top of page

„Taktu byssu með þér hvert sem þú ferð“

Updated: Feb 5

Ég er búinn að vera í Mexíkó samtals í sex mánuði; fimm mánuði 2013-2014 og tæpan mánuð núna.

Guanajuato, bærinn sem ég hef verið í, er inni í miðju landi. 200.000 manna bær eða u.þ.b. sami íbúafjöldi og á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Þetta er rólegur bær, svolítill túristabær, en samt alls ekkert morandi í útlendingum.

Ég held jafnvel að það sé hægt að telja Íslendingana sem hafa komið hingað á fingrum beggja handa. Og þó, það er kannski aðeins of ýkt. Eða aðeins OG ýkt, eins og alltof margir segja!


Ég ákvað að fara hingað árið 2013 eftir stúdent, gera eitthvað svolítið villt og öðruvísi. Ég þurfti að sannfæra foreldra mína um að þetta væri í lagi og ég fékk gamlan vinnufélaga minn, Jóhann Pétur Kristjánsson, til þess að hitta þau en hann bjó hér í eitt ár rétt eftir aldamót. Þau urðu rólegri við það, sérstaklega mútta, Áslaug Erla Guðnadóttir, en sumir félaga minna sögðu við mig: „Taktu byssu með þér hvert sem þú ferð.“ Auðvitað var kannski ekki 100% alvara á bak við það, en samt sem áður viðvörun að fara varlega á ákveðnu hættusvæði ... að þeirra mati. Hættan er hins vegar að mestu bundin við glæpa- og eiturlyfjagengi og margt blásið upp í fjölmiðlum varðandi landið.


Staðreyndin er sú að þessa samtals sex mánuði hef ég ekki heyrt eitt byssuskot, ekki öskur, ekki hefur verið gerð tilraun til að ræna mig eða ég verið eltur.

Einu sinni fyrir tíu árum heyrði ég útundan mér: „Pinche gringo“ eða „helvítis hvítingi.“ Þá vissi ég að það væri best að ganga rösklega í burtu.

Ég hef verið í México City líka og þar fann ég fljótlega að ég ætlaði ekki að vera einn á nóttunni, það var horft svolítið mikið á mig þar.

Ég nota bara úr ef ég er með heimafólki og er eingöngu með þann pening og það kort á mér sem ég þarf hverju sinni. Eins og raunar ég geri alltaf erlendis. Síðan er bara að reyna að vera svolítið „streetwise“, vera kurteis og almennilegur og þá ætti maður ekki að lenda í miklum vandræðum.

Maður getur ekki hagað sér í Mexíkó eins og maður á það til að leyfa sér í miðbæ Reykjavíkur.


Maturinn er frábær en ekkert sérstaklega hollur. Tacos, quesadillas og tortas í nánast öll mál. Þegar ég var hér síðast þá náði ég að þyngjast um tólf kíló á fimm mánuðum! Þrátt fyrir að fara nánast allar mínar leiðir á tveimur jafnfljótum, upp og niður, útum allt. Þetta var ákveðið afrek og sýnir líka hvað þetta Mexíkó-gúmmelaði er gott!

Ég vona að þyngdaraukningin verði minni í þetta skiptið, en ég get ekki lofað neinu.


Það er Uber-þjónusta hérna sem er ljúft og kostar tíu mínútna far eingöngu 500 kr., án þjórfjár. Leigubílstjórar hika oft ekki við að ofrukka útlendinga duglega sem líta út fyrir að vera nýliðar á nýjum slóðum. Ég eiginlega forðast leigubílstjóra eins og heitan eldinn erlendis. Ég snögghitna við að vera ofrukkaður, það er svo mikill drullusokksháttur, sama hverjar kringumstæðurnar eru.


Hátindurinn hingað til var að fara á León-fótboltaleik með Francisco, vini mínum, og vinum hans - Dennis og Mario. Frábær stemning, 15.000 manns á vellinum og 3-2 sigur. Sigurmarkið kom með lokasnertingu leiksins á 99. mínútu!

