top of page

Víetnam - Vespuóð þjóð þar sem þú ert sleginn við það að versla þér skópar

Ég var í Víetnam 24. apríl - 10. maí. Mig hafði lengi langað að fara þangað. Þekki nokkra sem eru þaðan, búsettir á Íslandi, og hafði eingöngu heyrt góða hluti um landið. Eitt það fyrsta sem maður tekur eftir er gjaldmiðillinn, dong. Háar tölur fyrir lága fjárhæð í flestum löndum. Ein milljón dong eru tæpar 6.000 kr. Það tók nokkra daga að venjast þessu og miklu magni mismunandi seðla. Besta var að ekkert klink er notað.


Ég leigði íbúð í gegnum Airbnb í höfuðborginni, Hanoi, sem ég viðurkenni að hafði aldrei heyrt nefnda áður. Ég er allt í lagi í höfuðborgum heimsins, kannski með 25% á hreinu, en Hanoi hafði ég aldrei heyrt um. Íbúðin var mjög fín, um 70 fm og kostaði 51.000 kr. fyrir 16 daga - sem er í raun grínverð miðað við t.d. miðbæ Reykjavíkur. Hverfinu gef ég 3/5 í einkunn, eflaust til mun betri og hreinni hverfi í borginni. Fyrri hlutann af ferðinni var ég mikið að vinna í heimasíðunni minni, sem ég hafði lent í meiriháttar vandræðum með, og fór ég því ekkert út úr hverfinu. Seinni hlutann gerði ég heiðarlega tilraun til að ná einu skralli en það fór ekki vel því heimilisföngin eru snúin, eins og í Taílandi, og endaði ég alltaf í einhverri eyðimerkurgöngu eftir að hafa tekið Grab, Uber þeirra Asíubúa. Ég náði einum bar og nokkrum bjórum þar en staðurinn lokaði 01:30 og ég hélt heim á leið nokkuð vonsvikinn. Ef maður er einn á framandi slóðum, veit ekkert um svæðið, reynir að finna staði með stafrófi sem þú skilur ekki og fáir skilja mann yfirhöfuð, þá er í raun slembilukka ef eitthvað gott kemur út úr því.


Á næstsíðasta deginum fór ég í dagsferð til Ha Long Bay, sem tók 13 klukkutíma með öllu. Vegalengdin þangað frá Hanoi í rútu er svipuð og að keyra Reykjavík-Vík í Mýrdal. Veðrið var ekkert spes, ausandi rigning um morguninn en síðan stytti ágætlega upp en það var skýjað allan tímann. Hefði mátt vera betra en ég gat strax fagnað því að ég myndi ekki brenna eins og í ferðinni í Phuket, Taílandi. Það var alvöru bruni og bara vitleysisgangur í mér, var tíu daga að jafna mig almennilega eftir það rugl.


Ha Long Bay eru 1600 eyjur, mjög svo flottar. Ferðin kostaði 7.000 kr. með öllu. Rúta, matur um borð og leiðsögumenn ... kayak, synt í góðum sjó, farið inn í helli og siglt um eyjurnar. Veðrið skemmdi svolítið fyrir stemningunni, en hún var engu að síður góð og maður kynntist nokkrum flottum aðilum.


Þegar ég fór út til Asíu, frá Íslandi, í lok desember þá tók ég tvenn skópör með mér, inniskó og körfuboltaskó sem útiskó. Þegar ég fór til Taílands var ég bara með bakpoka og í útiskónum. Daginn fyrir brottför til Víetnam eyðilögðust körfuboltaskónir mínir, það fór að stingast út úr þeim að innan og ég komst ekki almennilega í annan skóinn. Það var því bara að fara á inniskónum, sem er svona létt “Turn Off” varðandi að vera að fara eitthvað út á lífið eða á veitingastaði - þrátt fyrir ágætis hita í loftinu. Ég ákvað að láta inniskóna duga og var ekkert að kaupa mér útiskó en pantaði á Netinu og skórnir biðu heima hjá mínum allra besta Pat, þegar ég kom aftur til Manila.


Í ferðinni til Ha Long Bay var ekki gott að vera bara í gömlum inniskóm, töluverð ganga upp í móti. Fyrir kayak-ferðina fór ég úr inniskónum. Eftir ferðina, sem var algjörlega frábær og hápunkturinn fyrir mér, datt ég beint á spjall við einn í hópnum og óð inn í skipið berfættur. Þegar við ætluðum síðan í hellinn leitaði ég út um allt og blótaði smávegis þangað til að ég áttaði mig á því að skórnir urðu eftir í kayak-inu. Ég var því orðinn alfarið skólaus í Víetnam - en eftir ferðina, og áður en haldið var í rútuna, gat ég verslað strandarskó til að bjarga mér.


