Ég var ekki nakti maðurinn á hjólinu í miðbænum
- Kristinn Rúnar
- Mar 23, 2017
- 5 min read
Updated: Oct 11, 2018
Ég lofaði maníusögu þegar ég myndi kynna heimasíðuna mína. Eins og kannski sumir muna þá ákvað ég að veita brjóstabyltingunni „free the nipple“ samstöðu í maníunni minni í júní 2015, eða ég hélt allavega að ég væri að því. Ég vippaði mér úr öllum fötunum og stillti mér upp fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni. Það var tekin mynd af mér og birt á Vísi. Myndin lifði þó ekki nema í 86 mínútur því fjölskylda mín hringdi til að láta þá fjarlægja myndina - Vísismenn í hnotskurn þarna.
Bræður mínir sýndu mér síðan strípalingsmyndina þegar ég var að jafna mig af maníunni inni á geðdeild og héldu að ég myndi skammast mín mikið fyrir þetta og voru tregir að sýna mér hana. Mér fannst þetta hins vegar bara töff og skammaðist mín ekki neitt sem kom þeim spánskt fyrir sjónir. Ég fór samt sem áður á Facebook og sendi blaðamanninum harðort bréf fyrir að birta þetta án þess að kanna aðstæður - Vísir hugsar fyrst og síðast um flettingar og auglýsingar en kannar lítið aðstæður, því miður.
Ég spáði síðan lítið í þetta, kafaði ekkert ofan í umtalið í kringum atvikið en ég segi alltaf frá þessari sögu á fyrirlestrinum mínum. Það er gaman að eiga skjáskot af þessari mynd því þessi saga vekur alltaf kátínu á fyrirlestrinum. Það sem ég komst að þegar ég var að búa til heimasíðuna mína og setja inn frétt af þessu athæfi mínu og lesa athugasemdirnar undir fréttunum sem voru birtar var að þennan laugardag, 13. júní 2015, var verið að taka upp auglýsingu í miðbænum af manni í húðlituðum galla en tilgangurinn var að vekja athygli á að ökumenn ættu að taka betur eftir hjólreiðamönnum - að þeir væru oft sem ósýnilegir og hvort fólk þyrfti að vera nakið svo tekið væri eftir því.
Í frétt Vísis stendur: „Nakti maðurinn sem sást hjóla um miðbæinn í dag var við upptökur á umferðaröryggismyndbandi fyrir Félag íslenskra bifreiðaeigenda. Þá var maðurinn ekki nakinn heldur í húðlituðum galla. Lögreglan sagði frá því í dagbók sinni í dag að tilkynnt hefði verið um nakinn mann á hjóli og var hans leitað af lögregluþjónum. Maðurinn sást hjóla fram hjá Austurvelli þar sem fjöldi fólks hafði komið saman vegna brjóstabyltingarinnar svokölluðu. Hann var eltur af fjórhjóli, en á því sat myndatökumaður.“
Í annarri frétt á Vísi kom fram: „Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um allsberan mann á Austurvelli í dag. Maðurinn beraði kynfæri sín á sama tíma og fjöldi fólks hafði komið saman þar í tilefni af brjóstabyltingunni svokölluðu. Samkvæmt heimildum Vísis hjólaði maðurinn um svæðið í dágóða stund. Flestir þeir sem voru á Austurvelli virtust ekki kippa sér upp við athæfi hans. Vert er þó að taka fram að maðurinn var með hjálm og húðlitaðan sokk á kynfærum sínum. Í dagbók lögreglunnar kemur fram að maðurinn hafi látið sig hverfa og lögregluþjónar hafi ekki fundið hann, þrátt fyrir leit.“
Á vef Mbl stendur: Runólfur Ólafsson framkvæmdarstjóri samtakanna segir að auglýsingin hafi verið í undirbúningi í nokkurn tíma og að ákveðið hafi verið að nota góða veðrið í dag til töku. Það hafi verið alveg óháð frelsum geirvörtuna viðburðinum og kom málið nokkuð flatt upp á hann þegar blaðamaður spurði hvort einhver tenging hafi verið þarna á milli. „Tökurnar höfðu ekkert með það að gera,“ segir hann. Runólfur taldi að búið hafi verið að láta lögregluna vita af málinu og þeir því meðvitaðir um uppátækið. Lögreglan lét engu að síður vita af því í tilkynningu til fjölmiðla í dag.
