum í ekkert sérstaklega góðu veðri, algjörlega í sínum eigin heimi og ekki að spá í neitt annað í langan tíma – búinn að missa öll tengsl við raunveruleikann og að upplifa einhvers konar alsæluástand. U.þ.b. 1% þjóðarinnar tengdi vel þarna. Að hann skyldi slasa sig svona illa er síðan líklega einn mesti ótti allra í kringum þann sem er í mikilli maníu.

Það var þó eitt sem stakk mig mest og mér fannst það óþarfi og ósmekklega sett fram. Kynhvötin eykst vissulega í maníu en þegar Benedikt fór að reyna við aðstoðarmann sinn sem endaði síðan sem áreiti og sjálfsfróun um leið og hún fór út ... það var svona: ,,Ahh, það hefði mátt gera þetta öðruvísi,“ móment.

Maður lifði sig vel inn í alla þættina og ég hélt mikið með forsætisráðherranum í flestu sem hann gerði og í flest öllum aðstæðum. Þó að hann hafi auðvitað verið mjög ýktur í sínum aðgerðum. Ég vonaði að hans andstæðingar, aðallega andstæðingar innan sama stjórnmálaafls, næðu ekki að koma sínum vilja í gegn til þess að koma honum úr embætti með sjálfræðissviptingu eða að birta sjúkraskýrslu með sjúkdómsgreiningu sem átti að verða banabiti Benedikts, eins og þetta var sett upp. Ég tengi vel við þetta, maður hefur upplifað í gegnum tíðina, að sumir aðilar séu að reyna að stöðva mann í því sem maður ætlar sér.

Benedikt lét föður sinn stöðva bílinn í miðju rifrildi á Akureyri og strunsaði út og skellti hurðinni á eftir sér. Þetta hef ég líka gert, við tvær manneskjur – pabba og gamlan vin minn, heppni þá bara að hurðin fór ekki af í látunum.


Þáttaröðin náði að fanga vel það fjölskyldudrama sem oft verður. Samband Benedikts við konuna sína var ekkert sérstakt og skömmin frá henni vegna geðhvarfanna og yfirhylmingin var það sem stóð mest upp úr.

Von mín var eiginlega sú að ástandið myndi dempast hjá Benedikt undir lokin eða að hann fengi viðeigandi hjálp án þess að það myndi hafa áhrif á hans frama í stjórnmálunum ... höfuðhöggið varð það hins vegar sem tók hann úr maníunni, lyf sem hann síðan fékk og svo fylgdi niðursveifla í kjölfarið.


Maður fékk nokkur ryk í augun undir blálokin þegar Benedikt sagði frá geðhvörfunum í ávarpi sínu og hætti þar með feluleiknum, þvert á vilja konu hans. Það er bara alls ekki langt síðan það fór að verða möguleiki hér á landi, þ.e. að opna sig um sín andlegu mál og halda áfram nokkuð eðlilegu lífi.


Ég myndi gefa seríunni 4,3 stjörnur af 5 mögulegum. Einvalalið frábærra leikara og greinilega öllu til tjaldað. Ólafur Darri átti stórleik, sem maður átti von á enda sennilega okkar færasti leikari. Hann var smeykur fyrir fram, að hann hefði kannski ekki leikið þetta nógu vel, og fólk með geðhvörf og aðstandendur þeirra yrðu mögulega óánægð með eitthvað tiltekið. Ég veit að allir sem komu að gerð þáttanna kappkostuðu að gera þetta af virðingu og að sýna geðhvörfin í eins sönnu ljósi og hægt væri. Ég get ekki ímyndað mér að það sé nokkur maður ósáttur með afraksturinn.


Einkar vel gert, frá mínu sjónarhorni séð, og þetta hjálpar töluvert í baráttunni um að fræða landann um geðsjúkdóma og að svona lagað eigi ekki að vera feimnismál. Það kom vel fram í þáttunum að þetta var viðkvæmt feimnismál, að forsætisráðherra væri með geðhvörf. Vonandi verður það ekki þannig í framtíðinni, hvort sem það er í stjórnmálum eða annars staðar.

Að heyra orðið manía á sjónvarpsskjánum var líka létt gæsahúð, það hefur lítið sem ekkert heyrst á skjánum fyrr og yfir 90% fólks hefur ekki haft hugmynd um hvað orðið þýðir. Ég get fullyrt það út frá fyrirlestrinum mínum.

P.S. Ég er ekki búinn að vera mikið á meðal fólks síðustu vikur og mánuði, alltaf í hálfgerðri sóttkví en flestir sem ég hef hitt undanfarið hafa spurt mig hvort ég sé ekki örugglega að horfa á Ráðherrann. Mér þykir vænt um að sumir hugsuðu til mín þegar þau horfðu á þættina.


KRK




bottom of page