Áramótapistill 2021 - Kiddi Kjöt
- Kristinn Rúnar
- Dec 29, 2021
- 5 min read
Ég er vanur að gera upp árið í áramótapistli, þó svo að ég þurfi þess kannski ekkert endilega, enda mjög opinn með mitt líf og birti flest allt á mína samfélagsmiðla jafnt og þétt.
Í þetta sinn vil ég þó eingöngu skrifa um fjölskyldulífið og fjalla um hvað hefur gerst nýlega, í samráði við fjölskyldu mína. Pabbi datt mjög illa aftur fyrir sig, á hnakkann, að morgni 6. desember, þegar hann var að fara út í bílinn sinn og á leið í vinnuna. Það var mikil hálka þennan dag. Hann fór síðan aftur inn og vakti mömmu, en var mjög vankaður þegar hún hringdi á sjúkrabíl. Farið var með pabba á bráðamóttökuna og teknar myndir, sem leiddu í ljós blæðingu við heila. Seinni partinn daginn eftir og eftir tvær myndatökur í viðbót, sem sýndu ekki frekari blæðingu, var honum leyft að fara heim en sagt að taka því rólega næstu daga. Pabbi fór aðeins á stjá 8. desember og kíkti á okkur í fyrirtækið sitt, Mathofið, og virtist nokkuð hress. Það var pínu eins og hann væri að jafna sig eftir gott skrall kvöldið áður en hausinn var alveg skýr. Við áttum fínasta spjall saman í hádeginu þennan dag og allt virtist ætla að verða eðlilegt á ný. Klukkan þrjú þann dag, 8. desember, fékk hann mikinn hausverk og kastaði ítrekað upp. Mamma hringdi á sjúkrabíl sem fór í burtu með pabba með blikkandi ljósum.
Um kvöldið, eftir myndatökur, var hann settur í bráðaheilaskurðaðgerð vegna aukinnar blæðingar. Aðgerðin átti að taka 1,5-3 klukkustundir en tók rúmar þrjár klukkustundir. Rétt eftir miðnætti lauk aðgerðinni og hún var talin hafa heppnast ágætlega. Líklega hvorki heilaskaði né súrefnisskortur, var okkur tjáð, en að málið hjá honum myndi þarfnast mikillar endurhæfingar. Ekki skemmtilegt fyrir sögumanninn sjálfan, eins og ég hef sagt við mína nánustu, en það var þó líklega það skásta sem gat gerst miðað við aðstæður.
Dagurinn á eftir var ágætur, honum var haldið sofandi á gjörgæslu og talið að pabbi myndi ná sér á næstu vikum. Að morgni 10. desember kom í ljós enn meiri blæðing og honum flýtt í aðra heilaskurðaðgerð, læknarnir voru í miklum erfiðleikum með að stöðva blæðinguna. Hann var orðinn virkilega slappur þegar þarna var komið sögu og mjög óljóst hvernig framhaldið yrði. Ég á það til að ofhugsa alla hluti - ég er mikið einn, bý einn, vinn einn og maður var kominn með hugsanir í verstu mögulegu átt. Ég þurfti að segja við sjálfan mig fyrir framan spegil að þetta væri ekki búið, að pabbi væri mikill harðjaxl, Kiddi Kjöt sjálfur, og þó hann væri ekkert unglamb lengur (68 ára), þá ætti hann mikið eftir ólifað og við fjölskyldan ættum svo margt ógert saman. Þessi föstudagur var mjög erfiður og skrítinn, maður var búinn að missa mikinn svefn dagana á undan, en áfram að sinna sinni vinnu og líka að vera sterkur með fjölskyldunni.
Helgin 11.-12. desember gekk vel en það mátti ekkert út af bregða. Þrýstingurinn á heilann hafði minnkað og hver dagur sem leið frá aðgerðunum var dýrmætur. Næstu daga á eftir var hann vakinn hægt og rólega. Líkaminn var mjög þreyttur þegar pabbi vaknaði til lífsins, en hann brást vel við umhverfinu og allir útlimir voru í góðu standi en vissi ekki alveg stöðu mála og gat illa tjáð sig. Hann var ólíkur sjálfum sér, illa áttaður og með óráði. Pabbi var mikið marinn í andlitinu og það var átakanlegt að sjá myndir af honum á tímabili á gjörgæslunni - en mínir nánustu töluðu um hvað hann væri sterkur karl og að hann myndi hafa þetta af.