Vísir lokaði svo umfjöllunni með birtingu strípalingsmyndarinnar og hvað raunverulega hafi verið í gangi: „Nú er þó komið í ljós að það voru tveir menn sem vöktu athygli fyrir skort á fatnaði við Austurvöll í gær. Annar maðurinn fór úr öllum fötunum og stillti sér um tíma upp við styttuna af Jóni Sigurðssyni. Á sama tíma hafði fjöldi fólks komið saman á Austurvelli í tilefni af brjóstabyltingunni svokölluðu.“
Þetta blandaðist svakalega saman, minn gjörningur og þessi auglýsing. Svo skemmtilega vildi til að þetta allt var rétt eftir hádegi þennan dag, þ.e. „free the nipple“ auglýsingin og strípalingsatvikið mitt. Það er frekar skondið að þessi auglýsing hafi verið vel plönuð og búið að láta lögregluna vita að þetta yrði allt saklaust en á sama tíma var ég með mitt athæfi og lögreglan hélt að allir væru að hringja út af nakta gæjanum á hjólinu.
Ég skemmti mér konunglega að lesa athugasemdir við fréttirnar, við vinnslu heimasíðu minnar. Fréttin af mér nöktum var sú mest lesna þann daginn; það voru mjög misjafnar skoðanir á þessu í kommentakerfunum. Sumir voru ánægðir með þetta og öfunduðu mig að gera eitthvað svona - að láta bara vaða en aðrir voru alveg brjálaðir. Ég hafi verið að sýna kvenfólki vanvirðingu með því að þurfa að trompa þær á þessum stað og þessari stund. Fyrst þær væru á brjóstunum að þá þyrfti ég að ganga skrefi lengra til að sanna að þær væru ekki að fara að ná fram sömu réttindum og við karlmennirnir.
Þær athugasemdir sem standa upp úr eru frá konum sem voru á Austurvelli þennan dag: „Nei, hann var reyndar ekki með sokk fyrir kynfærum og ekki með hjálm. Hann stóð bara þarna in all his glory. Ég er ekki að segja að það sé slæmt, ég vil í raun bara benda á að konur voru að mæta á Austurvöll og bera brjóstin til þess að ná fram sömu réttindum og karlmenn. Svo sér maður þennan gaur og hann gefur þetta vibe: „Fyrst konur eru að reyna að ná fram sömu réttindum og mínum þá ætla ég að fara skrefi lengra, til að halda konum skrefi fyrir aftan mig. Kannski var hann ekki að meina það en það er allavega tilfinningin sem maður fékk.“
„Þessi nakti karlmaður gaf pínu fuck you tilfinningu með því að sýna kynfærin sín á þessum degi og á þessum tíma.“
Þetta var reyndar akkúrat öfugt hugsað hjá mér, ég taldi mig vera að sýna byltingunni samstöðu með þessum gjörningi mínum. Ég hélt að í þessari maníu minni þarna hlyti að vera ástæða fyrir því að ég væri staddur í miðbænum á þessum tímapuntki og að ég gæti gefið konum auka kraft og þor til að halda þessari baráttu sinni áfram. Þetta gerðist bara, allt í einu var ég kominn úr öllu hjá styttunni af Jóni og klár í „pose“ sem ég hafði aldrei æft áður og mun sennilega aldrei taka aftur. Þetta tók í mesta lagi 30 sekúndur frá því að ég byrjaði að klæða mig úr og þangað til ég var kominn í föt aftur og farinn í burtu. Ég sá engan taka mynd því ég var svo einbeittur að ná góðri stellingu. Líklega tók einhver myndina og sendi á Vísi, ég efast um að atvinnuljósmyndari hafi akkúrat náð að fanga augnablikið en það er þó aldrei að vita því það var margt um manninn.
Mér skilst að tugir manna hafa hringt í lögregluna, þetta var eitthvað sem fólk var ekki vant að sjá. Lögreglan skildi ekki af hverju það var svona svakalega mikið hringt út af auglýsingu af manni í húðlituðum galla með tökulið á eftir sér, en það tók þá nokkra klukkutíma að átta sig á því að við vorum tveir á ferð. Þetta er mjög eftirminnilegt og ég man allt frá þessum degi. Margir muna mjög takmarkað eftir sínum maníum og þeir sem ég þekki vel finnst sérstakt hvað ég get lýst atvikum í þaula sem gerðust á meðan á ástandinu stóð.
Það var mjög gaman að fara í gegnum þetta allt saman - lesa athugasemdirnar við fréttirnar þessa viðburðaríku helgi sem voru nokkrar og sjá hvaða skoðun fólk hafði í kommentakerfunum. Við erum þokkalega dómhörð þjóð, það var enginn að spá í að það gæti eitthvað geðrænt legið þarna að baki; sem betur fer voru nokkrir pepparar að kommenta líka inn á milli sem tóku upp hanskann fyrir mér, það var mjög ánægjulegt.
KRK

Comments