top of page

Var kjálkaskurðaðgerðarferlið þess virði? Þrjú ár eru nú liðin - Óbærileg var langa biðin

Updated: Sep 5, 2023

Ég átti í tölvupóstsamskiptum við tannréttingasérfræðinginn minn, Árna Þórðarson nýverið. Ég fer til hans í skoðun einu sinni á ári, eftir að tannréttingaferlinu lauk, en ástæðan fyrir samskiptunum í byrjun sumars var að ég náði að glopra frá mér svona júniti úr plasti, c.a. 20 saman, sem hann gefur skjólstæðingum sínum. Notað til að þræða tannþráð undir stálboga.


Ég, búsettur á Filippseyjum, og vissi að ég væri ekki að fara að finna þetta auðveldlega hér.

Ég sendi honum því tölvupóst með yfirskriftinni „Asíu-redding". Hann græjaði þetta að sjálfsögðu fyrir mig, enda einn mesti fagmaður sem ég hef kynnst. Við náðum rosalega vel saman. Ræddum pistlana tvo sem ég hafði skrifað árið 2020, annar sem ég var tilbúinn með daginn eftir kjálkaskurðaðgerðina og hinn viku á eftir aðgerð. Við vorum sammála um að það vantaði þriðja pistilinn - núna nokkrum árum seinna, til að segja frá hvernig allt hafi gengið.


Ég hvet þá sem hafa áhuga á heildarferlinu, og dögunum á eftir aðgerð, að skoða hina tvo pistlana mína frá því í maí 2020.

Vonandi finnst fólki þessi skrif áhugaverð og fyrir einhverja gætu þau hjálpað þeim að kýla á að láta skoða sig betur og fara í nauðsynlegt tannréttingaferli.


Til að stikla örstutt á stóru frá pistlunum 2020 þá byrjaði ég í tannréttingaferli í upphafi árs 2019 hjá Ortis tannréttingum. Sem mér finnst eiginlega bara að eigi að heita „Hjá Árna Þórðarsyni". Svoleiðis er alltaf svarað í símann: Hjá Árna Þórðarsyni, góðan dag.

Ég nefndi nafnabreytinguna við Árna og hann hló vel, sennilega enginn annar stungið upp á þessu við hann.


Árni talaði mjög fljótlega við mig um kjálkaskurðaðgerð vegna mjög djúps sentímeters yfirbits. Að spangir einar og sér til æviloka myndu ekki einu sinni ná að laga bitið. Mér leist vel á það, hélt þá að ég myndi sleppa við spangirnar fyrst að ég færi í aðgerð. Það varð síðan slæmur og skondinn misskilningur hjá okkur félögunum. Spangir eru mikilvægar í ferlinu. Ég var samtals með spangir í 17 mánuði. Glærar í efri gómi allan tímann og stálin stinn í neðri gómi í 14 mánuði. Árni gaf mér þrjá mánuði sumarið 2019 til að vera með einungis í efri, til að gera sumarið aðeins bærilegra.


Kjálkaskurðaðgerðin gekk nokkuð vel, tók rúma tvo klukkutíma. Erfiðara á hægri hliðinni var mér sagt.

Batinn gekk vel, ég undirbjó mig mjög nákvæmlega á allan hátt varðandi hann.

Þetta er líklega ein erfiðasta aðgerðin að leggja á fólk, mjög svo mikið inngrip. Það er brotið kjálkabeinið þitt, þú verður mjög bólginn og átt virkilega erfitt með að næra þig.


Að fara í flókna líkamlega aðgerð eins og eftir krossbandaslit, eða þess háttar, er mjög erfitt að takast á við en það er hægt að leita sér huggunar í mat til að byrja með og hamra í sig hvaða góðgæti sem er, og hafa það bærilegt.

Eftir kjálkaskurðaðgerðina er aðalstemningin að fá sér Hámark og grænmetissúpu. Virkilega erfitt samt sem áður útaf þéttum og stórum teygjum sem maður er með í fjórar vikur á eftir aðgerð.


Þetta var svo sem ekkert stórmál hjá mér, þó ég viti að sumir gráti af vanlíðan.

Fyrstu tvær vikurnar voru nokkuð stremdnar og útlitslega leit maður illa út.

Eftir fjórar vikur mátti tyggja mat rólega og þá ertu kominn á lygnan sjó.


Það sem var langerfiðast fyrir mig og áhyggjuefnið var dofinn í neðri vörinni og hökunni. Hann var hræðilegur fyrst. Guðmundur Ásgeir kjálkaskurðlæknir, kleip mig mjög fast með töng í neðri vörina viku eftir aðgerð, og ég rétt svo fann fyrir því. Hann sagði að við þyrftum að gefa þessu tíma. 10% fólks lendir í varanlegum taugaskaða eftir svona aðgerð. Það er áhættan, og maður skrifar upp á skjöl þess efnis að vera meðvitaður um að það geti gerst.


