top of page

Taíland - Þar sem nuddið aldrei sefur og fegurðin ávallt gefur

Ég var í Taílandi 26. febrúar-26. mars. Þrjár vikur í Bangkok og eina viku á Phuket. Èg lofaði hörkupistli, myndum og myndböndum úr ferðinni og var pistillinn skrifaður í fluginu frá Bangkok aftur til Manila í gær.


Ég vissi ekkert mjög mikið um Taíland áður en ég fór þangað, bara þetta helsta: Fallegt land, ódýrt, góður matur, að fólk vildi helst ekki fara þaðan og að margir heimsóttu landið margsinnis; settust jafnvel þar að. Ég vissi að maturinn væri frábær, enda einn dyggasti viðskiptavinur Thai Style á Smiðjuvegi, á árum áður. Ég er frekar vanafastur og mætti samviskusamlega nánast alla fimmtudaga, ásamt stundum öðrum dögum, frá 2008-2015. Það var réttur hjá þeim sem ég fékk algjört æði fyrir, Khao Ku Kabi: Holdahænukjöt, eggstrimlar, hrísgrjón, hrár laukur til hliðar, sítróna og einhver töfra sykruð, svört sósa. Thai Style var því helsta tengingin mín við landið og þekkti ég marga þjóðarrétti eins og Phad Thai, Khao Pad og Massaman.


Nudd, ladyboys allsráðandi og glæsilegar eyjar, þessu vissi maður líka af, en ég vissi engin smáatriði, þannig lagað. Eins og ég sagði í síðasta pistli þá langaði mig að sjá með eigin augum muninn á Filippseyjum og Taílandi fyrst svona margir rugluðu Filippseyjum við Taíland. Umhverfið og landið er ekki ósvipað en fólkið, maturinn og tungumàlið er mjög ólíkt. Mér finnst svona meiri Asíubragur í Taílandi, varðandi tungumálið og verandi með sitt eigið stafróf. Enskukunnáttan er líka töluvert skárri á Filippseyjum og fólkið þar meira af blönduðum uppruna og aðaltungumálið, Tagalog, með svolítið af spænsku keim - sem hjálpar mér, því ég var í Mexíkó um hríð fyrir tíu árum.


Í fyrsta sinn á ævinni, og í kjölfarið nokkrum sinnum í Bangkok, gekk ég út af veitingastöðum því matseðillinn var eingöngu á Taílensku og ekkert af starfsfólkinu skildi eitt orð sem ég reyndi að segja. Ég geri mitt besta að reyna að sýna stóíska ró, þó að það gangi ekki alveg alltaf. Það sauð svona 20% á mér í eitt skiptið, ég var búinn að labba mikið og var ekki alveg að finna hentugan stað til að setjast að snæðingi. Mér finnst magnað hvað það eru ótrúlega lítið af skyndibitakeðjum í Taílandi, ég gekk mjög mikið um Bangkok og sá varla neina keðju. Einn Mcdonald’s-stað, einn Pizza Hut-stað og einn Domino’s. Þar með er það upptalið. Taílendingarnir treysta 100% á sína matarmenningu. Á Filippseyjum labbarðu ekki lengur en tíu mínútur og þá detturðu inn í ameríska skyndibitastemningu. Jæja … ég spurðist fyrir um „Menu” á veitingastaðnum en fékk engin svör, það var eingöngu yppt öxlum og starfsfólkið horfði til skiptis á hvert annað og á mig. Ég lék það síðan að ég héldi á spjaldi með tveimur höndum og væri að velja eitthvað á ímyndaða spjaldinu. Þetta var létt þrot þarna og ég áttaði mig betur á vandræðunum sem gætu orðið. Ég vissi fyrir fram að Taíland er næstmestsótti ferðamannastaður Asíu, á eftir Kína, þannig að ég bjóst við meiri enskukunnáttu.