Á síðustu dögum fyrir jól voru ótrúlegar framfarir, hann gat tjáð sig meira og meira þó svo að sumt væri ekki ennþá alveg inni hjá honum. Á aðfangadag var mamma hjá honum og við bræðurnir fengum að tala við hann í gegnum video-símtal sem var virkilega ljúft. Ég spurði hann nokkurra krefjandi spurninga (miðað við aðstæður), til þess að sjá hvar hann stæði. T.d. hvað hann kallaði mig oftast, sem hann mundi ekki, og númer hvað ég væri í systkinaröðinni. ,,Númer þrjú í röðinni,” sagði hann eftir smá umhugsun og ég spurði þá hvort það hafi ekki verið mikill gleðidagur. Hann hló bara dátt að því. Þetta eru búnar að vera mjög erfiðar vikur en það létti mikið á okkur fjölskyldunni að sjá framfarirnar hjá honum og sérstaklega ánægjulegt svona rétt fyrir jólin.
Það sem sat í mér og mér þótti stórskrítið í ljósi þess sem gerðist síðan var að kvöldið áður en hann datt þá ræddum við pabbi um þáttinn um framheilaskaða í Kveik á RÚV. Við eigum alltaf hreinskilin samtöl saman og ég sagði við hann: ,,Ef ég lendi í slysi, og fæ framheilaskaða, og enda sem gjörbreyttur maður, þá væri ég eiginlega frekar til í að deyja. Kannski gróft að segja þetta en þannig líður mér bara með það.” Pabbi gretti sig smávegis og sagði: ,,Jáh”. Hann var semsagt sammála mér að hluta til. Síðan lendir hann í slysinu morguninn eftir og ég gat ekki hætt að hugsa um þetta samtal okkar. Við vonum innilega að pabbi nái fullum bata og þetta með málstolið tekur hann með trompi. Maður var hræddur um að hann gæti bara komið frá sér einu og einu orði það sem eftir væri en þetta lítur nokkuð vel út núna og ég er viss um að hann verði farinn að segja allar sögurnar sínar innan skamms, skellihlæjandi yfir koníaki með vinum sínum og fjölskyldu.
Lífið getur breyst á einni sekúndu, það vitum við fjölskyldan vel, þegar við misstum elsku Guðna Rúnar í flugslysi árið 2007. Ég hélt og trúði því að svoleiðis áföll væru að baki, þ.e. að við myndum ekki missa annan fjölskyldumeðlim af slysförum en hugurinn var kominn þangað um tíma, að bróðir manns og faðir væru farnir af slysförum. Sem betur fer er pabbi að ná sér. Guðni hefði orðið 37 ára í dag, 29. desember, væri hann á lífi, til hamingju með það okkar kæri. Ég er alveg viss um að hann hefur verið með okkur núna að passa upp á pabba. Mig er búið að dreyma Guðna og pabba til skiptis síðustu vikurnar og ekkert nema trú og kraftur hefur einkennt þá drauma. Mamma fékk Guðna í 28 ára afmælisgjöf og á því lítið stórafmæli í dag. Skvísan fagnar 65 ára afmælinu sínu, til hamingju okkar eina sanna Slugga Ræsk. Hún er búin að vera rosalega sterk í þessu ferli varðandi pabba og maður sá það svo ljóslifandi hvað það tekur á að sjá lífsförunaut sinn ganga í gegnum svona tíma. Þau fögnuðu 46 ára trúlofunarafmæli á aðfangadag, í vissulega mjög sérstökum aðstæðum, sem voru samt svo ánægjuleg sökum framfaranna hjá pabba.
Ég vil þakka, og fyrir hönd fjölskyldunnar, vinum, ættingjum, félögum og bara öllum fyrir samhuginn og bænirnar síðustu vikurnar. Síðan vil ég persónulega þakka minni fjölskyldu fyrir allt saman, við erum stór og samheldinn hópur sem stendur alltaf þétt saman.
Gleðilegt nýtt ár, elsku vinir. Njótið lífsins og munum að það getur breyst á svipstundu.
KRK

Commentaires