León er 4. stærsta borg Mexíkó, 40 mínútum frá Guanajuato. Einnig fór ég í afmælisveislu til Francisco sem var mjög skemmtilegt en við kynntumst fyrir tíu árum.


Hitinn er 5-25 gráður sem er skemmtileg blanda, það verður frekar kalt á nóttunni en síðan snögghitnar á daginn.

Ég er sex klukkutímum á eftir Íslandi, á sama tímabelti og t.d. mínir menn í Dallas.


Ég er í Airbnb-íbúð hjá algjörlega frábærum gestgjafa sem heitir Emmanuel og hefur hann aðstoðað mig mikið. Við höfum náð mjög vel saman, farið út að borða og á tónleika í León á Lost Frequencies, en það kom mér á óvart að maðurinn á bak við það er belgískur plötusnúður og „record producer“ en ekki hljómsveit. Flestir þekkja nokkra slagara eins og „Are You With Me“, „Where Are You Now“ og „Reality“.

Ég er búinn að sýna íbúðina vel í story en hún er svolítið hátt uppi en það er korters ganga niður í miðbæinn. Gangan til baka er nokkurs konar líkamsrækt, hörkugott „hike“.

Ég býst við því að vera áfram í þessari íbúð á meðan ég verð hér en hún er núna í dýrari kantinum, m.v. Mexíkó, u.þ.b. 100.000 kr. á mánuði en ég mun fá afslátt ef ég bóka aftur.


„Hvernig er spænskan hjá þér?" Hafa sumir spurt mig. Ég hef reynt að hugsa það og koma því rétt til skila. Rétta lýsingin kom fyrir nokkrum dögum. Ég er rúmlega mellufær! Skil slatta en á erfitt með að mynda langar setningar. Ég var orðinn ágætur í auðveldum samræðum þegar ég kom heim árið 2014. Hef alltaf getað grillað aðeins í spænskumælandi afgreiðslufólki á Íslandi síðan þá en er búinn að gleyma miklu á síðustu tíu árum. Draumurinn í framtíðinni er að verða jafngóður í spænsku og ensku, sirka 8,3/10 í samræðum. Það yrði virkilega gaman en krefjandi á sama tíma.


Ég er á leiðinni til Guatemala 6.-16. febrúar en ástæðan fyrir því að ég fer svona snemma er að ég keypti flugmiða í september þangað. Ég bókaði upprunalega flug til Mexíkó í október og ætlaði að endurnýja Visa í febrúar með því að fara til Guatemala og aftur til baka til Mexíkó.

Vegna maníu á Íslandi frestaðist hins vegar ferðin til Mexíkó þangað til í janúar.

Það verður áhugavert að kíkja til Guatemala í tíu daga og kynnast Mið-Ameríku aðeins betur. Þetta verður fimm tíma rútuferð til México City frá Guanajuato og síðan tveggja tíma flug frá México City til Guatemala.


Ég verð eitthvað lengur í Mexíkó eftir að ég kem frá Guatemala 16. febrúar, tek frekara spænskunám í Escuela Falcon - en er síðan á leiðinni aftur til Filippseyja, þar sem ég á orðið marga vini. Finnst líklegast að það verði seinni partinn í mars sem ég fer þangað.

Ég kem síðan til Íslands fyrir brúðkaup aldarinnar hjá Horny Carl Wehmacker (Arne Karl Wehmeier) og Katie K. (Katrín Ýr), þann 17. ágúst.


P.S. Ég er með ellefu kíló af lyfjum með mér og er beintengdur geðlækni á Íslandi. Það hafa aldrei verið geðsveiflur erlendis hjá mér og hjálpa þar mikið jöfnu birtuskilyrðin. Þangað til það breytist, að ég upplifi geðsveifu erlendis, þá ætla ég ekki að hafa miklar áhyggjur, þó svo ég sé alltaf með varann á.


KRK




bottom of page