top of page

Sjálfsvígið - 1200 manna jarðarför í Hallgrímskirkju

Updated: Dec 8, 2023

Síðan ég kom úr níu mánaða dvöl í Asíu hinn 1. október hefur verið mikið ójafnvægi. Jafnvægið var frábært í Asíu, tólf klukkutímar af birtu og tólf tímar af dimmu, sem hentar mér einkar vel.


Í kringum 15. október fór að bera á ójafnvægi, sem ekki sá fyrir endan á fyrr en í lok nóvember.

Manía, eða uppsveifla, var í vændum. Bíllinn minn er óökufær og þó ég hafi oft fengið far hjá fjölskyldu og vinum þá gekk ég ansi mikið um tíma. Sirka 30 km á dag.

Ég tek alltaf tísku fram yfir þægindi og geng í flottum skóm sem eru þó ekki mjög þægilegir fyrir fæturna. Sprungur og mikil óþægindi fóru að gera vart við sig og ég átti erfitt með að ganga berfættur í sundlaugum borgarinnar. Oddhvassar motturnar voru ekki vinkonur mínar en fljótlega fór ég þó að mæta í inniskóm.


Ég skellti miklu magni af verkjatöflum í mig á þessum tíma og endaði hjá Fótaaðgerðastofu Reykjavíkur í 90 mínútna meðhöndlun þar sem ég fékk innlegg og plástra.

Konan sem meðhöndlaði mig hafði vart séð fætur í verra ástandi.

Einnig fór ég í nudd þar sem voru miklar bólgur og til kírópraktors þar sem mikill hnútur og hálsrígur hafði gert vart við sig.


Áfram héldu göngurnar og ekki hlustaði ég á að kaupa þægilega hlaupaskó heldur keypti ég mér þunnbotna, græna Nike strigaskó. Það var heimskulegt. Ég fékk fljótlega djúpt hælsæri og fæturnir urðu í verra ástandi en fyrir fótaaðgerðina.


Þessi manía var sársaukafull á margan hátt. Mikið svefnleysi og miklir verkir í fótum.

Ég var að sofa 0-4 klukkutíma fyrstu þrjár vikurnar, síðan skánaði það og fór í 3-5 klukkutíma næstu tvær vikurnar og eftir það fór þetta að verða betra og nær eðlilegum svefni.


Ég verslaði varning eins og í öllum maníum, mun minna en áður engu að síður, og var tíður gestur á The English Pub. Þar er trúbador og stemning hvort sem það er laugardagur eða mánudagur. Flesta daga fékk ég mér bara 1-2 bjóra eða Red Bull en tvisvar sinnum lágu nokkrir Long Island Iced Tea, það var eingöngu gert til að ná að sofa. Einn drykkur inniheldur tvö og hálft skot þannig að maður finnur vel fyrir nokkrum svoleiðis.

Mamma hafði áhyggjur af því hvað ég svaf fast eftir þessa drykki, en ég varð að ná að sofa, ég sagði henni það.

Það er mjög átakanlegt að fara í gegnum nokkrar vikur og fara aldrei í djúpsvefn.


Aðfaranótt 5. nóvember gekk ég u.þ.b. 50 km um bæinn og tæmdi mig gjörsamlega.

Þetta er fyrsta vetrarmanían mín og ég klæddi mig ekkert betur en á sumrin - hef ekki átt úlpu síðan ég var unglingur og er alltaf að rokka bara vind- og regnjakka frá 66 gráður norður.


Með hælsæri, haltrandi um og skítkalt kom ég mér heim með sígarettu í trantinum.

Mér leið virkilega illa. Hitaði mér kjúklingavængi í ofninum og hugsaði með mér hvað í fjandanum ég væri að gera og hvaða tilgang allar þessar göngur hefðu.

Ég grét og hló til skiptis. Ég bý í foreldrahúsum því íbúðin mín er í útleigu.

Mamma hafði aldrei heyrt jafn há hlátrasköll og svo jafn djúpan grátur þess á milli.

Ég var í blönduðu ástandi, sem er mjög hættulegt ástand. Bæði að upplifa þunglyndi og maníu yfir sama daginn.


Ég hugsaði með mér að ég gæti ekki meira af þessu lífi. Skrokkurinn væri algjörlega tómur og það væri best að taka eigið líf og endurfæðast síðar innan fjölskyldunnar, eins og ég trúi svo sterkt á - ein sál sem lifir í mörgum líkömum í gegnum aldanna rás.