Ég fór í tvo bása og báðar konurnar reyndu að selja mér inniskó sem voru 4-5 númerum of litlir á mig. Ég hugsaði: „Sjáið þið í alvörunni ekki að þetta eru alltof litlir skór á mig?" Sú sem ég fór fyrst til átti bara skó sem voru allavega fjórum númerum of litlir en þessi við hliðina á átti skó sem voru bara tveimur númerum of litlir. Ég endaði á því að kaupa fáránlega óþægilega strandarskó. Ég gekk síðan fram hjá konunni sem reyndi fyrst að selja mér skó. Hún sló mig mjög fast í bakið fyrir að kaupa ekki af sér! Þó svo að stærstu skórnir hennar voru númer 40. Ég leit á hana og það fyrsta sem kom upp í hugann var: “What are you doing, bitch!?” Kannski ekki bestu viðbrögðin en mér sýndist hún ekki skilja mig. Hún skildi samt augnaráðið og það voru nokkrar konur fyrir aftan okkur sem gripu fyrir andlit sitt yfir þessu atriði, ég veit ekki hvort undrunin hafi verið meiri yfir slættinum eða orðbragðinu mínu. Kannski jafn mikið.


Ég sagði í Story hjá mér eftir nokkra daga að mér fyndist fólkið ekkert svo vinalegt en að það væri á sama tíma ekki að segja mér að drulla mér heim til mín ... og að ég myndi líklega ekki kynnast neinum en að tíminn myndi leiða það í ljós. Fólkinu var einhvern veginn slétt sama um mann, klárlega öðruvísi stemning á Filippseyjum og í Taílandi. Mér fannst þetta samt batna seinni hluta ferðarinnar en slátturinn í Ha Long Bay frá blessaðri sölukonunni hjálpaði ekki til við álitið mitt. Djöfull hamraði hún í bakið á mér, maður! (Henni var samt ekki sama um mann, svona þegar ég les aftur yfir það sem ég skrifaði. En full ýkt viðbrögð hjá henni, að mínu mati allavega.)


Það er algjört vespuæði, miklu meira en í Taílandi og á Filippseyjum. Maður var alltaf fyrir, alltaf verið að flauta á mann - meira að segja á gangstéttum og í það þröngum stígum að vespur ættu varla að komast þar í gegn. Mér fannst þetta áhugavert en líka svolítið þreytandi fljótlega. Ég verð stundum létt pirraður ef það er verið að flauta á mig endalaust. Einn ökuþór klessti á vatnsflöskuna sem ég hélt á í þrönga stígnum, sem ég gekk um daglega. Svo þröngt var þetta. Hann bað mig afsökunar. Ég var auðvitað ekkert að fara að leggja hendur á hann, enda aldrei gert. Læt yfirleitt orð duga ef þess þarf, en hann hefði hvort sem er ekki skilið þau.


Veðrið var skrítið. Ég upplifði köldustu og heitustu dagana síðan ég fór frá Íslandi í desember. 20 gráður og 40 gráður, sem var bara gaman - ég hef aldrei á ævinni upplifað 40 stiga hita áður. Ég sökkti mér lítið ofan í matarmenninguna þeirra en það sem ég prófaði var mjög gott.


Cám ón, Víetnam! Þetta var fróðlegt og skemmtilegt ... eins og oftast þegar maður heimsækir nýjar slóðir. Ég kem kannski aftur seinna - betur undirbúinn, betur skóaður og helst með einhverjum sem þekkir vel til.


Es. Ég skrifaði pistilinn rétt fyrir flugið aftur til Manila. Ég hafði ekki hugmynd um að flugferðin til baka yrði sú magnaðasta sem ég hef upplifað. Ekki af því að ég sat við neyðarútgang og þ.a.l. með frábært fótapláss án þess að borga fyrir það, heldur út af sessunauti mínum. Fyrsta sem hann sagði við mig var: „Breiðablik! Iceland!“ Ég var í Blikatreyju, eins og svo oft áður, og hef sjaldan orðið jafn hissa á ævinni ... á leið frá Víetnam til Filipsseyja og það er maður að hrósa mér fyrir treyjuna sem ég er í og hafði heimsótt Ísland nokkrum sinnum. Hann fór að tala um Neskaupstað og fleira sem ég átti alls ekki von á að heyra í þessari flugferð. Ég gat ekki annað en hlegið á köflum. Ég gef þessu í mesta lagi 0,1% líkur á að hafa geta gerst, þetta með Blikana sérstaklega.


Hann sagðist heita Jonas og vera frá Svíþjóð, búsettur í Víetnam með fjölskyldu sinni - að hann væri rithöfundur og væri að skrifa fyrir sænskt tímarit. Förinni væri heitið til Manila í þrjá daga að kynna sér borgina, hitta nokkra aðila og skrifa um upplifunina. Ég gat gefið honum ýmis ráð um borgina, hvert væri gaman að fara og hvað bæri að gæta sín á. Ég hafði á tilfinningunni að hann væri svolítið þekktur í Svíþjóð, virkaði ljúfur maður og klár. Ég spurði hvort hann væri þekktur penni í heimalandinu, hvort fólk þekkti nafnið hans þegar þegar það sá pistla eftir hann. „Sumir gera það." Hógvært svar. Ég tók mynd af okkur saman því mér fannst svo magnað að hann þekkti Breiðablik. Ég setti myndina í Story hjá mér og fékk skilaboð frá gamalli vinkonu að hann væri stórt nafn í Svíþjóð; Jonas Sjöstedt, formaður Vinstri flokksins frá 2012-2020 og þingmaður í tíu ár á sænska þinginu. Nokkuð gott! Við spjölluðum nánast alla ferðina en hann minntist ekki einu orði á stjórnmál eða sinn feril á þeim vettvangi. Þetta var allt saman óvænt og virkilega skemmtilegt!


KRK




 
 
 

Comments


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page