Eftir vandræðin með matseðilinn fann ég frábæran grillspjótstað þar sem þeir skildu mig ágætlega og ég fór örugglega 10x þangað. Eins og ég sagði, þetta var allt aðeins flóknara en ég hélt; heimilisföngin voru líka á Taílensku og það gekk ekki alltaf vel að hitta á þau varðandi Airbnb-íbúðirnar og hótelin. Ólíkt á Filippseyjum þar sem þeir nota okkar stafróf og Kaninn er fyrirmyndin þeirra.


Ég fór til Phuket síðustu vikuna, rúmlega klukkutímaflaug þangað frá Bangkok og ég bókaði hótel við mestu djammgötu Taílands - Bangla Road við Patong Beach. 400 metra löng gata og hvert einasta rými var glæsilegur skemmtistaður/bar eða skemmtun af einhverju tagi. Þetta var eitt mesta „shock” sem ég hef upplifað, hvað þetta var flott og mikill kraftur í þessu! Staðirnir opnir til 04.00 alla daga. Það er töluvert aggressíf stemning á Phuket, sérstaklega á kvöldin/nóttunni og ég var nokkrum sinnum gripinn og haldið í mig í nokkrar sekúndur til að reyna að fá mig í nudd eða inn á skemmtistað. Mjög skemmtilegt engu að síður en ég fann að þetta varð þreytandi eftir nokkur kvöld, áreitið og hávaðinn er mjög mikill. Talandi um nuddin, klukkutíma heilnudd kostar á Phuket 150 baht, 600 kr. Framboðið líklega hvergi meira í heiminum og samkeppnin mikil. Framboðið töluvert meiri en eftirspurnin, get ég fullyrt.


Mér var tjáð að ég yrði að fara á Karlsson’s Steak House, sem er rekið af Svía við Patong Beach. Greinilega töluvert þekktur staður því nokkrir félagar/kunningjar mínir sendu á mig og sögðust hafa farið þangað. Fékk þar dýrindis Rib-eye steik, gratineraðar kartöflur og rauðvínssósu. Mix sem ég hef ekki séð heima en steinlá, heldur betur.


Èg átti von á því hitta Íslendinga í Taílandi, sérstaklega á Phuket en það gerðist ekki. Hef ekki hitt neinn samlanda minn þessa þrjá mánuði mína núna erlendis, er ekki að leitast eftir því sérstaklega svosem en bjóst við eins og einni laukferskri Íslendingamynd í Taílandi.


Á næst síðasta deginum fór ég í átta klukkutíma siglingu um nokkrar eyjur á Phuket. Phi Phi Island, Bamboo Island og Maya Bay. Ég hef aldrei farið í álíka ferð og var þetta algjörlega stórkostleg upplifun! Snorkla, kafa, sjá apa og glæsilega fiska í sjónum í návígi og kristaltæran sjóinn. Þetta verður mjög ofarlega í minningarbankanum í framtíðinni. Þessi ferð kostar samtals 7.700 kr. með nokkrum leiðsögumönnum og hádegishlaðborði ásamt drykkjum, ávöxtum og ís í siglingunni. Það er náttúrulega bara grínverð. Við vorum 35 manna hópur saman.

Ég mæli svo sannarlega með Taílandi en það þarf samt að velja vel hvert er farið. Bangkok er allt í lagi … Phuket er algjörlega frábær staður en ég fann líka að ég var ekki beint að hvílast vel þar. Skrokkurinn var þreyttur eftir nokkra daga þrátt fyrir engin sóðaleg skröll, þannig séð - ég hef vit á því (ennþá) að gera það ekki einn í útlöndum! Ég er líka ekki 19 ára lengur og formið mætti vissulega vera aðeins betra. Þykkur með sjàlfstraust samt sem áður, alltaf.


Svakaleg ferð að baki og maður hitti eða kynntist líka góðu fólki. Það er oft fegurðin við að fara svona einn, ef maður er í góðum gír og opinn fyrir því að hitta nýja einstaklinga þá er það alltaf að fara að gerast. Tengingin iðulega mismikil, eins og gengur og gerist, en alltaf áhugavert og skemmtilegt.


Khob Khun, Thailand!


KRK




 
 
 

Kommentare


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page