top of page

Áramótapistill 2019 - Topp þrjú ár

Updated: Nov 8, 2020

2019 - Guð minn almáttugur hvað þetta er búið að vera skemmtilegt ár! Alveg klárlega eitt af þeim allra bestu. Ég hef áður sagt að 1999 og 2013 hafi staðið upp úr hingað til hjá mér, þetta ár er alveg með þeim á toppnum. Það er svolítið magnað að eftir því sem árin eru erfiðari og þyngri sem ég upplifi, því skemmtilegri og viðburðaríkari verða þau 1-2 árum síðar. T.d. voru 2010, 2011 og 2017 mjög erfið ár en í kjölfarið kom eitthvað gott á eftir - sem betur fer.


Ég valdi fjórar myndir til að sýna hápunkta ársins. Helst ber að nefna að ég fékk einkahitting þann 3. apríl í Dallas með Dirk Nowitzki, mínu helsta átrúnaðargoði. Eitthvað sem verður sennilega aldrei toppað og set ég þennan dag sem besta dag lífs míns. Ég varð þrítugur í maí sem var stór áfangi út af fyrir sig, því var auðvitað fagnað vel með fólkinu mínu. Í júlí fékk ég að hitta og afhenda Guðna, forseta vorum, bókina mína við hátíðlega athöfn - ýki það kannski örlítið! Og síðast en ekki síst urðu Maníuraunir að hljóðbók í nóvember eftir töluvert mikla vinnu, hana er að finna á Storytel og hvet ég alla til að kíkja á hana þar.


Ef næsta ár verður 60% af gleðinni sem þetta ár er búið að vera, þá verð ég sáttur. Það er samt margt spennandi fram undan á komandi ári, t.d. að Maníuraunirnar eru vel á veg komnar í enskri þýðingu. Ég setti mér strax markmið að fara alla leið með þetta ferli - kilja, hljóðbók og rafbók á íslensku og síðan rafbók og hljóðbók á ensku. Það þýðir ekkert annað en að hugsa stórt.


Gleðilegt nýtt ár elsku vinir og takk fyrir árið sem er að líða. Það var einnig mjög gaman að kynnast mikið af nýju og góðu fólki á árinu. Síðast en ekki síst er ég þakklátur fyrir gott andlegt jafnvægi allt árið um kring, sem er forsenda þess að það gangi vel - ekki bara hjá mér, heldur öllum. Það er ekki sjálfgefið í mínu tilfelli og vonast ég auðvitað eftir áframhaldi á því.


Vonandi verður 2020 frábært fyrir okkur öll. Ég ætla samt að halda áfram að fara mátulega bjartsýnn inn í ný ár; hef skotið mig í fótinn áður að fara inn með of miklar væntingar og verða fyrir miklum vonbrigðum.


KRK




bottom of page