Aðgerðin mín var ekki sú auðveldasta að framkvæma, frekar en nokkuð annað sem ég læt gera, þannig að ég var ekkert alltof vongóður um 100% bata með þetta. Margir peppuðu mig, að þetta gæti tekið um átta mánuði að jafna sig. Einnig vafraði ég um á Netinu og las að jafnvel þó að fólk væri með varanlegan taugaskaða að einhverju leyti í neðri vör og höku, þá hefði það oftast lítil eða engin áhrif á þau í daglegu lífi.

Ég hugsaði með mér: Hvernig í ósköpunum getur þetta ekki haft mikil áhrif?


Hægt og bítandi fór þetta að jafna sig. Ég var mikið að meta stöðuna mánuðina á eftir og í lok árs 2020, var ég kominn á þann stað að ég væri sáttur með gang mála ef þetta yrði bara svona. Þetta væru meiri framfarir en ég þorði að vona vikurnar eftir aðgerðina. Síðan fór ég eiginlega að hætta að spá í þessu en fann svolítinn mun á neðri vörinni í frosti.


Þetta var rétt sem ég las, þó að tilfinningin komi ekki alveg til baka þá hefur það ekki mjög mikil áhrif. Það er erfitt fyrir mig að gefa nákvæma prósentu með þetta en ég myndi segja að ég sé með 80% tilfinningu í dag. Og eins og ég segi, þá er það betra en ég þorði að vona. Það voru engar framfarir fyrstu sex vikurnar eftir aðgerð og ég var smeykur.


Bitið er hins vegar algjörlega frábært og tennurnar glæsilegar. Þær voru frekar góðar fyrir, nokkuð beinar og öflugar. Fóru úr svona 8,6 í 10.

Árni sagði við mig: „Ég get bara ekkert gert þetta betur. Ég er langbestur!"

Ég tjáði honum að það myndi ekki nokkur maður mótmæla því, hann ætti að segja það upphátt sem oftast.


Ég losnaði við spangirnar 25. nóvember 2020, sem var mikill gleðidagur. Ég átti ekki von á því að gera nokkurn skapaðan hlut félagslega með spangirnar uppi í mér en það var nokkuð fljótt að breytast.

Ég sagði í fyrri pistlinum, varðandi allt fram að aðgerð, að það hafi engin farið á fjórar í tannréttingaferlinu, sem tók í heildina tæp tvö ár, en ég get staðfest að það breyttist snögglega eftir að spangirnar hurfu.


Settir voru stálbogar uppi og niðri, í kringum samtals tíu tennur. Þykkara og meiri fyrirferð á því en ég átti von á en ég býst við því að hafa þetta til æviloka. Annars skekkist bitið bara með árunum. Einnig sef ég með sérhannaðan góm, til að halda tönnunum beinum og óaðfinnanlegum - þannig að þetta er heljarinnar dæmi til að halda öllu „Rock Solid".


Ég hef oft á tíðum, í gegnum árin, verið töluverður hausverkjapési. Gjarnan seiðingur í gangi og oft tek ég inn Íbúfen með miklu vatni eða tvær Treo. Mér var tjáð að þetta gæti verið vegna skakka bitsins en það er nokkuð ljóst að það er frekar vegna missvefns og matarræðis, sem er ekki til framdráttar, heldur en skökku biti.

Því miður fyrir mig, var að vona að seiðingurinn myndi minnka eftir aðgerðina.


Í heildina séð er ég sáttur með allt. Bitið er svakalegt núna! Aðgerðin gekk fullkomlega varðandi bitið. Guðmundur er mjög fær í sínu fagi og gott að spjalla við hann.

Auðvitað hefur það smá áhrif með þetta allt að ég er ekki með alveg fulla tilfinningu í neðri vör og höku.


Ég var örlítið hræddur um að það yrði einhver varanleg útlitsbreyting eftir aðgerðina. En það er mjög takmarkað og þá bara til góðs. Þrátt fyrir að ég hafi verið með djúpt yfirbit þá var ég ekki með þessa klassísku inndregnu höku sem oft fylgir á þeim bænum.


Þjónustan og samstarfið við Árna og Ortis stendur upp úr. Skemmtilegt starfsfólk og alltaf gaman að koma í Faxafen-ið. Ég kom sirka 30 sinnum til þeirra á þessum tæpu tveimur árum og þau hjálpuðu mér alltaf snögglega með allt saman.


Ég hafði frestað tannréttingunum frá árinu 2001. Ljóst var að vandamálið var alvarlegt.

Ég sagði tannfræðingnum mínum það strax, Guðrúnu Stefánsdóttur, fyrrverandi tannfræðingi hjá Krýnu, að ég myndi aldrei geta verið með spangir - ég væri að díla við slæmt líkamlegt form, sem hefði mikil áhrif á mig, og ég væri einnig að byrja að upplifa svart þunglyndi. Ég gæti þetta bara ekki. Ég sá fyrir mér að ég yrði tekinn fyrir hver hvert sem ég færi, en það varð nú ekki alveg raunin.

Það var mjög skemmtilegt að sýna henni loksins afraksturinn og að ég hafi kýlt á þetta, þegar ég hitti hana síðast.


Persónulegur sigur fyrir mig að klára þetta!


KRK









bottom of page