top of page

Áramótapistill 2015 - Afhjúpun strípalingsins

Updated: Jan 3, 2020

Ég hef síðustu ár gert upp árið í kringum áramótin með texta og myndum. Síðustu ár hafa verið fín, sérstaklega 2011-13. Í fyrra fór heilsunni að hraka og ég að veikjast mikið eins og á unglingsárunum og á árunum 2008-2010. Um síðustu áramót fór ég bjartsýnn inn í þetta ár, þetta hlyti að verða gott ár því 15 hefur alltaf verið yfirburðatala hjá mér. Janúar-maí gekk ágætlega, þunglyndið minnkaði og ég sá fram á góða tíma, ég veiktist síðan af maníu í byrjun júní. Ég ætla að leyfa mér að segja að árið hafi í einu orði verið vonbrigði og í tveimur orðum gífurleg vonbrigði. Það gekk bókstaflega ekkert upp sem ég ætlaði mér og langaði að gera. Ljósið í myrkrinu er að þetta ár er að klárast og erfiðustu mánuðir ársins að baki.

Mig langar að segja eina sögu, eina af fjölmörgum sem gerðust þessa tíu daga sem ég var „sky high“ af maníu í sumar. Hún er kannski sérstaklega áhugaverð núna því við Almar í kassanum vorum svolítið með sömu pælingarnar. Ég hugsaði minn gjörning samt ekki beint sem list á þeim tímapunkti heldur frekar til að ryðja veginn fyrir aðra, líkt og #freethenipple voru að gera, mitt var þá #freethenob.

Það vita fáir nema mínir nánustu hvað var um að vera i seinustu maníu. Laugardaginn 13. júní, daginn sem ég fór svo inn á geðdeild, þá fór ég niður í miðbæ. Ég var nokkuð rólegur þegar ég labbaði inn á English Pub og fékk mér mjöð, það var hrikalega gott veður og ég í hörkugír, mér leið eins og milljón dollurum. Ég tók eftir því að það var eitthvað mikið um að vera á Austurvelli. Ég sá að þar var #freethenipple samkoma og fullt af fólki. Hausinn á mér fór á fullt og ég fann innra með mér að það hlyti að vera ástæða fyrir því að ég væri mættur akkúrat þangað á þessum tímapunkti. Ég byrjaði að labba i kringum svæðið og skoða þetta og kanna aðstæður. Fór á English aftur, fékk mér annan bjór og ákvað það hvernig ég ætlaði að gera þetta. Það var maður frá Boston þarna inni að spyrja mig hvað væri í gangi þarna úti. Ég sagði við hann án þess að blikka auga: „Það er samkoma hérna útaf mér, það er verið að breyta þjóðhátíðardeginum úr 17. júní í 13. júní og ég er að fara upp á svið á eftir og tala fyrir hönd þjóðarinnar.“ Honum fannst það bara töff og við ræddum um Celtics og Larry Bird árin í dágóðan tíma. Eftir það fór ég út og lét til skarar skríða. Ég var klæddur eins og ég væri að fara i ræktina - stuttbuxur, bolur og íþróttaskór. Ég tók labbið framhjá sviðinu, meðfram Alþingi og labbaði að styttunni af Jóni Sigurðssyni. Klæddi mig því næst úr öllum fötunum og stillti mér upp og byrjaði að „pósa“ fyrir myndatökum i svona tíu sekúndur. Klæddi mig beint i fötin og hvarf á brott. Þarna taldi ég mig vera að sýna baráttunni samstöðu og taldi líklegt að Íslendingar myndu fylgja á eftir og koma fram eins og þeir fæddust í þennan heim þegar þau vildu. T.d. í sundi og bara alls staðar. Lögreglan hafði svo afskipti af mér stuttu siðar á Ingólfstorgi þegar fjölmargir voru búnir að hringja i hana, fólki var ekki sama. Þetta var eitthvað sem það var ekki vant að sjá.

Lögreglan skutluði mér heim en ekki upp á lögreglustöð eða geðdeild því ég var rólegur á að líta og hafði í raun lítið gert af mér. Ég ákvað að fara i heitapottinn heima, hann er staðsettur við Digranesveginn og mikil umferð þar. Mér fannst ég þurfa að fara og stjórna henni á sundskýlunni. Ég fór ekki út á götu en var í brekkunni að gefa fólki merki, og um að auka eða minnka hraðann og klappaði eða húðskammaði þau eftir því hvernig þau stóðu sig. Ég sá fólk taka upp símann og hringja í lögregluna, þá ákvað ég að kíkja aftur í pottinn til að sýnast rólegur þegar hún kæmi. Hún kom nokkrum sinnum en hafði ekki næga ástæðu til að handtaka mig. Loks kom Birgir Örn Guðjónsson A.K.A. Biggi lögga. Þá breyttist eitthvað, mér fannst ég þekkja hann persónulega þegar hann kom. Ég spjallaði við hann, lagðist sjálfviljugur á grasið og áttaði mig á því að ég þyrfti hjálp. Við fórum upp á geðdeild og ég dvaldi þar í mánuð til meðhöndlunar.

Ég er s.s strípalingurinn sem birtist á Visi.is 14. júní, þar birtist þessi mynd af mér sem fjölskyldan mín bað um að taka út því þau héldu að ég færi á einhvern bömmer með þetta þegar manían myndi renna af mér og ég færi aftur á Netið. Þegar bræður mínir sýndu mér þetta í lok júní hló ég bara og fannst þetta flott. Það er fullt af fólki sem var ánægt með þetta í kommentakerfunum. Ég myndi segja að ég sé ekkert að springa úr stolti yfir þessu í dag en skammast mín núll. Þetta er ekki eitthvað sem ég myndi gera „undir venjulegum kringumstæðum.“

Ég veit að þið vitið, elsku vinir, að 95% tímans er ég bara venjulegur LA Kröddz eins og þið þekkið mig, þó ég sé búinn að koma fram með ýktar sögur af mínum veikindum síðasta árið. Ég er búinn að vera í raflostsmeðferð undafarnar vikur til að reyna að koma á jafnvægi hjá mér, sveiflurnar hafa verið ansi miklar, upp og niður, síðustu 15 mánuði. Eftir síðustu raflostsmeðferð árið 2011 var ég andlega stabíll í rúm þrjú ár. Vonandi að þessi skili árangri líka.

Gleðilegt ár kæru vinir, takk fyrir það liðna þó svo ég hefði viljað vera í miklu meira sambandi. Megi 2016 verða ykkur frábært ár. „Það er allt hægt ef viljinn er fyrir HENDUR“, eins og einn meistari sagði eitt sinn við mig. Ég ætla að vera hóflega bjartsýnn, en samt alveg bjartsýnn.


KRK






 
 
 

Comments


  • facebook
  • instagram

Reykjavík - Iceland

© 2025 Kristinn Rúnar

bottom of page