Ég ætlaði að hoppa í sjóinn. Hafði reyndar áhyggjur af því að ég gæti svamlað þar um alltof lengi áður en ég dytti út vegna mikils selspiks. Það væri betra að reyna að hoppa úr ágætri hæð á einhvern klaka og láta höggið taka mig til himna.

Ég var búinn að segja við fjölskylduna mína að syrgja mig ekki ef ég færi á undan þeim. Ég komi Laukferskari til baka síðar, og að ég hafi lifað þessu lífi til fulls.


Ég var kominn á þann stað að ég var að fara að skrifa bréf með beiðni um að jarðarförin mín yrði haldin í Hallgrímskirkju svo að sem flestir gætu mætt. Hún tekur 1200 manns og ég vildi hafa alvöru erfidrykkju og veislu eftir jarðarförina.

Henson myndi hanna fjórskipta treyju fyrir kistuberana að klæðast. Tvískipta að framan og að aftan, með Breiðablik og Manchester United framan á og Hauka og Dallas Mavericks aftan á. 15, 41, 23 og 24 væru á treyjunum, eins og ég er með tattúverað á mig.


Ég var sáttur við að kveðja þarna, 34 ára gamall, og vera jarðaður við hliðina á Guðna bróður. Skrokkurinn gat ekki meira og það var komið mikið mar á sálina eftir áföllin í þessu lífi. Ég þyrfti á svefninum langa að halda.

Þetta er í annað sinn sem ég íhuga alvarlega að taka eigið líf. Hitt skiptið var þegar ég var þrettán ára gamall og var kominn á fremsta hlunn með að hoppa niður af tíundu hæð í íbúðarblokk.


18% þeirra sem eru með geðhvörf taka eigið líf og 40% reyna það oftar en einu sinni. Það var því gefið að ég gæti lent í miklum erfiðleikum í lífinu með þessar prósentur hangandi á bakinu.


Í stað þess að fara út í sjó hringdi ég á sjúkrabíl og bað um hjálp. Sagðist vera í sjálfsvígshættu og að ég þyrfti að komast undir læknishendur.

Sjúkrabíllinn kom á nokkrum mínútum og á meðan tók ég til nauðsynjavörur.

Við fórum á bráðamóttökuna í Fossvogi, þar var ég í nokkra klukkutíma og spjallaði við gott fólk.

Ég var því næst ferjaður á Hringbraut, á geðdeild 33 C.


Ég er öllum hnútum kunnugur þar, með meiraprófið eins og hefur verið sagt.

Ég heilsaði öllu fólkinu og fékk mér sígarettu. Því næst fékk ég sprautu, lyf og ráðgjöf.

Mér leið ennþá ömurlega og hringdi í Ragnheiði systur mína og spurði hvort hún gæti komið upp á deild. Það vildi svo heppilega til að hún var að koma í bæinn frá Selfossi, þar sem hún býr. Hún var í Kömbunum og ætlaði að koma strax til mín.


Hún mætti galvösk og við föðmuðumst. Ég gat ekki einu sinni grátið, var galtómur. Ég tjáði henni á sannfærandi máta að mig langaði að kveðja þennan heim og við áttum langt spjall í kjölfarið. Hún hringdi í Inga bróður sem mætti fljótt. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir þau að horfa upp á mig svona, með enga lífsvon eða lífsvilja.


Þreytan var mikil þarna og ég sofnaði í miðjum samtölum. Ítrekaði engu að síður að skrokkurinn væri búinn og að ég vildi láta jarða mig við hlið Guðna bróður.

Ragga og Ingi stóðu sig eins og hetjur í erfiðum aðstæðum og við hringdum í Krissa Haff og báðum hann um að hitta okkur á næstu dögum og stappa í mig stálinu. Það eru fáir betri en hann í það verkefni.


Eftir þrjá daga var ég orðinn ágætur aftur og tilbúinn að taka slaginn á ný sem lífið er.


Jarðarförin verður seinna en ég er allavega búinn að plana hana þokkalega vel þegar kallið kemur!


Ég vona að þið hafið það sem allra best elsku vinir, og munum að tala saman ef okkur líður illa. Fjölskylda, vinir og hjálparsamtök eru alltaf til taks en maður þarf að vilja hjálpina líka. Við erum aldrei byrði á aðra og við erum aldrei að trufla með því að heyra í okkar nánustu, þó mörgum líði þannig þegar þeim líður illa.


One Love,


KRK






bottom of page