Áramótapistill 2018 - Manía drepin viljandi í fæðingu í fyrsta sinn
- Kristinn Rúnar
- Dec 30, 2018
- 3 min read
2018 var algjörlega frábært ár. Ég myndi ganga svo langt og segja að það sé eitt af þremur bestu árum lífs míns, hin tvö eru 1999 og 2013. Andlega jafnvægið var mikið og gott allt árið, sem er forsenda þess að það gangi vel - ekki bara hjá mér, heldur öllum. Allt árið fór í að skrifa bókina mína, Maníuraunir - Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli, ganga frá henni, gefa hana út og koma henni persónulega til fólks. Að hitta allt fólkið, kynnast því eða kynnast betur mínum vinum/félögum/kunningjum/ættingjum var ótrúlega dýrmætt og skemmtilegt.
Bókaferlið var heljarinnar ferli og hjá mér kemst oft bara einn hlutur að í einu, það var því ekki í boði að fara til útlanda eða vera mikið með fólki á meðan á ferlinu stóð. Ég einangarði mig frá samfélaginu mánuðum saman með miklum vinnutörnum til að gera útgáfuna mögulega í lok október, sem tókst. Samtals eyddi ég u.þ.b. 1000 klukkutímum í bókina og 32 sinnum fór ég yfir hana í fullri lengd. Ég fékk fyrstu bækurnar í hendurnar frá Prenttækni þann 26. október, sem var mikil gleðistund. Hönnuður og prófarkalesarar, þeir bestu sem völ er á, gerðu það að verkum að ég gat ekki verið sáttari með útkomuna. Ég skrifaði í eftirmála bókarinnar að ég taldi líkur á því að ég færi í maníu við útgáfuna, að þungu fargi væri af mér létt að koma verkinu frá mér, það yrði umtal og smávegis athygli á mér í kjölfarið og að ég gæti skotist upp. Þrátt fyrir að hafa ekki liðið eins vel miðað við árstíma í sex ár, þá hélst ég í jafnvægi. Blessunarlega, því annars hefði allt farið í graut og ég ekki náð að koma bókinni frá mér - mögulega endað á geðdeild, sem hefði gert allt saman skrítið og sérstakt því 9. kaflinn í bókinni heitir einfaldlega: „Lífið inni á geðdeild á Íslandi“. Ég fór fljótlega með eintök á þær geðdeildir sem ég hef dvalið á síðan 2009, bráðageðdeildina og tvær opnar deildir. Sem betur fer hélst ég í jafnvægi, stemningin hefði orðið einkennileg inni á deildunum hefði ég farið þangað í innlögn, því ég gangrýni suma geðlækna og sumt starfsfólk í bókinni.
Ég mátti einfaldlega ekki fara í uppsveiflu í sumar ef bókin átti að koma út í haust. Aldrei hef ég reynt að koma í veg fyrir maníu, þær eru bæði skemmtilegar og þroskandi þó svo að nokkrir stórir ókostir fylgi henni, svo sem eyðslusemi, svefnleysi og að valda fjölskyldu og vinum miklu áhyggjum. Fyrir sumarið hafði ég farið í fjórar maníur á níu árum frá geðhvarfagreiningunni sem ég fékk árið 2009. 4/9 er 44,44% líkur, svona eins og mjög góð þriggja stiga skytta í körfubolta. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði í fyrsta skiptið að reyna allt til að koma í veg fyrir maníuna. Ég barðist fyrir því að fá lyf sem ég fæ inni á bráðageðdeildinni, sem er elsta geðlyf sögunnar - Chlorpromazine, sem er geðrofslyf. Ég vissi að það væri erfitt að fá það, það væri ekki á lyfjaskrá og það þyrfti að sérpanta það. Ég náði því í gegn eftir nokkurra mánaða baráttu, borgaði 13.000 kr. fyrir 90 töflur í einkareknu apóteki. Töluvert há upphæð fyrir geðlyf. Ég tók 50-100 mg af lyfinu alltaf þegar ég fann að ég væri að missa svefn vegna spennu út af bókinni, aukinni birtu eða betra veðri. Annað sem ég gerði, sem hljómar kannski ótrúlega, var að halda mér algjörlega úr formi. Ég veit nefnilega að líkamlega formið hefur áhrif á líðan mína og sjálfstraust. Þegar ég tók af mér 25 kíló á þremur mánuðum í upphafi sumars 2017 þá rauk ég upp í maníu, því ég var sáttari með sjálfan mig og sjálfstraustið jókst. Planið var því að hlaða frekar á sig kílóum, heldur en hitt, fram í október og fara síðan að hugsa aðeins út í formið eftir útgáfu. Þetta myndi nánast frysta hugsanlega maníu sumarsins. Ég náði nýjum hæðum í þyngd í október en tveimur mánuðum síðar var ég tólf kílóum léttari. Þetta svínvirkaði allt saman en ég veit að ég þarf að ná tökum á andlegu og líkamlegu sveiflunum, þetta vinnur allt saman. Sennilega á ég eina djúsí maníu inni við það að rífa enn og aftur af mér 30-40 kíló. Það á hins vegar eftir að koma í ljós.
Annað var það ekki mikið meira á árinu. Þessu verkefni þurfti að ljúka, vonandi fylgja fleiri bækur í framtíðinni. Ég mun lesa sjálfur inn á hljóðbók í janúar, gefa síðan út rafbók og vonandi þýða bókina yfir á ensku: My Manic Life/My Manic Experience/The Manic Experience. Einhver af þessum titlum verður fyrir valinu. Það væri erfiðara að þýða undirtitilinn, og verður ekki gert. Hann yrði þá mögulega þýddur svona: Story of the Naked Man at the East Field (Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli).
Gleðilegt nýtt ár elsku vinir. Takk fyrir allt saman. Ég hef lært það að fara hóflega bjartsýnn inn í ný ár hverju sinni, of miklar væntingar skila sér oftast í vonbrigðum.
KRK

Comments