top of page

Sumrin kitla alltaf


Ég er eiginlega hættur að nenna að spá í veðrinu á Íslandi; annað en t.d. foreldrar mínir sem horfa á tvo fréttatíma á dag. Það er samt ekki annað hægt en að hugsa um veðrið síðustu daga í sömu setningu og geðhvörf, sérstaklega á þessum tíma árs. Í raun og veru er veðrið á Íslandi í heild sinni svipað og manneskja með geðhvörf, sveiflurnar eru oft rosalega miklar og ýktar. Það er ekki langt síðan það var t.d. bongóblíða rétt fyrir sumardaginn fyrsta og 14 stiga hiti.


Í morgun þegar ég vaknaði fann ég til löngunar að skrifa smá póst um veðrið, sumarið og fótboltadraumana sem læðast iðulega að mér í maníu yfir sumartímann. Kannski á ég að fagna því að sumarið sé að láta bíða eftir sér með alls kyns veðurafbrigðum, eins og það hefur sýnt sig síðustu vikuna; svo ég fari mögulega ekki að fljúga upp.

Maníurnar sem ég hef upplifað, fjórar talsins, hafa verið í júní, júlí og ágúst. Ég hef fjallað um það áður að sumarið 2009 hringdi ég í þjálfara Breiðabliks og bað hann um að fá að mæta á æfingu hjá liðinu (verðandi bikarmeisturum), þá nánast ekkert búinn að snerta fótbolta í fimm ár! Það var ekkert mál að fá að koma og þjálfarinn nokkuð spenntur að hitta mig þó svo að þetta hafi vissulega verið óvanalegt. Ég sannfærði hann um að ég væri rétti maðurinn til að raða inn mörkunum fyrir liðið, m.a. því ég hafi verið markakóngur á Shellmótinu árið 1998. Það var hins vegar fljótlega gripið í taumana og þetta ævintýri því miður fljótt á enda.


Seinasta sumar komu aftur upp knattspyrnudraumar og ég taldi mig geta hluti sem ég var alls ekki fær um að geta. Ég fór í knattspyrnuverslunina Jóa útherja í Ármúla og verslaði mér varning fyrir stórar upphæðir, allt saman sett á raðgreiðslur. M.a. keypti ég tvenn pör af takkaskóm, sjö knattspyrnutreyjur og Mitre bolta upp á nostalgíuna - eitt parið var ætlað til þess að nota á grasi og hitt á gervigrasi. Daginn eftir að ég fór í þennan eftirminnilega verslunarleiðangur tábrotnaði ég á litlu tá með því að rekast ansi harkalega í bekk í búningsklefa World Class í Laugum; þannig að ég komst aldrei í hægri skóinn á splunkunýju skónum mínum, hrikalega svekkjandi verð ég að segja. Það varð því lítil bæting á þeim knattspyrnuhæfileikum sem ég hafði sem barn, allavega ekki þetta sumarið.


Sumrin kitla alltaf, núna hef ég farið í fjórar maníur á þeim níu árum síðan ég greindist árið 2009. Það er því alls ekkert víst að ég upplifi eitthvað stórt í sumar þó svo að maður finni alltaf fyrir betri líðan á þessum tíma árs. Þegar það síðan gerist að ég upplifi stóra maníu eða „full-blown maniaá ensku, þá er því líkt við að vera á amfetamíni, kókaíni og alsælu öllu á sama tíma. Ég hef ekki prufað þessi efni en hef fengið að upplifa þetta á náttúrulegan hátt; það er því erfitt að ætla að kippa manneskju inn á geðdeild þegar henni líður svona rosalega vel en þó nauðsynlegt í sumum tilfellum. Það endar bara iðulega mjög illa og oft á tíðum verða miklir árekstrar hjá fjölskyldum og ástvinum vegna veikindanna og inngripa þeirra. Ég hef t.d. þrisvar af fjórum skiptum farið í lögreglufylgd á geðdeild, þó ekki beint vegna ágreinings við fjölskyldu og vini heldur vegna þess að ég hef verið kominn langt út fyrir normið.


Gleðilegt sumar kæru vinir, njótið þess til hins ýtrasta. Veðrið hlýtur að fara að ákveða sig hvað og hverju hvaða árstíð raunverulega sé, svo að ég geti allavega farið að æfa mig úti á velli!


KRK




bottom of page